18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2480 í B-deild Alþingistíðinda. (3747)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Frsm. (Ólafur Thors):

Ég vil aðeins vekja athygli hv. 1. landsk. á því, að ýmsir af þessum sjóðum eru nú undir eftirliti fjmrn. Og ég hygg, að það sé alveg eðlilegt og fullkomlega aukið öryggi, að þingkjörnir menn hafi eftirlit bæði með þeim sjóðum og eins öðrum, sem l. þessi ná til. Það er náttúrlega ekki á alveg réttum skilningi byggt, að þó birtir séu reikningar slíkra sjóða í Stjtíð, þá fái menn með því tæmandi upplýsingar um það, hvernig fé sjóðanna sé geymt. Og það er vegna þess, að í slíkum reikningum gæti t. d. verið einn liður, sem talaði um skuldabréf, en þar í gætu vitanlega verið falin margvísleg skuldabréfakaup, sem full ástæða væri til að athuga. — Ég held, að það sé sama, hvernig maður veltir þessu máli fyrir sér, að öryggið verður betur tryggt með því fyrirkomulagi, sem flm. þessa frv. hefir stungið upp á, heldur en með brtt. hv. 1. landsk. Og úr því það er ekki sparnaðurinn, sem vakir fyrir hv. 1. landsk., þá er mér óskiljanlegt, hvers vegna hann hefir borið þessar brtt. fram.

Þetta ætla ég að láta nægja og vænti þess, að hv. þd. lofi frv. að ná fram að ganga óbreyttu, þar sem sérhver breyt. á því er mjög líkleg til þess að drepa það, svo áliðið sem er orðið þingtímans.