27.11.1934
Neðri deild: 46. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (3813)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ekki þykja mér það mikil rök fyrir því aðalatriði, að fækka þurfi bifreiðateg. á markaðinum hér, þó hæstv. fjmrh. segi, að 74 teg. bíla hafi verið í landinu 1930. Hann á eftir að segja frá því, hvað margir bilar voru af hverri teg. Ef ekki hafa verið nema einn til tveir bílar af 60—70 teg., en yfir 90% af öllum bílunum af tveimur eða þremur teg., eins og mér þykir líklegt, að hafi verið, þá er þetta ekki mikil röksemd fyrir nauðsyn einkasölu til þess að fækka bílateg., sem hér eru á boðstólum. Af sérstakri ástæðu hafa nokkrar bílateg. reynzt hentugastar til notkunar hér á landi. Við notum næstum eingöngu ameríska bíla, af þeirri einföldu ástæðu, að þeir hafa kraftmeiri mótora heldur en þeir evrópísku, og við þurfum einmitt bíla með sterkum mótorum.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekkert hættulegt, þó einkasala þyrfti að hafa þrjár til fjórar teg. bíla á boðstólum, við skulum segja eina teg. frá hverri þjóð, sem setti fram kröfu um, að bílamarkaðinum hér væri ekki lokað fyrir sér. En eins og nú er getur engin þjóð sérstaklega krafizt að fá selda bíla frá sér, því það er undir vali kaupendanna komið, hvaða bilar eru fluttir inn. (EystJ: Þetta er misskilningur. Gjaldeyrisnefnd beinir oft viðskiptunum til ákveðinna landa). En fyrst þegar ríkisstj. hefir innflutninginn algerlega í sinni hendi, þá koma eðlilega kröfur frá öðrum ríkisstj. um, að þeirra þegnar séu ekki útilokaðir með sína framleiðslu. Þá er málið orðið á milli ríkisstj., þegar stj. hér er orðin beinn aðili að innflutningnum. Ef slíkar kröfur koma fram nú, getur stj. sagt, að þetta sé ekki hennar viðfangsefni, innflutningurinn fari eftir því, hvaða teg. kaupendurnir vilja eiga.

Mér þótti einkennilegt að heyra það hjá hæstv. ráðh., að hann gerði ráð fyrir, að gjaldeyririnn mundi verða takmarkaður við þessa einkasölu og að stj. mundi fara varlega í að áætla tekjur af henni. Það kann að vera, að hæstv. stj. mundi vilja fara varlega í að áætla tekjur af einkasölunni, a. m. k. fyrst í stað, en það mun enginn fá mig til að trúa því, að hún neiti sér um að láta ríkissjóð fá allar þær tekjur af þessari verzlun, sem hægt er að fá. Enda yrði það erfitt fyrir hvaða ríkisstj. sem væri, sem hefir um margt annað að hugsa en að vasast í verzlun, ef hún ætlaði að fylgjast svo vel með í þessum innflutningi, að hún ákveði sjálf, hvað inn á að flytja í hvert skipti af því, sem um er beðið.

Svo er nú ekki rétt að bera saman að jöfnu áfengiseinkasölu og einkasölu á þessum vöruteg. og tekjuvonir ríkissjóðs af þeim. Því tekjur ríkissjóðs af áfengiskaupum verða sennilega tífaldar við gjaldeyrisþörfina, en hér mundi tekjuvonin ekki verða nema 1/4 af gjaldeyrisþörfinni. Hæstv. ráðh. sagði, að því minni freisting yrði fyrir stj. til þess að taka þessar vörur í sínar hendur. En segjum nú svo, að stj. hafi þurrausið aðrar tekjulindir sínar, svo sem af sölu tóbaks og áfengis, og þetta eru mjög takmarkaðar tekjur, eins og allir vita, og samt sé þörf á auknum tekjum. Þá má sá fjmrh. vera í meira lagi staðfastur, sem ekki réttir út hendurnar eftir þeim tekjum, sem honum eru heimilar, ekki sízt þegar svo á stendur sem hér, að það hefir ekki bein útgjöld í för með sér fyrir neinn af þegnunum, þó að ríkið auki tekjur sínar á þennan hátt.

Þá er eitt atriði, sem ég nefndi ekki í fyrri ræðu minni, en gerir mig mjög undrandi út af því, að stj. skuli telja sig þurfa að flytja svona frv. Sé því svo varið, að þau fyrirtæki, sem hér um ræðir, séu rekin með verulegum hagnaði, þá fær ríkissjóður ekki svo lítið í tekjuskatt af þeim. Og mér er næst að halda, að þessi fyrirtæki beri svo háa skatta til bæjar og ríkis, að þau muni ekki hafa miklar tekjur afgangs. Þegar komið er upp í 50 þús. kr. tekjur, fara 40% að þeim í ríkissjóðinn, og þar að auki 4% eða meira í bæjarsjóð. Svo er með þessu frv. verið að seilast í 15—20% af því, sem eftir verður í höndum þeirra manna, sem með þessa sölu hafa að gera. Og ég er sannfærður um, að nokkur hluti þessara 15—20%, sem nú verða eftir hjá seljendum, fara forgörðum hjá stj. sem aukinn rekstrarkostnaður. Af þessu þykist ég mega ráða, að þetta sé meira stefnumál en fjárhagsmál fyrir hæstv. stj., ekki sízt þar sem hv. Ed. samþ., að 30% af hagnaðinum við ríkisrekstur þessarar verzlunar skyldi afhendast bæjar- og sýslusjóðum. Það, að hæstv. stj. skuli leggja mikla áherzlu á að fá þetta frv. samþ. nú, sýnir, að hér er um principmál að ræða, þessum ríkisrekstri á að skella á vegna þess ágæta princips, sem þeir nefna því ljóta orði: skipulagning.