20.12.1934
Sameinað þing: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

1. mál, fjárlög 1935

Frsm, meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég er samdóma hv. frsm. fyrri hl. um, að það er ekki okkar frsm. hlutur að sannfæra okkar mörgu tilheyrendur um það, að þeir þm., sem hafa borið fram einstakar till., hafi á röngu að standa. Þess vegna mun ég ekki fara neinum mótmælaorðum um þær till., sem hafa komið fram frá öðrum hv. þm., en aðeins minnast á nokkur atriði, sem yfirleitt koma við afgreiðslu fjárl.

Ég vil þá fyrst taka það fram, að með þeirri aðstöðu, sem verið hefir hér á landi síðan þessi skipun peningamálanna komst á, hefir verið mikil hætta á, að fjármál ríkisins lentu í vandræðum. Tekjur ríkissjóðs hafa farið minnkandi, en kröfur til útgjalda vaxandi, svo að tekjur og gjöld hafa oft ekki getað staðizt á. Þar að auki hafa farið sívaxandi kröfurnar um ábyrgðir ríkissjóðs. Það hefir verið svo á síðustu missirum, síðan tekjur landsmanna fóru að þverra og markaðsörðugleikar að vaxa, að meiri og meiri hætta hefir stafað úr þessari átt. Annarsvegar hafa vaxið mjög lausaskuldir ríkissjóðs, og á hinn bóginn hafa vaxið mjög ábyrgðir hans, og einna mest af þeim var samþ. á aukaþinginu fyrir ári síðan. Þá var nokkuð óglöggt um fylgi stj., sem þá sat, og hún hafði í raun og veru ekki fastákveðið fylgi. Og þó að þáv. fjmrh. reyndi að halda í horfinu bæði gagnvart útgjaldakröfum og ábyrgðarkröfum, þá hafði hann ekki stuðning þingsins til þess, svo að þingið, og þá helzt aukaþingið í fyrra, veitti samþ. mörgum ábyrgðum og ýmsum miður vel ráðnum fjárframlögum, tiltölulega meira en á nokkru öðru þingi áður. Það var fyrirsjáanlegt líka, þar sem fjárhagsörðugleikar fóru vaxandi, að þá mundi fjárhagslegu frelsi þjóðarinnar hætta búin, ef haldið væri áfram á sömu braut. Því var það, að þegar nýja stj. var mynduð, sem hafði veikan þingmeirihl., en hafði hann þó, þá ásetti hún sér, og til þess var full þörf, að reyna að nota þá bættu aðstöðu, sem hún hafði fram yfir þá stj., sem sat næst á undan, til að stöðva það flóð, sem var að koma yfir ríkissjóð.

Ég kem þá að einu till., sem meiri hl. n. flytur um ábyrgðarheimild. Hún er á þskj. 912 og er endurveiting á nokkrum hluta af ábyrgð fyrir Ísafjarðarkaupstað og Eyrarhrepp til rafvirkjunar. Meiri hl. fjvn. hefir skorið niður mikið af samskonar óskum úr mörgum kjördæmum, bæði sinna stuðningsmanna og annara. Við fyrri umr. voru samþ. nokkrar smáábyrgðir, og það var meining stj. að láta þar við sitja og bæta engu við. En það þótti ekki réttlátt að synja Ísafirði um þessa endurveitingu, ef kaupstaðurinn gerði kröfu til þess, en væri ætluð miklu minni ábyrgð en fyrr. Ég skal þá taka það fram, að ég ætla, að það komi fram við afgreiðslu fjárl., að ýmsir þm. standi á móti t. d. rafvirkjunarábyrgðum fyrir þau kjördæmi, sem þeir eru fyrir, ekki af því, að þeir viti ekki, að slíkar framkvæmdir eru þarfar, heldur af því, að það sé komið nærri mettunarpunktinum í þessari stefnu. Það er nú þegar nokkurra millj. kr. ríkisábyrgð vegna Sogsvirkjunarinnar, og bæði vegna þess og annars hafa útlendir fjármálamenn haft auga á okkar aðstöðu, sem er nú allt önnur en á meðan sívaxandi markaðir voru fyrir allar okkar afurðir. Það er því, á meðan þessi tregða er um afurðasölu okkar, eitt af því athugaverðasta, sem hægt er að gera fyrir frelsi og sjálfstæði landsins, að ganga langt í því að taka lán. Ég býst við, að borgarstjóri Rvíkur muni verða var við það eftir þá erfiðleika, sem hann hefir átt við að stríða að útvega lán til þessa fyrirtækis, sem þó er áætlað fjárhagslega tryggast af rafveitum landsins. Það, sem vakti fyrir hæstv. stj., þegar hún gekk inn á að ábyrgjast þessa upphæð fyrir Ísafjörð, var það, að þessi kaupstaður er búinn að búa sig undir þessar framkvæmdir með því að leggja fram 5000 kr. til undirbúnings þessarar rafveitu.

Það er ekki mitt hlutverk hér að tala um það, hvernig leysa beri úr þessum vandræðum, en ég vil þó láta það fylgja með, að ég geri ráð fyrir því, að það verði, áður en langar stundir líða, að finna nýjar leiðir, ef unnt er, til þess að hjálpa íslenzkum sveitarfélögum, kaupstöðum og kauptúnum til að fá lán til slíkra mannvirkja, án þess að ríkisábyrgð þurfi að koma til. Slíkt ráð er þekkt erlendis, en það er einskonar félagsskapur bæjanna um lánin. Það er einskonar samvinnufélagsskapur þeirra sveitarfélaga, sem lánin taka. Ég skal ekki segja, hvort þetta tækist hjá okkur, vegna þess hvað við erum fáir, en ég vil, að þessi leið sé athuguð, vegna þess að ríkinu er um megn að taka á sig ábyrgð fyrir allar framkvæmdir, sem hver og einn vill koma á og kynni að vera æskilegt að koma á.

Ég skal taka það fram, af því að það verður ekki gert af öðrum, að þegar hv. þm. greiða atkv. á móti till. viðvíkjandi sínum héruðum, þá er það í þágu íslenzks sjálfstæðis, og það verður að reyna að stöðva þann straum og byggja varnargarð um það ótæmandi ábyrgðaflóð, sem er svo mjög hættulegt fyrir fjárhagslegt sjálfstæði landsins.

Ég ætla þá að minnast á eina till., sem ég minntist á, þegar ég talaði fyrr við þessa umr., en það er till., sem 12 þm. flytja viðvíkjandi góðtemplarahúsinu. Ég þarf ekki að rifja það mál upp. Það er öllum kunnugt, að reglan hefir ekki getað endurbyggt hús sitt, af því að þingið hefir unnið mál á móti reglunni og ríkinu verið dæmdur nokkur hluti af templaralóðinni. Nú hefir verið talað um það milli stj. og templara, að ríkið keypti þetta hús og veitti ef til vill styrk til byggingar á nýju húsi, en það hefir ekki gengið saman. Það hafa komið fram háværar kröfur frá templurum, sem þingið hefir ekki getað orðið við. Nú hefir þeim verið stillt þannig í hóf, að ríkið kaupi húsið og lóðina, sem templarar eiga, og til viðbótar við það leggi ríkið fram styrk, svo að það verði til samans 150 þús. kr., sem borgist út á 10 árum. Einn helzti rökstuðningur templara fyrir þessari till. er sá, að fyrst ríkið af menningarástæðum hefir ekki séð annað fært en að hjálpa til að byggja fínt veitingahótel með vínveitingaleyfi, þar sem menn undir skemmtilegum kringumstæðum geta fengið aðgang að að neyta víns, þá geti ríkið og bærinn ekki annað en styrkt templara til að koma sér upp húsi, þó að það væri ekki eins stórt og Hótel Borg, svo að þeir hefðu yfir að ráða fullkomnum húsakynnum, sem fullnægðu þeim kröfum, sem fólk gerir nú til húsnæðis, því að með því eina móti væri hægt fyrir þjóðfélagið að setja varnarstarfsemi templara á sama grundvöll eins og veizlumenninguna, sem fylgir hinum glæsilegu hótelum. Ég geri ráð fyrir, að till. verði samþ., ekki sízt þar sem l. um aðflutningsbannið verða nú afnumin. Þá er nauðsyn að styrkja baráttuna á móti víninu, því að gera má ráð fyrir, að við afnám bannsins muni áfengisnautn aukast, þegar sala áfengra drykkja verður aftur leyfð. Þess vegna er þessi till. fram borin til að styrkja templara til að koma sér upp húsi hér í Rvík, og hér í bæ er einmitt mest nauðsyn að berjast á móti víninu, því að hér er drukkið einna mest, og hér er líka fjölmennastur félagsskapur til þess að berjast á móti þessari hættulegu nautn.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þessa till., því að óhætt mun að fullyrða, að bæði málefnið og hinir mörgu flm. tryggja framgang hennar. Það er von okkar, að um leið og áfengið hefur nýja sókn á okkur, þá megi um leið hefja gagnsókn gegn því, og það álít ég, að það opinbera verði að styðja.

Þá vil ég minnast á eina till., sem hefði kannske átt að flytjast af okkur, sem erum þm. fyrir Norðurland, en við höfum þó ekki flutt, neinn af okkur, en það er um fjárstyrk til þeirra manna, sem verst urðu úti af völdum hins mikla ofveðurs, sem geisaði í haust og allir kannast við og vita, hversu mikinn skaða gerði á Norðurlandi. En ástæðan til þess, að þessi till. hefir verið tekin upp, er ekki sú, að ég eða aðrir hv. þm. hafi gleymt þessu, heldur hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að stj. léti athuga þetta sérstaklega, svo að hægt væri á því þingi, sem kemur saman á næsta ári, að leggja þetta mál fyrir vel undirbúið. Það liggur því fyrir næsta þingi að taka þetta fyrir, eins og skuldaskilasjóðinn og kjötuppbótina, og afla tekna til að mæta þeim útgjöldum.

Ég vil minnast hér á einn lið, sem að vísu hefir verið samþ., en það er framlagið til sænsk-íslenzku orðabókarinnar. Ég vil geta þess í því sambandi, að einnig lá fyrir nefndinni umsókn frá Páli Sveinssyni kennara um styrk til fransk-íslenzkrar orðabókar, sem hann er að semja. Þessi maður hefir samið ágæta kennslubók í franskri tungu og mun enginn efast um það, að hann sé ágætlega fallinn til samningar slíkrar orðabókar. Fjvn. var sammála um það, að þar sem vænta mætti, að þýzk-íslenzka orðabókin komi út í vetur og sænska orðabókin að ári, væri rétt og skylt, að orðabók Páls Sveinssonar yrði tekin upp í næstu fjárlög, og skyldi svo gert, ef sömu menn ættu sæti í nefndinni þá og nú.

Ég mun ekki ræða einstakar brtt. Ég hefi þegar talað um hættulegasta hluta þeirra, ábyrgðirnar. En ég vil taka það fram, að stuðningsmenn stj. hafa til þessa farið eftir þeirri staðreynd við afgreiðslu þessa fjárlfrv., að ekki er hægt að fylgja öllum fjárveitingum, sem menn langar til.

Vegna þess að stjórnarandstæðingar gera sér tíðrætt um það, að við skörum mjög eld að köku kjördæma okkar, t. d. um framlög til vegagerða, vil ég benda á það, að í fjárlfrv. eru Dalasýslu ætlaðar 8 þús. kr. til vega, en mínu kjördæmi, sem þó er margfalt stærra og fólksfleira, aðeins 10 þús. kr. vegamálastjóri hafði lagt til, að 15 þús. kr. yrði varið til vegabóta í kjördæmi mínu, en stj. lækkaði þessa upphæð niður í 10 þús. í fjárlfrv. Það má vel vera, að ég hafi haft aðstöðu til þess að fá þessa upphæð hækkaða, en ég gerði það ekki, því að ég vissi vel, að líkt stendur á viða annarsstaðar, og því sætti ég mig fremur við, að vegakaflar standi ófullgerðir í bili, heldur en skapa misrétti milli einstakra héraða.

Ég vil að síðustu taka það fram, að við, sem skipum meiri hl. fjvn., leggjum vinnu okkar í n. óhræddir undir dóm kjósenda, ef niðurstöður af henni verða þær, sem við höfum ætlazt til. Við höfum viljað byrja á þeirri stefnu, að láta tekjur og gjöld standast á, halda verklegum framkvæmdum áfram og stilla ábyrgðum ríkissjóðs í hóf. Þjóðin mun á sínum tíma sýna, hversu hin nýja stefna fellur henni í geð.