19.12.1934
Efri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2728 í B-deild Alþingistíðinda. (3861)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Auðunn Jónsson:

Það er rétt, að ég tel nauðsynlegt að breyta skipulagningu þessara mála frá því, sem verið hefir undanfarið. Ég tel sjálfsagt, að þeir menn, sem mest eiga undir affarasælli úrlausn þessara vandamála, útgerðarmenn og sjómenn, leggi drýgstan skerf til sköpunar skipulags í þessu efni. Hitt er ég sannfærður um, að grípi ríkisvaldið fram fyrir hendurnar á þessum aðilum, þá mun illa fara. Við höfum séð þess dæmi undanfarið, að það eina, sem eitthvað dugir, er, að þeir, sem hafa hér mestra hagsmuna að gæta, útgerðarmenn og sjómenn, myndi með sér félagsskap til þess að bæta úr ágöllum síldarverzlunarinnar. Með tilliti til þess símskeytis, sem borizt hefir frá síldarútflytjendum norðanlands, hygg ég, að bráðabirgðal., sem lögð hafa verið fyrir þingið, muni nægja.

Hv. frsm. meiri hl. hélt því fram, að öll síld væri seld og seljanleg á næstunni. Ég hygg nú samt, að það sé rétt, sem ég heyrði síðast í dag, að „refúserað“ hefði verið sölu á 15 þús. tunnum af matjessíld, og að lítil von væri um, að sú síld seldist nema fyrir lágt verð.

Ég hefði talið, að bráðabirgðal. ætti að staðfesta sem skipulagningu fyrst um sinn a. m. k. Þau voru sett samkv. óskum útgerðarmanna og síldarútflytjenda og í fullu samræmi við óskir þær, sem fram komu á hv. Alþ. í símskeyti frá útgerðarmönnum á Norðurlandi. Þess vegna tel ég ekki rétt, að þessum málum verði öðruvísi skipað í bili, þangað til þessir aðilar óska einhverra breyt. á skipulaginu, en þær geta þeir alltaf fengið hjá þinginu, hvenær sem þeir vilja.