06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2779 í B-deild Alþingistíðinda. (3914)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Páll Hermannsson:

Því hefir verið haldið fram nú við þessa umr., að ég og samnm. minn, hv. 4. þm. Reykv., værum ekki sammála um það, hvernig skilja beri orðtæki frv.: „að hafa á hendi mannflutninga.“ Annaðhvort hafa hv. þm. ekki heyrt mál okkar, eða þetta er tilraun til þess að snúa út úr. Við erum alveg sammála um það, að með þessum orðum sé átt við að hafa mannflutninga með höndum í atvinnuskyni, og öllum hlýtur að vera ljóst af frv., að þar er aðallega átt við flutninga á langleiðum. Ég kalla það að hafa mannflutninga með höndum í atvinnuskyni, þegar atvinna manna byggist á því að halda uppi mannflutningum á langleiðum, t. d. milli Reykjavíkur og Austfjarða, eða á milli Rvíkur og Akureyrar. En það væri að snúa blaðinu við að mínum dómi, ef í því ætti að felast bann við því, að vörubílar mættu flytja fólk til og frá vinnu innan Fljótsdalshéraðs t. d. Og mér skilst, að undantekningarákvæði síðari málsgr. 1. gr. megi skiljast svo, að vörubílum sé heimilt að flytja fólk. — Það hefir í þessu sambandi verið talað um sunnudagsflutning fólks héðan úr bænum. Mér finnst ákvæði 7. gr. taka af öll tvímæli um þetta hvað snertir 7 manna bifreiðar og minni. Heimildin til þess að láta ákvæði l. ná yfir slíkar bifreiðar er nefnilega bundin því skilyrði, að þær fari fastar áætlunarferðir. — Ég held, að hv. 1. þm. Eyf. geti líka alveg verið óhræddur um, að ákvæði l. nái yfir þær kringumstæður, sem hann lýsti, enda tæki ég þá í sama streng og hann. Viðvíkjandi þeirri hættu, sem hv. frsm. benti á af svona flutningum, tel ég sjálfsagt, að eitthvað verði gert til að tryggja öryggið, þar sem mikið er um slíka mannflutninga. En ákvæði um það eiga ekki heima í þessu lagafrv. — Annars tel ég þýðingarlaust að þrátta meira um mál þetta en nú þegar hefir verið gert. Ég skal taka það fram, að þau kynni, sem ég hefi af bílstjórum, eru á þá leið, að þetta séu yfirleitt góðir menn og vel starfi sínu vaxnir. En það er engin sönnun fyrir því, að þeir geti ekki orðið enn betri og færari, og þessa flutninga mætti gera bæði þægilegri og ódýrari.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að það væri skylda þeirra, sem flyttu mál, að vita ástæður til þess og koma fram með þær. Það er hvorki hægt að ætlast til þess af mér eða öðrum, að maður viti um ástæður, sem hvergi eru til nema í ímyndun sumra hv. þm. — Ég get tekið undir það með hv. frsm., að n. skal athuga það fyrir 3. umr., hvort ástæða er til að gera sérstakar ráðstafanir í þá átt, sem hv. 1. þm. Eyf. benti á, en það er mín skoðun, að til þess þurfi ekki að koma.