20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2807 í B-deild Alþingistíðinda. (3953)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Hæstv. atvmrh. sagðist „hyggja“, að þetta væru sömu brtt. og felldar hefðu verið í Ed. Hví hefir hann ekki gengið úr skugga um þetta? Er það máske af því, að þessar brtt. séu, eins og aðrar brtt. stjórnarandstæðinga, dæmdar fyrirfram?

Út af þeirri skýringu hv. 2. þm. Reykv., að 2. mgr. 1. gr. eigi við vörubifreiðar, sem einstöku sinnum setja sæti á pallinn, vil ég taka það fram, að það er ekkert í málsgr., sem gefur til kynna, að hún sé miðuð við þetta. Það er t. d. hvergi sagt, að mjólkurbíll megi flytja fleiri en 6 farþega. Ég sé ekki betur en að greinin sé fortakslaus að því leyti, að bíll, sem flytur framleiðsluvörur bænda og flytur yfir 6 farþega, þurfi að fá til þess leyfi. En ég vil fella burt „endrum og sinnum“, svo að mjólkurbílar megi flytja að vítalausu 6—7 farþega án þess að fá til þess sérleyfi.

2. brtt. mín, um það, að bílar, sem annast mannflutninga til skemmtiferða, þurfi ekki sérleyfi, virðist mér ekki orka tvímælis. Hv. 2. þm. Reykv. þóttist sjá þar opnaða leið til að fara í kringum lögin. Vill hv. þm. þá bera fram skrifl. brtt. við hana, svo að hún verði ótvíræð? Hann var nú reyndar eitthvað að tala um það áðan, að hann treysti ekki á það, að sjálfstæðismenn í Ed. veittu afbrigði, ef brtt. yrðu samþ. hér. En ef sjálfstæðismenn í Ed. hafa fallizt á að veita afbrigði um málið, sem ég skal ekkert um segja, þá kemur það úr hörðustu átt, að þeim sé ekki treystandi til að standa við orð sín. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að sjálfstæðismenn í Ed. séu ekki svikulli en hv. 2. þm. Reykv. telur sjálfan sig vera, og þættist hann þó líklega fá tilefni til að fá atvinnu við að verja sjálfan sig, ef honum væri borið það á brýn, að engu hans orði væri treystandi.

Annars veit ég, að hv. 2. þm. Reykv. kemur með þetta sem tylliástæðu til þess að fá brtt. mínar felldar. Það er nú einu sinni hans aðferð, að vera með ógnanir í einu eða öðru formi, og nú ætlar hann að hræða samherja sína frá því að greiða brtt. mínum atkv.

Um síðustu brtt. mína vil ég segja það, að ég get ekki betur séð en að það sé alveg sjálfsagt að veita þeim, sem áður hafa haldið uppi áætlunarferðum á vissum leiðum, sérleyfi til flutninga á sömu leiðum. Ég býst við, að hv. 2. þm. Reykv. þætti hart, að vörutegund, sem hann hefði unnið inn hér á markaðinn, væri fengin öðrum í hendur, og hann væri þar í sínum fulla rétti. Það er almennt viðurkennd regla í viðskiptalífinu, að menn eigi að njóta ávaxtanna af iðju sinni. Margar bifreiðastöðvar hafa haldið uppi áætlunarferðum með tapi fyrst í stað, en eru fyrst nú farnar að hafa nokkurn hag af þeim. Hæstv. atvmrh. gat ekki heldur andmælt því, að þessi brtt. væri réttmæt. (Atvmrh.: Það stendur í frv., að þessar stöðvar gangi fyrir, að öðru jöfnu). Já, því má þetta þá ekki vera skilmálalaust, að þær skuli ganga fyrir, að öðru jöfnu?

Þá varð þeim hæstv. atvmrh. og hv. 2. þm. Reykv. ákaflega mikið um ummæli mín um benzínverzlun hins síðarnefnda. Ég skal taka það fram, að þessi orð eru ekki fyrst frá mér runnin. Öllum hv. þm. mun það kunnugt, að þessi orðrómur gengur staflaust manna á meðal utan þings og innan. Og enginn einasti maður, sem um þetta talar utan þings, lætur sér detta annað í hug en að þetta sé allt gert fyrir olíukónginn, hv. 2. þm. Reykv. Það, að ég segi þetta manna fyrstur hér, er einungis af því, að ég er hreinskilnari en aðrir, sem um málið tala. (HV: Hv. þm. ætti að endurtaka þessi ummæli utan þings). Ég þarf þess ekki, því þessi skoðun er ekki fyrst runnin frá mér. Hv. þm. þarf efalaust ekki annað en fara hér út fyrir húsdyrnar, þá gæti hver sem er sagt honum frá þessu, ef hann fyrirhitti nógu hreinskilinn mann. (HV: Ætlar þá hv. þm. ekki að þora að endurtaka þessi ummæli utan þings?). Ég get sagt hv. þm., ef hann vill, ýmsar sögur um þennan orðróm.

Þá vil ég spyrja hæstv. atvmrh., hvort hann hefir þegar veitt einstökum mönnum sérleyfi til fólksflutninga með bifreiðum. Ég hygg, að hann muni ekki hafa gert það, en ef svo er, þá vildi ég fá skýringu á því, hvers vegna ákveðnir menn telja sig þegar hafa fengið ákveðin loforð fyrir þessum sérleyfum. Ef hæstv. atvmrh. einn veitir þessi leyfi, og ef hann hefir engum veitt nein slík leyfi, hvers vegna telja þá ákveðnir menn bæði utan og innan Reykjavíkur, að þeir hafi þegar fengið loforð fyrir þessum leyfum? Það er af því, að hv. 2. þm. Reykv. er búinn að veita þessi leyfi. (HV: Þetta eru ósannindi). Ég játa, að ég hefi sjálfur ekki verið viðstaddur þá samninga. Það, sem ég segi hér frá, er ekki annað en það, sem ég hefi heyrt fleiri en einn og fleiri en tvo segja, en ég hefi ekki ástæðu til að rengja. Ég læt það ósagt, hvort ég muni endurtaka þessi ummæli utan þings, en ég hygg, að sögumennirnir séu þegar það margir, að óþarft sé að bæta í þann hóp. En ég mun á sínum tíma, þegar sannleikurinn kemur í ljós og staðfestir þessar sögur, minna á það, sem ég hefi nú sagt. Og það eitt er víst, að ef sögur þessar rætast ekki, þá er það fyrir það, að hæstv. atvmrh. og hv. 2. þm. Reykv. víkja frá þeim áætlunum, sem þeir hafa nú gert. Annars sannast þessi ummæli mín um hv. 2. þm. Reykv. bezt með framkomu hv. þm. við þessa umr. Hann gengur hér um öskuvondur yfir því að heyra sannleikann, því sök bitur sekan. Allir vita, hvernig hann hefir hamazt hér í þinginu fyrir þessu máli. Allir vita, að það getur ekki verið neitt höfuðatriði, hvort frv. verður að l. á þessu þingi eða því næsta. Allir vita, hver barizt hefir mest fyrir því að drífa frv. gegnum hv. Ed. Það var enginn af hv. þm. þeirrar d. Það var utandeildarþm., hv. 2. þm. Reykv. Og hvers vegna barðist hann svo fyrir þessu máli í hv. Ed.? Ekki var það af því, að hann eigi að veita sérleyfin, eftir því sem hæstv. atvmrh. segir. var það af því, að hann er í þessari svokölluðu skipulagsnefnd? Hvorugt af þessu er ástæðan. Ástæðan er sú, að þetta frv. er hagsmunamál hv. 2. þm. Reykv. Hæstv. atvmrh. og hv. 2. þm. Reykv. vita báðir, að annað og meira liggur á bak við í þessu máli en hin köldu orð frv. segja. Og það verða engir kunnugir hissa á því, þótt þessi hv. þm. berjist fyrir sínum hagsmunum með þessu frv. Slíkt er ekki annað en daglegt brauð nú á dögum. Öll þau frv., sem verða að l. nú, eru mótuð af sósíalistum og barin fram í hagsmunaskyni fyrir þá og þeirra flokk. Þeir sitja sig ekki úr færi til þess að stofna bitlinga handa sér og sínum mönnum. Þeir hika ekki við að fjölga framkvæmdastjórastöðum af sömu ástæðum. Þeir hika ekki við að setja lög um hvað sem er, til framdráttar sínum flokki og sínum mönnum. Og hver er það, sem harðast berst í þeim efnum? Það er enginn annar en hv. 2. þm. Reykv. En ég verð að segja, að hver sem kunnugur er orðinn framkomu þessa hv. þm. hér á Alþingi, hann veit það, að svo hiklaust sem hann berst fyrir hagsmunum síns flokks á þingi, þá berst hann þó ennþá harðar fyrir sínum eigin persónulegu hagsmunum.