11.10.1934
Neðri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (4027)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Í l. nr. 79 1933, um ýmsar ráðstafanir gegn fjárkreppunni, er ríkisstj. heimilað að taka að sér greiðslu lána, sem tekin hafa verið til þess að reisa frystihús samvinnufélaga eða sýslufélaga, sem frysta kjöt til útflutnings. Nær heimildin til þess að greiða af þessum lánum 1/4 af stofnkostnaðinum. Það er heimilað að greiða 1/4 part af stofnkostnaði frystihúsanna. Það er í samræmi við heimild þá, sem áður hefir verið tekin í fjárlög, sem sé að greiða 1/4 af stofnkostnaði mjólkurbúa. Þess vegna er eðlilegt, að þessi heimild frá 1933 næði ekki nema til þeirra frystihúsa, sem þegar er búið að reisu eða ákveðið hefir verið að reisa og búið er að taka lán til. Þær framkvæmdir, sem um er að ræða í þessu efni, eru svo víðtækar, að ekki er unnt að koma þeim áfram á fáeinum árum. Þessi heimild nær ekki til þeirra frystihúsa, sem byggð verð, á þessu ári eða á næstu árum.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. fari nær um það, að þau héruð, sem hingað til hafa ekki byggt frystihús og þess vegna orðið að sætta sig við saltkjötsmarkaðinn, sem er miklu verri en markaður fyrir fryst kjöt, hafi ekki síður þörf fyrir styrk en hin, enda þótt þau hafi líka mikla þörf fyrir hann. Eins og hv. þdm. er kunnugt um, hafa bændur fengið lægst í þeim héruðum, sem eingöngu hafa flutt út saltkjöt. Það lætur nærri, að bændur í þeim héruðum, sem kjöt er fryst í, hafi fengið 0,77—0,78 kr. pr. kg., en þeir, sem seldu á innanlandsmarkað, hafi fengið 0,78—0,80 kr. pr. kg. — en aftur á móti bændur, sem seldu á saltkjötsmarkað, ekki nema 0,60 kr. pr. kg.

Annars er ekki ástæða til þess að fjölyrða frekar um þetta. Ég vona, að það sé hv. þdm. augljóst, að hér er um sanngirnismál að ræða, sem ekki þurfi að mæta neinni mótstöðu.

Óska ég svo, að málinu verði vísað til landbn. að umr. loknum. vil ég beina því til hennar, að hún afgreiði það fljótt. Fjvn. gæti tekið tillit til þess í fjárlögum, ef áætluð verða útgjöld í þessu skyni á næsta ári.