07.11.1934
Neðri deild: 30. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (4117)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Jóhann Jósefsson:

Hv. 2. þm. N.-M. lagði hér ýmsar spurningar fyrir aðalfrsm. þessa máls, sem ég geri ráð fyrir að hann muni svara, að svo miklu leyti sem unnt er á þessu stigi málsins. En burtséð frá því vil ég minna á, að þegar til umr. var hér frv. um kreppulánaráðstafanir til hjálpar bændum landsins, þá voru engar slíkar yfirheyrslur í garð bænda álitnar nauðsynlegar né látnar fram fara. Ekki var heldur kastað fram neinni ósvífinni áreitni í garð bænda líkt og skeð hefir í framkomu hv. þm. Ísaf. í þessu máli. Ég undanskil hv. 2. þm. N.-M. frá hinu síðastnefnda. Hann spurði á engan hátt særandi eða meiðandi. En hitt vil ég benda honum á, að þessar spurningar voru ekki gerðar, þegar vandræðamál bænda voru rædd hér á Alþ. Hv. 2. þm. N.-M. taldi að öðru leyti, að með lækkun vaxta mætti gera mikið, sem miðaði í áttina til að rétta við hag sjávarútvegsins, og jafnvel, að gera mætti nægilega mikið til þess með lækkun vaxta.

Þegar hið mjög umtalaða nál. mþm. í sjávarútvegsmálum verður lagt hér fram, þá mun það sjást, að mþn. gerði það, sem í hennar valdi stóð, gagnvart báðum bönkunum hér, til þess að leita eftir leið til að fá útlánsvexti lækkaða. En hvað annan bankann snerti. Útvegsbanka Íslands, þá varð það upplýst, að því takmarki yrði ekki náð, nema með breyttri löggjöf, eða a. m. k. alveg breyttum aðbúnaði við Útvegsbankann af hálfu Landsbankans.

Um Landsbankann er það að segja, að þau svör, sem bankaráð þess banka gaf mþn. í sjávarútvegsmálum viðvíkjandi fasteignaveðslánum, voru þannig, að við verðum að telja, að Landsbankinn hafi skuldbundið sig til þess með bréfi bankaráðsins að gera þær ráðstafanir nú þegar á þessu hausti, sem færir vextina af fiskveðslánum niður í takmark lægstu útlánsvaxta, eða í sama horf og svokallaðir vöruvíxlar eru í nú.

Hv. þm. Barð. er hér ekki viðstaddur, annars hefði ég viljað mæla til hans nokkur orð í sambandi við aðstöðu hans í þessu máli. En hv. þm. Ísaf. er hér í hv. d. Hann talaði langt mál, hart og heimskulegt í garð okkar, sem flytjum þetta mál, og þá einkum í garð okkar hv. 6. þm. Reykv. og mín. fyrir það, sem hann kallaði fádæmi, að ég hefði borið málið fram í þessari d. án þess að bíða eftir duttlungum þessa þm., án þess að láta hann teyma okkur á eyrunum lengra heldur en stj. var búin að gera. Hv. þm. Ísaf. sagðist ætla að kveða upp dóm yfir mér, og seinna í ræðu sinni sagðist hann ákæra mig. Hann fór utan við málið, eins og hv. þm. Barð. líka gerði, og leitaðist við að gera að aðalatriði málsins það, sem er aukaatriði, nefnilega það, hvernig málið er borið hér fram. Nú hefir það verið upplýst hér í hv. d. og játað af hæstv. atvmrh., að þessi málefni vor voru borin undir hæstv. ráðh. og honum færð þau skjallega og með grg. 3 vikum áður en við réðumst í að bera þau fram hér í hv. d., og það var fyrst eftir að hæstv. ráðh. í viðurvist sjútvn. hafði látið bóka þau ummæli í gerðabók n., að stj. treysti sér ekki til að mæla með því, að mál þetta næði fram að ganga, — það var þá fyrst, sem við heimtuðum úrskurð í sjútvn. um það, hvort n. tæki málið að sér eða ekki.

Nú vita allir, að „örlög Karþagóborgar“ voru ráðin þegar hæstv. ráðh. var búinn að láta það uppi, að hann treysti sér ekki til að mæla með málinu. Þá vissum við, að engar líkur voru til þess, að framsóknarmenn í sjútvn. færu að breyta á móti vilja stj. í málinu. Hæstv. ráðh. var búinn í mörgum viðtölum við okkur í þessar 3 vikur að taka það fram, að hann væri að ræða málið við sinn flokk. Við gátum því gengið að því vísu, að bókun hæstv. ráðh. 27. okt., sem gekk í þá átt, að hann mætti ekki mæla með þessu máli á þessu þingi, væri vilji flokksins. Að báðir stjórnarflokkarnir hafi staðið að þessum gerðum hæstv. atvmrh., það sýna bezt undirtektir hæstv. fjmrh.

Hinn þungi dómur, sem hv. þm. Ísaf. þóttist vera að kveða upp yfir mér hér í þessari hv. d., fellur þess vegna alls ekki á mig eða okkur, sem borið höfum fram þetta frv., heldur á þá, sem ekki hafa viljað sinna þessum málum eða ljá þeim lið.

Auk þess, sem hæstv. atvmrh. hefir rætt þetta mál við hv. þm. Ísaf. þær umtöluðu 3 vikur, hefir hv. þm. haft tækifæri á hverjum degi á þeim tíma til að kynna sér þetta mál um fiskiþingsmaður, því að á fiskiþinginu hefir hann átt sæti allan þann tíma, og þar var hann í sjútvn. og þar lágu þessi frv. alltaf fyrir.

Þeir af fiskiþingsmönnum, sem vildu, að þessi mál næðu fram að ganga, báru fram till. um, að fiskiþingið lýsti ánægju sinni yfir því, að frv. þessi væru komin fram, og var till. samþ. með 5:3 atkv. Hv. þm. Ísaf. var einn af þeim 3 mönnum á fiskiþinginu, sem greiddu atkv. á móti till. þessari. Hann hefir þess vegna á fiskiþinginu opinberað afstöðu sína á móti því, að skuldaskilasjóðsfrv. væri borið fram og að frv. um sjávarútveginn væri borið fram. Svo er þessi æðsti prestur skinhelginnar og hræsninnar hér á Alþ. að berja sér á brjóst yfir því, að hv. fl. þm. Reykv. og ég höfum brotið á móti hans hágöfugheitum þar í n. með því að heimta, að atkvgr. þar færi fram um málið.

Til þess að gera þessa sök hv. þm. Ísaf. eins bera og unnt er og láta þennan skinhelga þm. standa eins strípaðan og naktan frammi fyrir hæstv. Alþ. eins og hann hefir til unnið, ætla ég að lesa upp þá ályktun, sem fiskiþingið samþykkti í þessu máli, og hún er þannig:

„Fiskiþingið lýsir ánægju sinni yfir störfum milliþinganefndar í sjávarútvegsmálum og framkomnum tillögum til hjálpar sjávarútveginum, en telur þó, að fjármagn það, sem nefndin leggur til, að haft sé í þessu augnamiði, sé of lítið, og verði því að sjá fyrir auknum tekjum til Fiskveiðasjóðs og meira fé handa Skuldaskilasjóði“.

Það var þessi till., sem hv. þm. Ísaf. greiddi atkv. á móti, og þetta gerðist áður en hæstv. ráðh. hafði látið bóka umsagnir sínar um málið, og löngu áður en sjávarútvegsnefndarfundurinn var haldinn, þann 30. október.

Hér getur nú hv. d. séð heilindin hjá þessum hv. þm. Ísaf., form. sjútvn., í garð sjávarútvegsmanna. Þegar svo málið kemur fram hér á Alþ., gefur hann í skyn, að það hefði getað vel verið, ef farið hefði verið nógu vel að honum, að hann hefði þá aðhyllzt málið. Og svo hrópar hann um dóm(! !) og ákærur(!!) gagnvart þeim mönnum, sem berjast fyrir þessu nauðsynjamáli. Það voru engin fádæmi, sem skeðu, þó að við vildum fá málið borið fram hér í hv. d. og til þess sæktumst eftir styrk þeirra manna, til tryggingar framgangi málsins í d., sem við vissum, að voru af alhuga málinu fylgjandi.

En það mega heita fádæmi, að sá maður, sem slysazt hefir inn í sjútvn. Alþ., skuli á ráðstefnu eins og fiskiþinginu, sem að eðlilegum hætti ætti að vera mjög ráðgefandi fyrir Alþ., leggjast á móti því, að meðmæli frá fiskiþinginu kæmu með því, að samþ. væri frv. eins og þetta, sem hér er um að ræða, sem miðar að því að rétta við sjávarútveginn. Það eru fádæmi.

Við, sem stóðum að þessu máli, gengum ekki að því gruflandi, að hv. þm. Ísaf. og sá meiri hl., sem nú hefir snúizt þannig öndverður í þessu máli, mundi gera þetta að árásarefni hér í hv. d. Við vissum, að andúð þeirra var undirbúin af flokkslegum ályktunum, baktjaldamakki niðurrifsmannanna. Andúð þeirra stafaði frá stjórnarflokkunum. Þessir menn voru aðeins peðin, sem hæstv. ríkisstj. skákaði fyrir sig í sjútvn., til þess að ganga á móti því, að frv. kæmi fram. og það féll í hlut hv. þm. Ísaf. að hafa í þessu orðið fyrir nm.

Hv. 3. landsk. hrökklaðist í þessu máli á milli hræðslu við stj. og hræðslunnar við skylduna gagnvart bátaútvegsmönnum í Vestmannaeyjum. Hann hefir látið uppi, að hann sjálfur telji rett að fylgja málinu, en rennur sennilega frá því, ef að líkindum lætur.

En um hv. þm. Barð. var það svo, eins og gerist með þá menn, sem eru meðflokksmenn sósíalista um stjórnarmyndunina, að hann hafði ekki leyfi til þess að hafa í þessu máli sína eigin skoðun. Hann varð að beygja sig fyrir hv. þm. Ísaf. og fylgja honum í þessu máli, nauðugur viljugur. Þessu líkt skeður svo að segja daglega í þeim herbúðum, og við erum ekkert fremur hissa á því í þetta skipti heldur en önnur. Þetta er þó hörmulegt um svo prýðilega gáfaðan og menntaðan mann eins og allir vita, að hv. þm. Barð. er, og er eitt af sorglegum dæmum þess, hvernig þessi flokkur, sem hann er í, verður í einu og öllu að lúta því boði og banni, sem kemur frá sósíalistum. Hv. þm. Barð. er það ekki nema vorkunnarmál, þó að hann reyni að leyna þessu með því að ráðast á okkur hv. 6. þm. Reykv.

Það vita allir, að þetta er bægslagangur þess manns, sem er innikróaður og á enga aðra úrkosti en að hlýða og beygja sig undir hnútasvipuna, sem veifað er yfir höfði hans. Hv. þm. Ísaf. sagði, að þeir í sjútvn. verði að vita, hvar þeir eigi að taka fé til framkvæmda, og ef það væri til, þá yrðu þeir að vita, hvaða gagn það gerði, og hvort þær framkvæmdir, sem gerðar væru, svöruðu kostnaði. Því skyldi hann ekki mega vita um þessa hluti? Það væri líka ekki úr vegi, að hv. þm. reyndi að setja sig inn í það, hvaðan ætti að taka fé í ríkissjóð, þegar útvegsmenn hafa gefizt upp við útgerðina. Hann ætti líka að reyna að kynna sér það, hvaða ógagn það er fyrir sjávarútveginn, þegar menn láta flokkaduttlunga ráða gerðum sínum. Hann ætti líka að reyna að setja sig inn í það, hvort það svari kostnaði fyrir Alþ. að drepa niður allar tilraunir í þessu efni.

Það skein í gegnum ræðu þessu hv. þm., að þeir, sem skipa meiri hl. í sjútvn., álíti, að hér sé um gott mál að ræða. En af því að 2 nm. hafa bakað sér „reiði keisarans“, þ. e. a. s. hv. þm. Ísaf., þá er borin von, að litið verði á nauðsyn sjávarútvegsins, eftir orðum hans að dæma. Þessu öllu er haldið fram eftir að sýnt er og sannað, að stjórnarflokkarnir vilja ekki, að málið gangi fram á þessu þingi, og eftir að stjórnarflokkamennirnir í sjútvn. hafa neitað að fylgja málinu í n. Með því að þyrla ryki upp um aukaatriðin eiga höfuðatriðin að hverfa. Svo langt er gengið, að þegar hv. þm. Barð. hefir, í fálmi sínu og ráðaleysi eftir að finna agnúa á frv., komið með þá endileysu, að í frv. sé milljón kr. reikningsskekkja, og eftir að búið er að margreka það ofan í kok á honum, kemur stjórnarblaðið í dag með vitleysuna og ósannindin.

Hv. þm. Ísaf. gerði sig að dómara og ákæranda í ræðu sinni. Það fer auðvitað eftir siðferðishugsjónum hans, að sá sami eigi að ákæra og dæma. Ég ætla ekki að kveða upp ákæru í garð manna. En hann hefir sjálfur kært sig og dæmt með framkomu sinni á fiskiþinginu. Það verða aðrir til þess að kveða upp dóminn yfir hv. þm. Ísaf. og þeim, sem honum fylgja í því að drepa þessa tilraun, sem hér er gerð til þess að hjálpa sjávarútveginum. Það verður sá mikli hópur manna, sem beygður undan skuldum væntir þess, að Alþ. leggi þeim lið. Það verða þessir menn, sem kveða upp dóminn yfir hv. þm. Barð. og öðrum slíkum, sem reyna með því að troða illsakir við einstaka menn að leiða athygli Alþ. frá þessu mikla nauðsynjamáli.