08.10.1934
Neðri deild: 4. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (4423)

28. mál, léttverkuð saltsíld

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Síðustu ár síldareinkasölunnar var farið að selja allmikið af léttverkaðri saltsíld til Póllands og Þýzkalands. Þessi sala hefir áfram síðan, en verð og sölukjör mjög misjöfn. Síðastl. ár var selt allmikið af síld til þessara landa. En verðið var lágt og allmikill hluti síldarinnar var seldur í umboðssölu gegn lítilli útborgun.

Þegar stjórnarskiptin urðu í sumar, var síldarsala þegar byrjuð, og höfðu þá ýmsir boðið síld til þessara landa með svo lágu verði, að vonlaust þótti, að svaraði framleiðslukostnaði, og aðrir höfðu boðið síldina í umboðssölu. Síldarframleiðendur höfðu reynt að mynda samtök með sér til að hindra þetta, en þó ekki tekizt að koma heildarskipulagi á þessi mál. Þeir sem réðu yfir um 2/3 af útflutningi léttverkaðrar síldar, mynduðu með sér Sölusamlag íslenzkra matjessíldarframleiðenda og komu til stj. með tilmæli um, að hún hefði afskipti af málinu.

Nú hafa orðið ýms umskipti í þessum tveim markaðslöndum. Þannig hefir verið lagður tollur á síldina í Póllandi, og um þýzka markaðinn er allt í óvissu. Stj. taldi því fulla þörf á að taka í taumana um framboð léttverkaðrar síldar, og gaf út 31. júlí í sumar bráðabirgðalög um þetta efni. Áttu lögin að girða fyrir það tvennt, að útflutningurinn kæmi misjafnt niður og að síldin væri boðin fram með óeðlilegum hætti og verðið þannig fellt. Í sambandi við þessi lög var síðan gefin út ýtarleg reglugerð 8. ágúst í sumar.

Nokkru eftir að bráðabirgðalögin og reglugerðin höfðu verið sett fóru menn að reyna að fara í kringum lögin með því að salta síldina nokkuð yfir 22 kg. í tunnu og hella síðan á hana daufum pækli. Fyrir þetta var girt með viðauka við bráðabirgðalögin 16. ágúst í sumar.

Eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefir í sumar, má vænta þess, að hækka mætti síldarverðið með því að láta slík lög einnig ná til venjulegrar saltsíldar.

Árangur af afskiptum stj. í sumar varð að öllum vonum. Síldin var seld til Póllands, Þýzkalands og Ameríku, yfirleitt fyrir sæmilegt verð.