20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í C-deild Alþingistíðinda. (4510)

59. mál, fiskiráð

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Ég verð að segja, að það er framför hjá andstæðingum frv. frá því í fyrra skiptið, því í fyrri till. þeirra var lagt til, að frv. væri vísað frá vegna frv., sem ekki var orðið til, eða m. ö. o. í von um, að eitthvert annað frv. yrði til, en í seinni dagskrártill. er lagt til, að því verði vísað frá vegna frv., sem er fætt, hvort sem það verður skírt eða ekki. Það er þó nokkur framför í þessu. Ég vil beina því undir athygli hv. þdm., að frá meiri hl. og minni hl. sjútvn. og frá talsmönnum allra stjórnmálaflokkanna liggur fyrir viðurkenning á því, að þörf sé þeirra aðgerða, sem gert er ráð fyrir, í þessu frv. Ég verð nú að segja, að það er einkennilegt, að upphaflega frv. skyldi eiga að vísa frá án vissu um það, að eitthvað kæmi í staðinn. Síðara frv. er lítið athugað af hv. þm., en aðalmunurinn á því og frv. um fiskiráð er sá, að með frv. ríkisstj. á að lenda í ríkiseinkasölu. Ég hygg nú, að margir, ekki eingöngu andstæðingur stj., heldur líka einhverjir af stjórnarsinnum, muni hugsa sig um, áður en þeir samþ. slíkt skipulag á fisksölunni, meðan hræið af gömlu einkasölunni er enn ekki moldu ausið. Ég hygg, að þeim muni þykja viðurhlutamikið að stofna til einkasölu, þar sem verzlað er með tíföld verðmæti á við það, sem síldareinkasalan hafði, hafandi í minni, hvernig ríkissjóður fór út úr forsjá ríkisins í því máli. Ég held, að það væri hvatskeytslega gert, ef hv. þdm. snerust að því ráði, að vísa frv. frá með rökst. dagskrá meðan hitt frv. er á því stigi, sem það er nú. Það hefir lítið verið komið inn á það, en það er þess vert, að því sé veitt athygli, að með fyrri dagskrártill. og formálanum, sem fluttur var fyrir henni, er boðað, að þeim samtökum, sem fiskútflytjendur hafa haft, verði komið fyrir kattarnef. Í nál. segir: „Bæði er í frv. gert ráð fyrir, að fiskiráðið verði útnefnt að nokkru leyti af stofnunum, sem enginn veit, hvort verða starfandi á þeim tíma, sem frv. kynni að fá staðfestingu“. Ef frv. stj. yrði samþ. og fengi staðfestingu, þá myndi bráðlega verða vegið að Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda og reynt að koma því fyrir kattarnef. Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á því, hvað sérstaklega glópskulega hefir verið tekið á málinu af Alþýðufl.mönnum í sjútvn. Þeir segja fyrst í nál. sínu: „og virðist enginn nefndarmanna telja sér fært að fylgja frv. óbreyttu“. Þetta eru alger ósannindi, og á náttúrlega aldrei að setja ósannindi í nál. En hafi nm. ekki vitað, að þetta væru ósannindi, þá eru þeir ekki færir um að semja nál. Því hefir margsinnis verið yfirlýst, að minni hl. sjútvn. er ánægður með frv. og að það er flutt í samráði við Sjálfstfl. í heild. Þetta orðalag verður víst að skrifa á reikning skilningsleysis þeirra, sem sömdu nál. Ég vil nú geta þess, að minni hl. fór margsinnis fram á það við meiri hl., að hann kæmi með brtt., ef hann vildi ekki fylgja frv., en meiri hl. bar það fyrir sig, að það væru gallar á frv., sem hann tilgreindi, svo sem það, að fiskiráð hefði ekki nægilegt vald og ekki nóg fjárráð. Minni hl. fór fram á, að meiri hl. kæmi með brtt. í þessu augnamiði og freista svo, hvort n. gæti ekki orðið sammála um frv. Það er líka bert, að minni hl. n. hefir ekki verið þess sinnis, að hann vildi ekki flytja frv. óbreytt. Hann hefir enga breytingu gert nema þá, sem áður var talað um við flm. frv., að þóknunin til fiskiráðsins yrði greidd úr ríkissjóði, og er það engin efnisbreyting á frv. Það er óþarfi fyrir hv. þm. Ísaf. að vera státinn af nál., því það mun vera alveg einstakt, að þegar reyndustu sjávarútvegsmenn hafa borið sig saman og samið frv. til úrlausnar einu stærsta nauðsynjamáli útvegsins, þá komi menn og segi, „að frv. sé svo losaralega samið og svo vanhugsað, að engin leið sé að breyta því, svo að vit verði í því“, eins og stendur í nál. meiri hl. Ég vil nú ekki hafa nein stóryrði, en ég verð að segja það, að þetta er meira yfirlætið, og gæti slíkur ofmetnaður ekki hent menn með dómgreind á sinni eigin þekkingu og rökum þeim, sem aðrir bera fram. Þeir segja ennfremur í nál., „að meiri hl. nefndarinnar sé fyllilega sammála þeirri viðurkenningu, sem í frv. felst, um að hin frjálsu samkeppni hafi leitt sjávarútveginn forsjárlaust út í hið mesta öngþveiti“. En þetta er hvergi sagt í frv., en er bara sullur í heila þeirra, sem sömdu nál. Þeim ætti að vera kunnugt um, að örðugleikar þeir, sem íslenzk útgerð á við að etja, eru utanaðkomandi og hafa vaxið upp í markaðslöndunum. Ennfremur segir í nál.: „Vill meiri hl. því fallast á þá hugsun, sem virðist vera bak við frv., þó í þoku sé“. Já, það er eitt, sem er í þoku, og það er skilningur þess, sem hefir skrifað nál., á tilgangi frv. Þar er alveg svarta þoka. Það er nú vitað, að sjávarútvegsmenn og útflytjendur fiskjar hafa vegna örðugleika í markaðslöndunum horfið að skipulagi, sem sósíalistar telja, að sé æskilegt. Þetta skipulag hefir sjávarútvegurinn tekið upp til þess að yfirstíga upprennandi örðugleika. En það vantar að leita að nýjum markaðslöndum og gera till. í samræmi við þær markaðsleitir um breyttar verkunaraðferðir. Ég get ekki skilið, að viti bornir menn álíti, að þetta sé heimskulegt Það er hægt fyrir þá, sem nokkurt vit hafa, að skilja frv. En þeir, sem það hafa ekki, eiga ekki að tolla eins og þeir, sem vald hafa.

Ég þarf ekki að endurtaka það, að fiskiráðið á að starfa í samráði við fiskiútflytjendur. Það er ástæðulaust að halda, að slík nefnd, sem sett er til að opna og bæta markaði, verði illa séð. Það er barnaskapur að hugsa slíkt. Hitt er annað mál, ef misklíð rísi út af því, að breyta ætti til um verkunaraðferð, þá sé ég ekki hvaða ástæða væri til þess, að nefndin fengi ekki aðstoð löggjafarvaldsins til þess.

Ég ætla svo ekki að lengja umr. En ég vil alvarlega beina þeirri áskorun til hv. þdm., að þeir láti sig ekki henda það fljótræði að samþ. dagskrártill., sízt áður en útséð er um það, að samkomulag náist um frv. hæstv. ríkisstj. Það er alveg víst, að þetta þing verður að afgr. frv., sem bætir úr þeirri þörf, sem frv. um fiskiráð átti að bæta úr. Eins og frv. um fiskimálanefnd er nú kemur ekki til nokkurra mála, að sjálfstæðismenn geti goldið því samþykki. Á meðan svo er, er ekkert vit í því að vísa þessu frv. frá með því að samþ. dagskrártill.