08.10.1934
Efri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

27. mál, sláturfjárafurðir

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég mun verða við tilmælum hæstv. forseta um það, að teygja ekki þessar umr. úr hófi fram. En mig undraði það, þegar hv. þm. N.-Ísf. gerði mikið úr því, að dregið hefði úr kjötsölu á Ísafirði sökum þess, að pundið varð 5 aurum dýrara en búizt hefði verið við. Ég held, að 5 aurar á kjötpund sé ekki það mikil útgjöld fyrir meðalfjölskyldu, að það geti orðið til þess að draga úr kaupum svo nokkru nemi. Viðvíkjandi því, sem hæstv. forsrh. sagði um framkvæmd l., þá er það ekki nema eðlilegt, að í byrjun komi ýmsir agnúar þar fram, en slíkt má teljast eðlilegir barnasjúkdómar, sem vonandi má draga, úr síðar. Hinsvegar skildi ég ekki vel rök hans gegn því, að bændur mættu eiga meiri hl. í kjötverðlagsnefndinni. Hann nefndi Búnaðarfélag Íslands í því sambandi; ég hafði að vísu ekkert minnzt á það, en svo virðist, sem hæstv. ráðh. sé það eitthvað ríkt í huga. Hann gaf þær upplýsingar, að Búnaðarfélagið væri ekki verzlunarfélag. En ég vildi spyrja hæstv. ráðh., hvort Landssamband iðnaðarmanna og Alþýðusamband Íslands væru verzlunarfélög? Ég a. m. k. hefi álitið, að svo væri ekki. (JBald: Eru ekki til menn, sem nefnast neytendur?). Jú, það eru til menn, sem nefnast neytendur, en það eru líka til menn, sem heita bændur. Og fjöldinn allur af bændum er ekki betur stæður en neytendurnir í kaupstöðunum, og er það þó fjarri mér að segja, að þeim muni líða vel. En ég tel það ekki neina hættu fyrir neytendur, þó að fulltrúar bænda yrðu í meiri hl. í kjötverðlagsnefndinni. Bændur mundu vitanlega stilla verðinu svo í hóf, að sölunni væri engin hætta búin vegna ósanngjarns verðs. Og ég treysti bændunum betur en öðrum til þess að hitta þann nauðsynlega meðalveg, sem þarna verður að fara. Það hefir verið sagt, að bændur hafi nú meirihlutavald í stjórn landsins. Það verður þó að teljast vafasamt, að mínu áliti. Og jafnvel þótt svo gæfusamlega hafi tekizt til, að vel má kalla þann mann, sem hæstv. stj. hefir skipað sem oddamann í nefndina, fulltrúa bænda, þá er það ekki nóg trygging. Það er ekki víst, að það sé sama, hvort oddamaður skuli skipaður af stj. eða að hann sé lögum samkv. fulltrúi bænda. Setjum nú svo, að hér yrði stjórn, sem ekki kærði sig um að eiga vingott við bændur. Þá má fastlega gera ráð fyrir því, að hún hikaði við að breyta l., ef þar stæði ákvæði um það, að oddamaður n. skyldi vera fulltrúi bænda. Það væri a. m. k. ótrúlegt, að bændastéttin ætti þá ekki einhverja á þingi til andsvara slíkum lagabreytingum.

Hv. 4. landsk. brá mér um ósanngirni út af þessu máli. Ég vil benda honum á það, að foringjar jafnaðarmannaflokksins í Noregi, sem er a. m. k. jafnstór tiltölulega og sá íslenzki, hafa mér vitanlega ekki kvartað yfir því, að stjórn kjötcentralsins þar beitti neytendur ósanngirni, og skipa bændur þó þá verðlagsnefnd, sem þar er. Og þar eru ekki aðeins fulltrúar fyrir verzlunarsamtök bænda, þar er t. d. fulltrúi fyrir „Selskabet for Norges Vel“. Og þetta hefir enga óánægju vakið í Noregi, af því að bændur hafa þar gætt eðlilegs meðalhófs hvað verð snertir, en haldið þó á hagsmunum sínum til hins ýtrasta. Og ég held fast við þá skoðun, að réttar bænda væri betur gætt, ef meiri hl. nefndarinnar væri skipaður fulltrúum þeirra.