08.10.1934
Efri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

27. mál, sláturfjárafurðir

Magnús Jónsson:

Það kom einkar skýrt fram í síðustu ræðu hæstv. ráðh., hvað fyrir honum er aðalatriðið í umr. um þetta mál. Hann varði miklum hluta ræðu sinnar til þess að endurtaka það, hve mikinn fjandskap Sjálfstfl. hefði sýnt framgangi þessa máls. Fyrir hæstv. ráðh. er aðalatriðið bersýnilega það, að flokkur hans hafi pólitískan hag af því að rægja afstöðu annars flokks til málsins. Hæstv. ráðh. talaði um það, að þm. Sjálfstfl. væru ekki sammála, og það er raunar ekkert óvenjulegt. Mér þykir hæstv. ráðh. miða allt nokkuð mikið við flokka. Það hefir löngum verið svo í Sjálfstfl., að þm. vilja vera handjárnalausir, en það er tæpast von, að hæstv. ráðh. skilji það.

Hv. 4. landsk. svaraði ekki tiltölulega skýrt fyrirspurnum mínum, og gat ég ekki ráðið af svörum hans, hvort hann og flokkur hans væru með eða móti málinu. Ég skil, að þessi hv. þm. muni eiga erfitt um vik. Hann er auðvitað bundinn við að fylgja stjfrv. fram, en getur varla vegna umbjóðenda sinna fylgt frv. sem þessu af heilum hug. Sami hv. þm. talaði um þá Alþýðuflokksmennina sem fulltrúa bæja og sveita. Maður leyfir sér að draga það síðarnefnda í efa; ég veit ekki betur en að þar, sem Alþfl. hefir haft frambjóðendur í hreinum sveitakjördæmum, hafi þeir fengið þetta 10-l5 atkv. En vel má vera, að hv. þm. hafi átt við það, að fyrir nokkru gleypti Alþfl. allstóran flokk, sem á talsverðra hagsmuna að gæta í sveitum, og hann telji, að A1þfl. megi ekki brjóta af sér við fylgjendur þess flokks. Annars talaði hv. þm. mjög óskýrt um aðalatriðin, en sveigði eins fljótt og hann gat yfir í marsvínakjötið. Í viðbót við samtalið fræga milli Morgunblaðsins og Sigurjóns á Álafossi, hafa sjálfstæðismenn nú ennfremur það á samvizkunni, að sama blað birti nokkrar uppskriftir eftir matreiðslukonu hér í bæ um meðferð á marsvínakjöti. Líklega hefði það að dómi stjórnarliðsins verið vottur um hollustu við kjötsölul., ef stuðlað hefði verið að því, að allt hvalkjötið hefði orðið ónýtt. - Ég skaut því inn í áðan, að langbezt hefði verið, að stj. hefði gefið út bráðabirgðal., sem bönnuðu komu marsvínanna á þessum tíma. En fyrst henni láðist það, sé ég ekki, að neitt sé hægt upp á forsjónina að klaga fyrir sendinguna.