08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

27. mál, sláturfjárafurðir

Bjarni Bjarnason:

Þau fáu orð, sem ég ætla að segja í þessu máli, verða um brtt. þær, sem fram hafa verið bornar. Ég bjóst ekki við, að sumar af þessum brtt. myndu koma fram. Flestar þeirra eru þýðingarlausar, og engin hefir verulega þýðingu. Þykir mér undarlegt, hversu mikið kapp menn leggja á að breyta verðjöfnunargjaldi úr 10 aurum, eins og ákveðið er af Ed., niður í 8 aura.

Ég lít á málið frá almennu sjónarmiði, frá sjónarmiði bænda yfirleitt. Þó að ég sé svo settur, að ég er þm. kjördæmis, sem nýtur að mestu innlends markaðs og hefir því hag af sem lægstu verðjöfnunargjaldi, þá ætla ég samt ekki í þessu að flytja mál minna kjósenda þannig, að þröngsýni gæti. Hins vegar mætti líta svo á, að þeim kæmi vel að verðjöfnunargjaldið væri lágt, þar sem þeir selja kjöt sitt í Rvík. Við erum alltaf í óvissu um það, hvernig kjötið selst í útlöndum, bæði fryst og saltað, og vil ég líta svo til með þeim bændum, er þurfa að nota erlenda markaðinn, að taka fullt tillit til þeirra. Ef útlit er fyrir, að kjöt seljist laklega á erlenda markaðinum, lít ég svo á, að full sanngirni mæli með því, að tekið sé ríflegt verðjöfnunargjald af því kjöti sem á innlenda markaðinum er selt. Ég vil ekki leita mér kjörfylgis í sambandi við þetta mál á öðrum grundvelli. Og þó að ég vilji ekki drótta því að hv. þm., að þeir vilji nota málið sér til framdráttar í kjördæmum, verð ég þó að segja, að afstaða sumra stappar nærri þröngsýni. Ég bjóst t. d. ekki við því af hv. þm. Borgf., að hann myndi bera fram þessa till. á þskj. 356. Get ég fremur skilið það um hv. meðflm. hans, hv. 11. landsk., að hann líti svo á, að hann dragi þarna sérstaklega taum síns kjördæmis. Að ég geri þannig upp á milli þessara tveggja hv. þm., stafar af því, að mér hefir fundizt á hv. þm. Borgf., að honum þætti sanngjarnt að verðjöfnunargjaldið væri nokkuð hátt.

Á þskj. 355 er farið fram á alveg sömu lækkun verðjöfnunargjaldsins. Hefðu menn getað látið sér nægja eina till. um þetta. En að sama kemur þarna fram á tveim þskj., sýnir kapp það, sem lagt er á að lækka verðjöfnunargjaldið sem mest.

Ég vil ekki sýna fjarstöddum bændum né ýmsum hv. þm. þá ósanngirni að fallast á þessar till. Menn reka ekki á réttan hátt erindi síns kjördæmis með því að sýna öðrum kjördæmum ríg. Vænti ég þess, að hv. d. gangi eins frá málinu og hv. Ed.

Um hinar till. er ekki ástæða til að fara mörgum orðum. Þó vil ég minnast á brtt. á þskj. 355.

Þar er talað um að selja sláturfjárafurðir beint til neytenda. Þetta hefir verið kappsmál ýmsra hv. þm. í báðum d. En ég vil benda á, að í 3. gr. er nægilega víðtæk heimild um þetta.

Þá segir og í brtt. þessari: „Einnig er heimilt að veita slátrunarleyfi þeim einstaklingum, er vegna sérstakra staðhátta eiga svo örðugt um rekstur og flutning fjárins til sláturhúss, að illfært sé að dómi nefndarinnar“.

Engin ástæða er til að gefa öðrum þessa heimild en þeim, sem örðugt eiga um að koma fé sínu til sláturhúsa. Þessi till. er aðeins til að ala á bændum, sem eru ófélagslyndir og vilja ekki taka þátt í samtökum yfirleitt. Þetta má hver, sem vill, hafa eftir mér. - Ég sé því ekki ástæðu til að samþ. neitt af þessum brtt.

Þá er brtt. á þskj. 347, að heimilt sé „að veita slátrunarleyfi félögum neytenda á þeim stöðum, þar sem ekki eru sláturhús, en aðeins fyrir það fé, sem þau kynnu að kaupa til neyzlu meðlima sinna“. Þessi brtt. segir ekki mikið og er aðeins heimild. Sé ég ekkert á móti því, að þessi heimild verði samþ. En síðari liður brtt. er óþarfur, því að kjötverðlagsn. myndi að sjálfsögðu fela trúnaðarmanni sínum að sjá um þetta og taka verðjöfnunargjaldið.

Brtt. á þskj. 344, frá hv. 5. þm. Reykv., segir, að kjötverðlagsn. skuli leitast við að haga svo verðlagi á kjöti, að kjötbirgðir í landinu aukist ekki frá ári til árs. Allir eru sammála um, að sjá verður til þessa, en ákvæðið er samt gersamlega óþarft. Er það sama og að segja við kaupmann, að hann skuli selja sem allra mest af vörum þeim, er hann verzlar með.

Ég vænti þess, að málið verði hér afgr. eins og það kom frá Ed. Þó sakar ekki, þótt brtt. frá hv. 9. landsk. við 3. gr. frv. verði samþ.