14.11.1934
Neðri deild: 36. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

112. mál, útflutningur á síldarmjöli

Thor Thors:

Mér þykir leitt, hve erfiðlega hv. þm. Barð gengur að viðurkenna muninn, sem er á bráðabirgðalögum og almennum l. Ég veit, að hann skilur vel þennan mun. Hann veit, að bráðabirgðalög á aðeins að selja, þegar mjög brýna nauðsyn ber til. Hv. þm. er það mikill lögfræðingur, að hann veit, að löggjafarvaldið er hjá Alþingi. (BJ: Það mætti bara setja inn í frv. gr. „brýn nauðsyn“). - Það fullnægir ekki, þó orðið „brýn“, sé bætt inn í á undan „nauðsyn“, því bráðabirgðalög eru sérstök tegund löggjafarinnar, sem þarfnast miklu sterkari skilyrða heldur en orð stjskr. beinlínis segja til um. En þessi l. eru almenn löggjöf, sem ráðh. getur gripið til hvenær sem honum finnst þurfa. Og bannið er algerlega almennt, svo ég sé ekki annað en ráðh. sé þar með veitt heimild til að banna einstökum mönnum útflutning, þó hann sé ekki bannaður öðrum. Það er bara sagt, að ráðh. megi banna útflutning á síldarmjöli. Það mætti hugsa sér það tilfelli, sem vel gæti fallið undir orðalag frv., að ráðh. segði við vissa framleiðendur: Þið megið ekki selja til útlanda ykkar síldarmjöl, það á að vera kyrrt í landinu til fóðurbætis. Það er engin ástæða til að setja þannig almenn þvingunarlög. Stjskr. sér fyrir þeirri nauðsyn, sem stafað getur af óvenjulegum kringumstæðum, og það er þá gert með sérstakri löggjöf, sem gildir aðeins eitt ár í senn samkv. eðli bráðabirgðalaga. Ég vænti því, að frv. verði fellt.