16.03.1935
Efri deild: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

52. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Magnús Guðmundsson:

Þetta frv. er borið fram til þess að lækka vexti af landbúnaðarlánum í Söfnunarsjóði. Um þann tilgang frv., að lækka fasteignaveðsvexti landbúnaðarins, er auðvitað ekkert nema gott að segja. En í þessu sambandi má benda á það, að mikið fé hefir einnig verið lánað úr Söfnunarsjóði til kaupstaðanna, þótt það kunni að vera minna en gengið hefir til sveitanna. Um hlutföllin þar á milli er mér ekki fullkunnugt. En ég tel, að það sé utan við tilgang þessa frv. að breyta lánakjörum sjóðsins í kaupstöðum. Ætti því að binda ákvæði frv. við fasteignaveðslán í sveitum aðeins.

Ef litið er á starf sjóðsins nú, þá er það rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að sjóðurinn er nú að mestu eða öllu hættur að lána beint, heldur kaupir verðbréf og fær á þennan hátt 6% vexti. Með frv. er sjóðnum bannað að taka meira en 5%. Nú verður að líta svo á, að sjóðsstjórnin sé skyldug til að sjá um hag þeirra, sem hún starfar fyrir, og því er í rauninni ekkert líklegra en að hún neyti allra ráða til að segja upp lánunum, til þess að geta keypt verðbréf fyrir það fé, sem við það losnar. Lánin munu oftast vera bundin við 6 mánaða uppsagnarfrest. Ef stjórn sjóðsins gripi til þeirra ráða að segja lánunum upp, yrðu ákvæði frv. um bjarnargreiði við lánþega, því að nýtt lán fengist ekki undir 6%, en nú eru vextir Söfnunarsjóðsins 51/2%. Ég er því hræddur um, að það sé undir hælinn lagt, hvort landbúnaðurinn hefir nokkuð gott af þessu frv.