27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Gísli Guðmundsson:

Ég hefi leyft mér að flytja brtt. við frv., á þskj. 269. Brtt. er þess efnis, að lán til rafmagnsstöðva í sveitum verði veitt til 20 ára, en þau eru nú, samkv. reglugerð ræktunarsjóðs, aðeins til 10 ára. Ég flyt brtt. vegna þess, að ég veit, að mönnum, sem hafa slík lán, eru þau þungbær, því að rafmagnsstöðvarnar hafa verið dýrar og kostnaðarsamar.

Ég geri ráð fyrir, að ekki sé að ræða um mörg slík lán, en þessi breyt. er réttlætismál.

Ég hefi talað um till. við form. landbn. í þessari hv. d. og flm. málsins í Ed. Þeir hafa báðir tekið till. vel. En ég vil verða við tilmælum hv. þm. Mýr. að taka till. aftur til 3. umr., og geri ég það hér með, svo að nefndin geti athugað hana nánar.