18.03.1935
Neðri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

76. mál, flutningur á kartöflum

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er eins með þessar brtt. mínar og ær till., sem þegar hefir verið talað hér fyrir, að ég hreyfði þessu máli við 2. umr. og þarf því ekki að fara um þetta mörgum orðum að sinni.

Brtt. mín við 1. gr. gengur í svipaða átt og brtt. hv. um. Borgf. Ég legg til, að felldur verði niður síðari málsl. fyrri málsgr., en læt orðalagið halda sér á fyrri málsl. eins og frá því er gengið hjá landbn. Þessi síðari málsgr., sem tryggir það, að verð á kartöflum fari ekki fram úr því, sem hóflegt þykir, er svo varhugaverð að mínu áliti, að ekki getur komið til mála að láta hana standa óbreytta eins og hún nú er fram sett í frv., því að um það getur alltaf orðið ágreiningur, við hvaða markaðsverð á að miða, þegar taka á tillit til hins erlenda markaðs. Nú vil ég benda á það, að í fyrra varð að leyfa innflutning á kartöflum, ekki með tilliti til þess, hvaðan var hagkvæmast að kaupa þær, heldur hvaðan hægt var að fá þær vegna gjaldeyrisins, og svo varð að flytja inn frá löndum, sem seldu þessa vöru 50% dýrari en hægt hefði verið að fá þær, hefðu viðskipti öll verið frjáls. Það er því fullkomin ástæða til þess að reyna að auka svo þessa innlendu framleiðslu, að slíkum kjörum þurfi ekki að sæta í framtíðinni. Innflutningur á kartöflum hefir numið um 25 þús. tunnum og hefir verið að verðmæti um 370 þús. kr. undanfarin ár. Ég hygg því, að af þessum ástæðum sé ekki hægt að óttast, að verð á kartöflum hækki svo fyrir þær ráðstafanir, sem hér eru gerðar, að tilefni sé til að gera slíkar ráðstafanir um hámarksverð sem ætlazt er til í frv., því að það liggur í augum uppi, að á þessum tímum, þegar mikill skortur er á erlendri „valutu“, verður innflutningsnefndin að skera niður innflutning á þeim vörum, sem nokkur vegur er að vera án. Og þegar innlendar kartöflur eru nægar á markaði hér, þá myndi nefndin haga sér eftir því og alls ekki leyfa innflutning frá útlöndum. Þessi lagaákvæði um takmörkun eða bann við innflutningi eru því alveg þarflaus. En ég hefði ekkert á móti þessum takmörkunum, ef ekki fylgdi böggull skammrifi. nfl. að gera ráðstafanir til þess að halda verðinu niðri langt fram um það, sem ástæða er til. Miðað við t. d. Noreg eða Danmörku mundi verð á þessari vöru verða mjög lágt, miklu lægra en t. d. í Þýzkalandi.

Þá er það síðari málsgr. 1. gr. frv., sem ég hefi viljað orða nokkuð um, og er það í samræmi við það, sem ég hélt hér fram við 2. umr., að miða innflutningsleyfin á kartöflum við það magn af síðasta árs framleiðslu, sem hlutaðeigandi innflytjendur hafi haft til sölumeðferðar á hverjum stað. Ég hefi viljað miða þetta sem ákveðnast og mest við þessa reglu, til þess að tryggja það, að þeir, sem hafa haft sölumeðferð kartaflna með höndum, reyni að ná í sem mesta innlenda framleiðslu, og bændur gætu á þann hátt fengið góðan og skjótan markað fyrir vörur sínar. Það hefir viljað standa í vegi fyrir framleiðslu kartaflna, að menn hafa átt örðugt með að geyma þær svo að ekki kæmist skemmd í þær, en flestir kartöfluinnflytjendur hafa goð geymslupláss og eiga því auðvelt með að geyma allmikið magn. Myndi þá framleiðslan fljótt seljast úr sveitunum, og hið opinbera losnar þá við þann kostnað, sem menn hafa verið að ráðgera að leggja í með byggingu eða leigu geymslukjallara.

Þá er 2. brtt. mín. Þar legg ég til, að bætt verði við nýrri gr. á ettir 4. gr., er felur í sér, að leggja skal 1 kr. gjald á hverja tunnu innfluttra kartaflna, og renni það í sjóð, er nefnist garðræktarsjóður. Eftir því, sem innflutningurinn hefir verið, myndu árlegar tekjur sjóðsins verða um 25 þús. kr. ætlast ég svo til, að úr þessum sjóði verði framleiðendum greiddar allt að 3 kr. fyrir hverja tunnu, eftir till. Búnaðarfél. Ísl., og yrðu það einskonar framleiðsluverðlaun til bænda frá hinn opinbera. Verkar þetta svipað og till. hv. 1. þm. Árn. myndi gera, ef samþ. yrði. Þar sem ég legg til, að verðlaun þessi séu greidd fyrir framleiðslu, sem seld er út úr framleiðsluhéraðinu. Þá er það gert með tilliti til þess, að á innanhéraðssöluna fellur svo lítill kostnaður, að ekki verður hann tilfinnanlegur á móts við það, ef senda þarf kartöflurnar á fjarlæga markaði. Ég hygg, að fyrst um sinn yrði nægilega mikið fé til í garðræktarsjóði til að greiða framleiðendum 3 kr. á tunnuna.

Þetta eru þá þær aðalbreyt., sem ég legg til. Ég hefi rökstutt þær með reynslu undanfarinna ára í kartöfluverzluninni. Það er þegar sýnt, að ekki er hægt að haga sér með innflutning kartaflna eftir því, hvaðan menn telja hagkvæmast að kaupa þær, heldur verður að kaupa þær þar, sem möguleikar eru á því vegna gjaldeyrisins. Og þegar við getum ekki hagað innkaupunum á þessari vöru eins og neytendunum er hagkvæmast, þá er ekkert undarlegt við það, þótt takmörkun verði gerð á innflutningnum og að slíkar takmarkanir jafnvel leiddu til einhverrar verðhækkunar á kartöflunum. En við erum orðnir svo háðir örðugleikum viðskiptanna, að við verðum að fara eftir því, hvar gjaldeyririnn leyfir innkaupin, en ekki fyrst og fremst eftir því, hvar hagkvæmast væri að verzla með tilliti til verðsins eins.