22.03.1935
Neðri deild: 35. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég mun leitast við að lengja ekki mikið umr. um mál það, sem hér er um að ræða, enda er margt af því, sem hv. 6. þm. Reykv. tók fram í síðustu ræðu sinni, atriði, sem ég drap á við 1. umr. málsins, þótt hv. þm. hafi ekki verið viðstaddur þá.

Hv. um. drap fyrst á það, að við athugun á þessu frv. hefði það sýnt sig, að það hefði sízt batnað, hvorki hvað efni né búning snerti. Hann taldi það eðlilegt vera, því að illa hefði verið vandað til þeirra manna, sem um frv. fjölluðu. Nefndi hann sérstaklega Erling Friðjónsson á Akureyri. Það er rétt, að hann vann að undirbúningi þessa frv., en án þess að ég ætli að fara út í mannjöfnuð milli hv. þm. og þessa manns, þá hygg ég, að flestum komi saman um, að það rúm, sem E. F. skipar, sé ekki illa skipað, jafnvel þar, sem þessi hv. þm. á sæti.

Hv. þm. sagði, að með frv. því, sem hér er fram borið, væri í rauninni verið að vísa málefnum útgerðarmanna á bug. Hann hélt því einnig fram, að þetta frv. væri verra en ekkert og því væri vitanlega sjálfsagt að vera því mótfallinn. Mér þykir mjög gott að fá svona óvenjulega hreinskilnislega yfirlýsingu um afstöðu hv. þm. og flokksbræðra hans til þessa máls. Sérstaklega þykir mér vænt um þetta, þegar ég hefi hlustað á þessa menn tala með yfirdrepskap og hræsni um skinhelgi. Samhliða því sem þeir telja örðugt að fá fé til þeirra framkvæmda, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., bera þeir fram frv. sjálfir, þar sem gert er ráð fyrir þrisvar sinnum stærri fjárupphæð í sama skyni. Ef það er örðugleikum bundið, sem ekki eru neinar sérstakar ástæður til þess að ætla, að fá 11/2 millj. í þessu skyni, þá held ég, að það hljóti að liggja í augum uppi, að ekki minni örðugleikar séu á því að útvega 5 millj. kr. í sama skyni. Vilji þessi hv. þm. kalla það yfirdrepskap, sem fer fram á 11/2 millj. kr., þá verð ég að segja, að það sé að hafa nauðsynjamál útgerðarmanna að fíflskaparmálum, að bera fram till. um meira en þrisvar sinnum stærri upphæð í sama skyni. Hv. þm. tók það fram, að það væri mjög mikill munur á þessu frv. og þeirra, því að þar væri rækilega gerð grein fyrir því, hvernig fjárins skyldi aflað. Það var svo sem enginn vandi. Það átti ekki að taka þetta fé úr ríkissjóði. Það átti bara að taka 3/4 úr milljón á ári af útflutningsgjaldi á sjávarafurðum, og gefa út skuldabréf, allt að 4 millj. kr., sem skyldi innleyst með þeim tekjustofni, sem þar er bent á. En þessi tekjustofn er nú þegar og hefir mörg undanfarin ár verið bundinn í þörfum ríkissjóðs.

Hv. þm. sagði — sem ég skal játa, að er að nokkru leyti satt —, að það væri býsna mikili munur á þeirri liðsemd, sem landbúnaðinum væri veitt með kreppulögunum, þar sem gert væri ráð fyrir 111/2 millj. kr. lánveitingu til hjálpar landbúnaðinum, og þeim stuðningi, sem hér er gert ráð fyrir að veita sjávarútveginum, þar sem hann væri ekki nema 11/2 millj. kr. Ég skal játa það með hv. þm., að það er mikill munur á þessu, þótt hann sé að vísu ekki svipað því eins mikill og hann vildi vera láta, því að það er gert ráð fyrir, að mjög mikill hluti af kreppulánasjóðsbréfum greiðist af lántakendunum sjálfum, þótt ég skuli játa, að það kunni að bregða til betri vona. En hv. þm. verður að gæta þess, að tímarnir eru aðrir nú en þeir voru þá. Í öðru lagi mun það vera talið af öllum, sem nokkra þekkingu hafa á fasteignamálum hjá okkur, að ekki sé fært að halda öllu lengra út á þá braut, sem farið var inn á með kreppulánasjóðsbréfaútgáfunni. Ég skal bæta því við, að ég verð að telja, eins og ég benti á strax og frv. um kreppulánasjóð bænda var afgr., að það sé miklum vafa undirorpið, hvort sú ráðstöfun hefir verið skynsamleg. Mér er næst að halda, að það muni sýna sig áður en mjög langt um líður, að menn líti svo á, að það sé ekki hyggilegt fyrir þá að halda áfram á þessari braut. Það er sorgleg staðreynd, að þrátt fyrir þessa miklu kreppuhjálp til bænda, þá er ástand landbúnaðarins svo bágborið, að nauðsyn hefir knúið til þess að bæta við styrk á styrk ofan til bænda frá því að sú löggjöf var samin. Mér er nær að halda, að það geti ef til vill komið bændum að meira liði, að varið sé minna fé á annan hátt í þarfir landbúnaðarins heldur en gert er með því að kaupa svona dýr kreppulánabréf. Þó mun sumum mönnum að vísu hafa verið gefnar stórgjafir — óeðlilega stórar gjafir. Ég tel það meginkost þessa frv. sjálfst.manna, að í því er ekki gert ráð fyrir, að haldið verði áfram að gefa út skuldabréf á sama hátt og kreppulánasjóður gerir. Með minni upphæð, sem greidd væri í peningum, mætti kaupa allmiklar ívilnanir handa útgerðarmönnum. Mér heyrðist á hv. flm. frv., að þeir væru mér alveg sammála um þetta atriði. Nú hafa þeir horfið frá þessu og haldið inn á þá braut, að nota heldur skuldabréfaútgáfuna til þess að koma lánveitingunum áfram, sem þeir hljóta að gera ráð fyrir, að verði hliðstæðar kreppulánum landbúnaðarins, þannig að þessi skuldabréf séu ekki tekin með fullu verði, nema í þeim tilfellum, sem lögin beinlínis fyrirskipa.

Hv. þm. spurði, hvort frv. hefði verið skotið til bankanna. Mér er skylt að svara þessari fyrirspurn, og það get ég gert í mjög stuttu máli. Ég sendi — strax að loknu síðasta þingi — frv. sjálfstæðismanna um skuldaskilasjóð til beggja bankanna til umsagnar. En hvorugur bankinn svaraði. Það var einnig leitað álits bankanna um frv., um skuldaskilasjóð smábátaeigenda, en þeir svöruðu ekki heldur í það skiptið. Mér þykir rétt að geta þess, að aðalbankastjórar beggja bankanna voru fjarverandi um þetta leyti, en eftir að landsbankastjórinn kom heim hefir ekkert svar borizt.

Þá talaði hv. þm. um það, að sú fjárupphæð, sem gert er ráð fyrir í frv. því, sem hér liggur fyrir, væri algerlega ófullnægjandi. Ég skal nú ekki um þetta fullyrða. Það er ekki þægilegt. Fyrst og fremst sökum þess, að það skortir mikið á, að skýrsla sú, sem hv. mþn. í sjávarútvegsmálum samdi um ástand sjávarútvegsins, sé fullkomlega tæmandi. Auk þess er það vitað, að mikil breyt. hefir orðið til hins verra síðan.

Ég hygg þó, að á þeim grundvelli, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sem hér liggur fyrir, sé hægt að draga úr skuldabyrði vélbátaútvegsins frá því, sem nú er, ef þetta frv. verður samþ. Það er ekki ætlazt til, að þessi hjálp nái til annara útvegsmanna en þeirra, sem reka útgerð með vélbátum og skulda meira en sem svarar 75% af virðingarverði eigna þeirra. Um ástæðuna fyrir því, að ekki eru teknar með lánveitingar til botnvörpuskipaeigenda, skal ég ekki fjölyrða að þessu sinni. Ég hefi oft skýrt frá því og mun því ekki endurtaka það nú.

Skal ég nú gera grein fyrir því, hvers vegna miðað er við þá eina, sem skulda hærri upphæð en sem nemur 75% á móti eignum. Það er vegna þess, að yfirleitt verður að telja, að þeir útgerðarmenn, sem ekki eru lakar staddir en það, að þeir eiga 1% umfram skuldir sínar, eftir því sem mat á eignunum segir til, séu ekki svo illa á sig komnir, að þeir þurfi hjálp. Ef svo langt æti að seilast, þá er mikið vafamál, hvort nokkur er svo vel stæður, eða hvort réttlátt sé að leggja gjöld á allan almenning í landinu til þess að veita þessum mönnum hjálp, þegar ekkert liggur fyrir um, að þeim sé brýn þörf hjálpar. Ég vil fullyrða, að engin ástæða sé til þess að ætla, að lánsstofnanir gangi hart að mönnum og svipti þá eignum sínum, ef þeir skulda ekki meira en sem svarar 75% af virðingarverði eigna þeirra. Það eru engin dæmi fyrir hendi um, að lánsstofnanir hafl gert þetta.

Hv. þm. talaði um, að þó miðað yrði við 75%, þá yrði þessi upphæð samt ófullnægjandi. Ég þori sem sagt ekki að fullyrða, hverjar breyt. eru á orðnar síðan skýrsla n. var samin, ne heldur hversu mikið kunni að breytast mat á eignum í sambandi við lántökur, frá því sem gert er ráð fyrir í skýrslu n., en ég hygg þó, að ástæða sé til þess að ætla, að með 15% lánveitingu úr skuldaskilasjóði til jafnaðar láti nærri, að hún hrökkvi til. Eigi að koma efnahag manna á sæmilegan grundvöll, þá verður að teljast, að ekki sé fært að ganga lengra í lánveitingum almennt en svo, að áhvílandi skuldir séu um 90%, skuldir, sem fyrir eru og innieign skuldaskilasjóðs. Þess ber að geta um þær skuldir, að samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að þær verði vaxtalausar fyrsta árið og afborgunarlausar þrjú fyrstu árin, þann tíma, sem ætla má, að breytingar geti orðið, annaðhvort til hins betra eða til hins verra, hjá sjávarútveginum. Verði breyt. til hins betra, má vafalaust telja von um, að skuldirnar greiðist. En breytist ástandið aftur á móti til hins verra, þá benda allar líkur til þess, að mikið af þessu fé tapist. En þá eru þeir, sem lán hafa fengið, því betur settir sem þeir hafa komizt að betri samningum um skuldir, sem á hvíldu á undan og þeir hafa fengið eftirgefnar, sem svarar 90% af virði eignanna. Hv. þm. sagði, að ætlunin með frv. sjálfstæðismanna væri sú, að koma þessum málum á þann grundvöll, að útgerðarmenn, sem hjálp fengju úr skuldaskilasjóði, skulduðu ekki meira en sem næmi 65% á móti eignum þeirra. Það, sem á milli ber, er því ekki annað en það, hvort lána eigi út úr sjóðnum gegn 65 eða 75% skuldum á móti eignum. Það áttum við að geta verið sammála um, að það er svo í flestum tilfellum, að ef skuldunautar skulda yfir 75%, ef til vill upp í 150—200%, þá verði að gera ráð fyrir, að með séu teknar eignir þeirra sem svarar upp undir 100%. Óveðhæfar eignir eru vitanlega undantekning. Þetta bendi ég á í sambandi við það, sem hv. þm. sagði um þau skilyrði, sem sett væru fyrir lánum, sem veitt væru á undan lánum skuldaskilasjóðs. Hv. þm. vildi halda því fram, að þetta ákvæði í lögunum gerði það að verkum, að jafnvel í mjög mörgum tilfellum væri ekki lánsvon, a. m. k. ekki fyrir þá, sem verst eru settir. Þetta er byggt á hreinum misskilningi. Mér er kunnugt um, að því er svo farið, að víða hafa menn veðbundnar fasteignir langt fram yfir það, sem þær eru virtar á. Hvað þýðir það? Það þýðir ekkert annað en það, að samtímis því sem samið er við lánardrottnana um að borga af veðskuldunum niður í 75%, þ. e. að borga út milli 13—20%, þannig að veðskuldirnar nemi ekki meiru en 75% móti eignum, þá verði það gert að skilyrði til að veita þeim lán út á það, sem eftir stendur af skuldunum. Nú er það svo, eins og hv. þm. er sjálfsagt kunnugt um, að langmestur hluti þessara skulda fellur í gjalddaga eftir 3—6 mánuði. Að sjálfsögðu yrði skuldaskilasjóður, sem lánar á eftir upp á 75%, að gera það að skilyrði, að ekki sé hægt að ganga að honum strax á sama ári fyrir skuldir, sem á undan eru. Ég sé því ekki betur en að þetta sé eðlilegt og sjálfsagt. Að því er snertir þá, sem verst eru settir — og skildist mér hv. þm. eiga við þá, sem skulda 120—150% af virðingarverði eigna sinna —, þá taldi hv. þm., að rétta frv. væri þeim gagnslaust. Ég skil þetta ekki. Ég hugsa mér, að þetta sé þannig, að ef maður t. d. skuldar 150% á móti eignum, sem mat nær til, þá hljóti skuldareigendur að játa, að eins og sakir standa, mundi a. m. k. það tapast af skuldunum, sem fram yfir matsvirði þeirra er, ef gengið yrði að mönnum. Því er undir flestum kringumstæðum engin ástæða til þess að bjóða lánardrottnum neinar þær skuldir, sem eru umfram 100% á móti eignum. Ég hygg, að í flestum tilfellum mundi lánardrottinn gefa upp undir 10% afslátt til þess að tryggja það, að haegt sé að fá útborgað 15% í reiðu fé. Þetta er sá megingrundvöllur, sem gert er ráð fyrir í frv.

Ég get hugsað mér, að stjórn sjóðsins sjái ástæðu til þess að vera ríflegri í lánum, og færi kannske upp í 20—25% lán, ef um væri að ræða að kaupa af honum eftirgjafir, sem sýnt þætti, að fengjust, ef atvinnurekstur mannanna gæti borið sig. Eins og hv. þm. hefir tekið eftir, er þetta þó miðað við 75% eignamat og 15% viðbót, en það er hægt að bæta við 10%. Hins vegar verður það þannig í ýmsum tilfellum, að sjóðurinn þarf ekki að lána 15%. Maður, sem skuldar t. d. 85% og þarf hjálpar sjóðsins, þarf ekki nema 10%. Ég hygg, að í flestum tilfellum fari það svo, að þessi upphæð, sem hér er gert ráð fyrir, nægi til þess að kaupa samþykktir á þeim lausaskuldum, sem vafalaust í flestum tilfellum eru eingöngu til þess að lækka hinar svokölluðu veðskuldir.

Ég held ekki, að fleiri atriði hafi verið í ræðu hv. þm., sem ég sé þörf til þess að drepa á. Þó vil ég að lokum segja það, að ég veit, að mér er óhætt að fullyrða, að þetta frv. þeirra sjálfstæðismanna muni ekki ná fram að ganga á þessu þingi. Ég hygg einnig, að eins og frá því frv. er gengið, þá séu — því miður — öll líkindi til þess, að það yrði að mestu leyti pappírsgagn eitt. Því held ég, að þeir, sem í alvöru vilja reyna eftir mætti að leggja þeirri grein sjávarútvegsins, sem hér um ræðir, lið, ættu að stuðla að því, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, fengi sem skjótasta afgreiðslu, og nú þegar á þessu þingi, þar sem það er víst, að með því má veita talsvert mikilsverða bót þeim hluta sjávarútvegsins, sem lakast er settur.