17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

Afgreiðsla þingmála

Pétur Ottesen:

Ég vil taka undir það, sem fram hefir komið hjá hv. þm. N.-Þ. og hv. þm. Húnv., að það er rétt, að mál, sem snemma hafa komið fram, sérstaklega á fyrri hluta þingsins, séu ekki sett til hliðar nú, þegar kreppir að um afgreiðslu mála. Mér finnst, að hæstv. forseti ætti að fylgja þeirri reglu að taka tillit til þess, hvað snemma málin koma fram.

Ég kvartaði fyrir löngu síðan um, að n. hefði ekki afgr. mál, sem ég hefi haft huga á. Ég hafði það upp úr, að n. hefir afgr. málið. En það er ekki enn komið á dagskrá. Þetta mál er frv. um sauðfjárbaðanir. Ég vil benda á, að það er stór þáttur til að herða á afgreiðslu þessa máls, að það myndi spara 25 þús. kr. útgjöld í fjárl. eða gera óþarfar till. um svona mikil útgjöld í þessu skyni. Þetta er atriði, sem taka verður til greina, sérstaklega með hliðsjón af því, hvað mikil þörf er að spara öll útgjöld úr ríkissjóði, sem hægt er að komast hjá eða setja til hliðar nú. En þessir möguleikar eru til, ef þetta frv. nær fram að ganga.