06.11.1935
Neðri deild: 66. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

Þingfréttaflutningur í útvarpi

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Það eru sjálfsagt allir á einu máli um það, að ekki sé rétt að stöðva flutning útvarpsfrétta af þinginu. Menn vilja eðlilega fylgjast með í því, sem þar gerist. Og hitt munu líka allir vera sammála um, að sá fréttaflutningur eigi að vera hlutdrægnislaus. Þetta hvorttveggja, að fregnir fáist af störfum þingsins og að þær séu hlutdrægnislausar, tel ég, að Alþingi beri skylda til að tryggja.

Annars get ég vel gengið inn á það, að með tilliti til þess, hvernig forsetar þingsins eru valdir, þá séu afskipti þeirra af fréttaflutningum engin trygging fyrir því, að hann sé hlutdrægnislaus. Mér hefir því dottið í hug, hvort ekki myndi tækilegt að skipa þingnefnd, sem t. d. einn maður frá hverjum flokki ætti sæti í, til þess að fara yfir handrit fréttamanns. Að ég kem með þessa uppástungu hér, er sakir þess, að ýmsir útvarpshlustendur telja sig verða vara við hlutdrægni í fréttaflutningi útvarpsins. Ég vil þá að endingu nota tækifærið til þess að beina því til hæstv. forseta, hvort þeir gætu ekki átt hlut í því, að þessi þrautleiðinlegi þulur, sem nú flytur þingfréttir í útvarpið, fái sér aðra atvinnu.