04.11.1935
Efri deild: 60. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Jón Auðunn Jónsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 424, sem ég vil fara um nokkrum orðum — en um frv. almennt ætla ég að þessu sinni ekki að ræða —, og vil þá sega þetta: Það er eflaust öllum hv. þdm. vitanlegt, að bæjarsjóður Ísafjarðar, eins og aðrir bæjar- og sveitarsjóðir hér á landi, þarf að fá mikið aukna sína tekjustofna frá því, sem nú er, en það er alveg víst, að fyrir utan fasteignaskattinn, sem nær til allra húseigenda, eru margir þeirra beinlínis skattlagðir hér mjög tilfinnanlega, auk þess sem margir leigjendur og fleiri eru skattlagðir óbeint og á ósanngjarnan hátt með þessu frv. gegnum óhjákvæmilega hærri húsaleigu. Er það húsaleiguskatturinn, sem sérstaklega er ósanngjarn eftir frv. og kemur mjög ójafnt niður. Hafa 183 húseigendur af 204 í Ísafjarðarkaupstað mótmælt þeirri aðferð við álagningu skattsins, sem frv. gerir ráð fyrir. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta lesa þeirra mótmæli. Eftir að hafa tekið fram, að þeir mælist ekki undan sanngjörnum og nauðsynlegum sköttum til bæjarfél., vilja þeir gera þessar aths. við frv.:

„Framkvæmd reglugerðar um innheimtu skattsins er algerlega lögð í hendur meiri hl. bæjarstj. frá ári til árs, og stighækkun hans háð geðþótta sama meiri hl. Yrðu slík lagaákvæði einstæð hér á landi og opni leið til þess, að skatti þessum mætti beita sem pólitískum skatti.

Eins og skattstiginn er hugsaður og ráðgerður af meiri hl. bæjarstj. yrði hann ósanngjarn handahófsskattur.

Stighækkun skattsins, ef til framkvæmda kæmi, á að vorum dómi að byggjast á arði húseigna eða lóða, en ekki afnotum, þar sem það er öllum kunnugum vitanlegt, að hér í bæ er um engar „lúksus“-íbúðir að ræða. Þessi skattgreiðsla yrði því í framkvæmd óeðlilegur og einstæður skattauki á þá ákveðnu notkun borgaranna á fjármunum sínum, að vilja búa sæmilega.

Skattur þessi yrði og óhjákvæmilega til þess að hakka bæði húsaleigu og lóðaverð, sem hvorttveggja er fullhátt áður, og því auka enn dýrtíðina í bænum og draga úr mönnum hvöt til þess að eignast sjálfsíbúðir, sem telja verður þó æskilegast frá sjónarmiði alls bæjarfélagsins“.

Með þessu eiga þeir við það, að samkv. ákv. 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að skattstiginn geti farið eftir íbúafjölda í hverju húsi. Það virðist nú vera meining frv., eftir að það hefir verið fært til betra máls í hv. Nd., en áður var það lítt skiljanlegt, að skatturinn eigi að fara eftir íbúatölu, þannig, að þeir húseigendur eigi að borga hærri skatt, sem leigja fáu fólki í hlutfalli við rúmmál húsanna, en hinir, sem búa þröngt, eigi að greiða hlutfallslega lægri skatt, miðað við stærð húsanna. Ísfirðingar segja, að þessi skattur sé áformaður sem lúksusskattur, þannig, að þeir, sem hafi góðu íbúðirnar, borgi meira, en hinir, sem noti þær lélegri, borgi minna. En þetta er mjög óeðlilegt og ekki sýnilegt, að þeir, sem að frv. standa, óski eftir því, að fólkið reyni að veita sér hollari og betri íbúðir en það nú hefir. Þá er það næsta ósanngjarnt, ef einhver skyldi ekki geta leigt út hluta af sínu húsi, að þá skuli hann verða að borga hærri skatt fyrir það, að íbúðir hans standa auðar; eins er það t. d. um verzlunarbúðir, sem ekki er hægt að leigja og eru því ekki notaðar. Ég veit þannig um fjórar búðir á Ísafirði, sem ekki hafa verið notaðar í tvö til þrjú síðastl. ár; þær eru í nýjum húsum, er hafa verið byggð sem verzlunarhús, en búðirnar hefir ekki verið hægt að leigja. — Mínar brtt. við þetta frv. miða að því að færa þessi gjöld til samræmis við það, sem tíðkast í öðrum bæjarfél. sem fengið hafa leyfi fyrir slíkum skattstofnum. Það virðist líka í framkvæmd ómögulegt annað en miða þennan skatt við fasteignamat. Það er ómögulegt að hafa kannske tíu til tólf skattstiga á húseignum, eftir íbúafjölda þeirra í hlutfalli við stærð, breytilega frá ári til árs, ef íbúðir eða verzlunarpláss eru kannske ár og ár í senn ónotuð.

Þá virðist það ákaflega ósanngjarnt að láta sama lóðargjald vera af lóðum til ræktunar, fiskþurrkunar og húsbygginga. Það er vitanlegt, að lóðir á Ísafirði, sem teknar hafa verið til ræktunar, hafa orðið mjög kostnaðarsamar. vegna þess hve erfitt er þar og dýrt að rækta, og að þeir peningar, sem til þess hafa farið, fást aldrei til baka. Sama er að segja um fiskþurrkunarlóðir. Til þeirrar starfsemi þarf svo stór svæði í samanburði við notagildið, að það er ákaflega ósanngjarnt að taka af þeim sama lóðargjald og af þeim lóðum, sem byggt er á og hækka í verði strax eftir að byggt hefir verið á þeim og hægt er að fara að leigja þær út.

Hv. frsm. minni hl. vildi halda því fram, að það væri rétt að miða þetta gjald við einhvern fastákveðinn hundraðshluta af andvirði eignanna og hafa ekki neitt svigrúm til að hækka það og lækka, eins og gert er í frv., þar sem farið er fram á, að innheimta megi 0,4—1% af húsverðinu. En ég álít rétt, þegar um er að ræða nýja skatta, að hafa a. m. k. heimild til að fara ekki í hámark þegar í byrjun. Eins og allir vita, er oft erfitt að innheimta nýja skatta, og ég álít, að það mundi verða auðveldara að innheimta það gjald, sem hér er um að ræða, ef heimilað væri að hafa það lægra fyrst í stað, þó ekki væri nema tvo til þrjú ár, og hækka það svo aftur. Hitt dreg ég ekki dulur á, að ég tel, að Ísafjarðarkaupstaður þurfi sem bráðast að fara þarna í hámark, — og það mundi verða gert. En ég vil, að bæjarstj. sé heimilað að ráða því, ef hún vill hafa gjaldið lægra fyrst í stað.

Ég hefi komið með till. um að fella niður gjald það, sem innheimt hefir verið fyrir sóthreinsun reykháfa. Það hefir á síðustu árum verið varið talsverðri upphæð til varnar gegn eldsvoða og útrýmingar rottum; hefir sá kostnaður verið greiddur úr bæjarsjóði án þess innheimt væri sérstakt gjald fyrir, svo hér er ekki um neitt nyt að ræða. Hinsvegar má benda á, að það eru ýms önnur gjöld, sem Ísafjarðarbær gæti innheimt, t. d. vatnsskattur, sem víða er tekinn í bæjum. Ísfirðingar hafa, eins og allir vita, gert talsvert til þess að fá gott vatn í bæinn. En því miður stendur svo á, að það þarf innan örfárra ára að auka mjög við vatnsveituna, því vatnsskortur verður oft í þurrkatíð. Ég er því sannfærður um, að leggja verður á eitthvert slíkt gjald sem vatnsskatt, og ég býst við, að þó það sé ekki í þessu frv., þá komi bráðlega fram beiðni um leyfi til þess. Það hafa verið nokkrar tekjur af vatnssölu til skipa, en ekki nálægt því svo miklar, að með þeim hafi verið hægt að greiða viðhald vatnsveitunnar, hvað þá slíkar umbætur, sem nú standa fyrir dyrum.

Ég skal ekki fjölyrða um brtt. hv. 2. þm. Eyf., en ég tel hana alveg sjálfsagða. Það yrðu mestu vandræði úr því, ekki sízt þegar skipa þarf upp heilum förmum af kolum, salti og öðrum nauðsynjavörum, ef bæjarstj. ætlaði að taka slíkt að sér og þeir menn, sem vöruna fá, fengju ekki að annast uppskipunina, eins og verið hefir. Hann minntist á vöruflutningaskip Eimskipafél. og ríkisskipin. Svo eru fisktökuskipin. Það eru venjulega 8—9 afskipendur um hvert skip, og oft koma ekki á hvern nema 25—70 pakkar. Þeir hafa þá með sér félagsskap um að koma fiskinum út í skipið, taka hann hjá hverjum manni og gera svo upp jafnaðargjald eftir því, sem kostar að koma fiskinum um borð. Ef einhver afgreiðslumaður, sem skipaður væri af bæjarstj., ætti að sjá um þetta, get ég búizt við, að það stæði oft á afgreiðslu og það yrði erfitt að fá slíka afskipun á öllum tímum sólarhringsins, eins og þarf að vera. Auk þess væri með þessu fyrirkomulagi bændum kringum Ísafjarðardjúp bundinn þungur baggi. Eins og nú er fá þeir að taka sínar vörur í Djúpbátinn, sem flytur meginið af þeim vörum, sem í Norður-Ísafjarðarsýslu koma. Þeir reyna að gera sér þetta eins ódýrt eins og þeir geta, og margar þessar sendingar eru innan við 20 kg., svo að útskipunargjaldið hefir orðið miklu lægra á þessum varningi héraðsbúa heldur en á almennum verzlunarvörum. Það hefir orðið 1/3 eða 1/2 lægra þrátt fyrir það, að þennan bát þarf oft að afgreiða eftir vinnutíma. Ég sé fram á, að það mundi verða stórkostlega aukinn kostnaður fyrir þá menn, sem nota Djúpbátinn, ef slíkt ákvæði sem þetta yrði lögfest, að Ísafjarðarbær fengi einkarétt á uppskipun og framskipun þar á staðnum.