07.11.1935
Neðri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

164. mál, skipun barnakennara

Sigurður Einarsson:

Mér er kunnugt um, að það er mikill áhugi fyrir því í stjórn Sambands ísl. barnakennara, að þetta frv. verði að l. En það eru einstök atriði í því, sem ég vildi þegar gera að umtalsefni, áður en það fer til n.

Fyrst og fremst er það ákvæði 1. gr. b, þar sem svo er tekið til orða, að „meðan kennaraskóli Íslands útskrifar ekki kennara í öllum þeim námsgreinum, sem kenndar eru við barnaskóla; hafa þeir rétt til að verða kennarar í þessum námsgreinum, sem aflað hafa sér nægjanlegrar menntunar til þess, að dómi fræðslumálastjóra“, o. s. frv. Mér er ekki kunnugt um, ef hér er átt við fagkennslu, eða þá, sem hafa sérmenntun til þess að kenna eina námsgrein, að það fyrirkomulag hafi verið haft, að fræðslumálastjóri einn sé látinn löggilda þá til slíks. Mér er kunnugt um, að mjög mörgum kennurum er það mikið áhugamál að sum atriði frv. nái fram að ganga, t. d. að því er snertir kennara, sem fengið hafa kennararéttindi fyrir 1919, sem samkv. þessu verða útilokaðir frá að halda áfram kennslustörfum, ef þeir hafa ekki verið skipaðir af kennslumálastj. sem kennarar við einhvern skóla. Ég vil benda á, að það stendur í 3. gr. frv., að ákvæði 1. gr. frv. b. skuli ekki ná til kennara, sem skipaðir hafa verið af kennslumálastj. áður en l. koma í gildi. Nú má gera ráð fyrir, að menn hafi verið settir í kennarastöður, sem ráðuneytið vill ekki svipta stöðunum, og virðist því ef til vill ekki ástæða til að skera svo skarpt á milli þeirra, sem hafa verið skipaðir, og hinna, sem aðeins hafa verið settir, svo framarlega sem þeir að öðru leyti fylla sett skilyrði um starfshæfni og undirbúning.