29.11.1935
Neðri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (2352)

164. mál, skipun barnakennara

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Ég verð að segja, að það er langt síðan ég hefi orðið jafnsteinhissa eins og ég varð áðan undir ræðu hv. þm. Ak. Ég varð alveg hissa á því, að jafnhversdagslegt lipurmenni, sem er það tamara að verka frekar vel á mann, skyldi villast eins langt og hann gerði inn á vettvang barnakennaranna í landinu.

Þegar hv. þm. talar um, að barnakennararnir séu með stéttarsamtökum sínum að espa mikinn hluta þjóðarinnar til andstöðu gegn sér og beita hana þrælatökum með sínum hóflausu kröfum, þá er langt gengið í fjarstæðunum. Og þó veit þessi hv. þm. mætavel, að kennarastéttin í landinu er lægst launaða stéttin í landinu, og að starf hennar er jafnan mjög vanþakkað. Ef kennararnir hefðu ákaflega stuttan vinnutíma og lifðu í vellystingum pragtuglega, sambærilegum lifnaði við lifnaðarhætti máttarstólpanna í flokki hv. þm. Ak. og stéttarbræðra hans, þá hefðu kröfur þeirra sjálfsagt ekki verið taldar hóflausar af hv. þm., og ekki talað um, að þeir væru að beita þjóðina þrælatökum.

Ég skil ekkert í hv. þm., að hann skyldi leyfa sér að slá fram þessum barnalegu sleggjudómum um íslenzku kennarastéttina; því að honum hlýtur að vera það ljóst, að þessi ummæli hans eiga sér engan stað. Hv. þm. veit, að það á síður við um kennarana en flestar aðrar stéttir þjóðfélagsins, að þeir geri hóflausar kröfur fyrir sjálfa sig, og séu margir vandræðamenn, sem aldrei ættu að koma nálægt barnakennslu, eins og hann orðaði það.

Og þegar hv. þm. fór svo að skýra þessa andstöðu sína gagnvart kennarastéttinni og hvernig á henni stæði, þá kom það í ljós, að honum þóttu kennararnir við kennaraskólann hæna að sér radikala menn og kommúnista. Ja, aumingja Ásmundur Guðmundsson og Steingrímur Arason; það er ekki gaman fyrir þá að fá svona ákúrur á bakið fyrir það, að þeir hafa hjálpað ýmsum nemendum til að komast í kennaraskólann, þó að þeir hafi ekki getað fullnægt inntökuskilyrðunum. Hinsvegar mun það vera flestum kunnugt, að ég hefi staðið mest á móti því, að nemendur væru teknir inn í kennaraskólann án þess að þeir hefðu nægilega undirbúningsmenntun.

Fyrir nokkrum árum ætlaði Sjálfstfl. að ærast út af því, að kandidat í guðfræði varð kennari við kennaraskólann.

Þetta er bara barnaskapur að tala um svona lagað í sambandi við það, hvort gera eigi endurbætur á kjörum kennara. Það er óneitanlega hálfhart að vera að tala um þrælatök í sambandi við þetta. Hvað ætli þurfi marga kennara til að jafnast á við einn fisksöluforstjóra að launum? Og svo er verið að tala um hóflausar kröfur þeirra og þrælatök, og þeir eru nefndir vandræðamenn o. s. frv. Ég get frætt hv. þm. á því, að þeir menn, sem eitthvað hefir komið fyrir, sem kallað er, seinustu 10 árin, eru undantekningarlaust menn, sem eru aðskotadýr í stéttinni og ekki hafa þjálfazt í kennaraskólanum, — menn, sem hafa þröngvað sér inn í hana án þess að fullnægja þeim kröfum, sem hér er verið að gera um undirbúningsmenntun kennara. Ég get sagt það, að hafi einhverjum þótt svör mín loðin við ræðu hæstv. ráðh., að það hefir ekki verið hjá því komizt að hafa svo tugum skiptir af ólærðum mönnum í kennarastöðu, af því að launin eru svo lítil, að beztu mennirnir vilja ógjarnan þessi störf. En úr þessu verður ekki bætt nema með því að gera kjörin lífvænlegri, og ég sé enga ástæðu til að draga að gera slíkt að lögum. En um gildistökuákvæði þessara l. verð ég að segja það, að mér finnst engu verulegu máli skipta, hvort l. ganga í gildi strax eða 1. okt. 1936. Mér virðist kennarar megi vel við una, þótt þau gangi ekki í gildi fyrr en 1. okt. 1936; ég sé ekki að það sé neitt atriði.