13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Það má segja um hv. þm. Borgf., að sjaldan bregður mær vana sínum. Auðvitað þurfti hann að koma að einhverjum svigurmælum, er hann gerði aths. sína. Hann gerir sjáanlega engan mun á því að standa við skoðanir sínar og að standa við öll orð, sem falla í umræðuhita. Í hans augum er það alveg það sama að standa við öll stóryrðin og að standa við skoðanir sínar. En ég er ekki alveg viss um, að sumir hv. dm., sem að jafnaði ber minna á, séu óstöðugri í skoðunum heldur en hv. þm. Borgf. — Honum finnst það sama, hvað brtt. okkar sé ómöguleg, að við viljum nú breyta tveimur orðum í upphafi hennar. Sú orðabreyt. miðar til fegurra máls; ég viðurkenni það auðvitað. En maður, sem hefir borið fram brtt. á þingi og fært með henni stað á ströndu landsins annesja milli, hann ætti held ég ekki að vera með svigurmæli til annara, þó þeir beri fram till. sem orða mætti á annan hátt betur. (Rödd úr salnum: Hver gerði það?). Það hefir einn af hv. þm. gert, og þingsagan sýnir, hver það er. Hann let í till. sinni ákveðinn stað tilheyra öðrum flóa heldur en hann hefir gert bæði fyrr og síðar. En þetta er nú meira sagt til gamans heldur en að annað eigi að vera í því fólgið.

Hv. þm. Borgf. vék enn að till. okkar hv. 2. þm. Árn. og taldi, að þar sem ég væri ekki fjarri því, að heppilegra væri, að ekkert af styrk- og lánveitingunum væri komið undir úrskurði ráðh., þá væri þar með fengin viðurkenning fyrir, að efnishlið þessarar till. væri óframbærileg. En hv. þm. Borgf. segir ekkert við því, þó önnur deild sjóðsins eigi að miklu leyti að vera undir yfirráðum ráðh. samkv. till. landbn. Ég vil láta vera samræmi í þessum hlutum, láta annaðhvort allt eða ekkert af þessu fé vera komið undir úrslitaatkvæði ráðh., þar sem það gengur til nákvæmlega sömu starfsgreinar í þjóðfélaginu. Við hv. þm. Borgf. getum verið sammála um, að ekkert af þessu ætti að vera komið undir úrskurði ráðh., en úr því hv. landbn. hefir kosið þann kost að láta aðra grein starfseminnar koma undir úrslitaatkvæði ráðh., því þá ekki að láta hina gera það líka?

Það eru því ekkert annað en marklaus stóryrði, sem hv. þm. Borgf. hefir viðhaft um þessa till. okkar. Ef hann er ánægðari með að viðhafa slíka málafærslu og halla réttu máli, þegar svo bíður við að horfa, ef honum finnst það bera vott um eitthvað meiri þingmennskuhæfileika, þá er það reiðilaust frá minni hálfu. Ef honum finnst henta sér og sínum málstað að viðhafa slík ummæli á þingi, sem hann hefir nú notað, þá má hann kjósa sér til handa þá kosti í því efni, er honum sýnist, mín vegna.