06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

131. mál, alþýðutryggingar

Jón Sigurðsson:

Ég á hér tvær brtt. á þskj. 713, ásamt hv. 2. þm. Árn. Fyrri brtt. er við 8. gr. 2. e., þar sem segir svo, að húsbyggingar. bæði smiði nýrra húsa og viðbætur og breytingar á eldri húsum, sé tryggingarskylt. Þetta eru breytingar frá eldri ákvæðum um tryggingarskyldu, þar sem svo er ákveðið, að þeir, sem vinna við byggingu venjulegra bæjar- og peningshúsa í sveitum, skuli ekki vera tryggingarskyldir. Við höfum orðað breyt. á þessum ákvæðum þannig, að undanþegnar tryggingarskyldu skuli vera byggingar og viðgerðir á húsum í sveitum, öðrum en tvílyftum húsum og heyhlöðum. Eins og kunnugt er, þá er víða til sveita um smáhýsi að ræða, sem dyttað er að vor og haust; það mætti því æra óstöðugan að gera slíka vinnu tryggingarskylda. Þvílíkar byggingar eru því eðlilega ekkert áhættumeiri en hver önnur störf, sem daglega fara fram í sveitum, og t. d. sízt áhættumeiri en sláttur. Að hlaða upp fjárhúsveggi er án efa eitt hið áhættuminnsta starf, sem unnið er. Það virðist því engin ástæða til að gera þetta starf tryggingarskylt. Aftur á móti teljum við sjálfsagt að gera tryggingarskylda alla meiri háttar vinnu í sveitum, svo sem vinnu við byggingu íbúðarhúsa, heyhlaðna og annara bygginga, þar sem um háa veggi getur verið að ræða. Að felld hafa verið burt þau ákvæði, sem eru í gildandi l. um þetta efni, býst ég við, að stafi af ókunnugleika þeirra manna, sem hafa samið frv. Geri ég því ráð fyrir, að brtt. verði samþ., og mun ekki eyða fleiri orðum í að tala um hana.

Hin brtt., sem er við 58. gr., er í framhaldi af því, sem ég minntist á í gær, að innheimta ellistyrktarsjóðsgjaldanna verði framvegis falin lögreglustjórum, eins og verið hefir. Það hefir ekkert það komið fram undir þessum umr., sem réttlæti það, að skella innheimtu þessara gjalda á sveitarstjórnirnar, því að þær hafa sem kunnugt er erfiðum innheimtustörfum að gegna, sem oft ganga treglega; er því sízt á þær bætandi. Hvað sérstaklega getur mælt á móti því að láta lögreglustjórana hafa þessa innheimtu á hendi, fæ er ekki séð. Það er þvert á móti víst, að þeim mun ganga betur innheimtan en sveitastjórnunum. Vænti ég því, að þessi brtt. fái góðar undirtektir hjá hv. deild.

Þá vildi ég mega spyrja hv. frsm. meiri hl. allshn., hvernig á því stæði, að felld hafa verið niður, ekki tekin upp í frv., ákvæði gildandi slysatryggingalaga um lítilsháttar innheimtugjald til hreppstjóra og annara innheimtumanna slysatryggingargjaldanna, þar sem sýslumenn eru ekki nálægt. Eins og nú er háttað um störf hreppstjóra yfirleitt, þá er tæplega ástæða til þess að bæta á þá störfum án þess að eitthvað komi í staðinn. Annars er ég svo sem orðinn vanur því að heyra það hér á Alþingi, að það megi snúa okkur sveitamönnunum út og austur fyrir ekkert, ef aðeins ríkissjóður á í hlut, enda þótt kaupstaðamaður megi ekki hreyfa hönd eða fót nema fyrir stórfé. Það má vel vera, að þetta hafi getað gengið meðan bændur höfðu nóg af fólki og gátu með góðu móti hreyft sig frá búum sínum. En þegar svo er komið sem nú, að flestir bændur eru orðnir einyrkjar, þá fæ ég ekki séð, að hægt sé að bæta á þá miklum störfum, án þess að endurgjald komi í staðinn. Þetta vil ég benda mönnum á til íhugunar og hv. allshn. til athugunar.

Í fyrri ræðu minni í þessu máli benti ég á þá annmarka, sem voru á frv. þessu, bæði að því er snerti ákvæði þess um slysatryggingarnar og ennfremur hver áhrif það myndi hafa fyrir sveitirnar, ef atvinnuleysistryggingarnar kæmust í framkvæmd. Ekkert af því, sem ég sagði þá, hefir verið véfengt, enda ekki hægt. Það er öllum kunnugt, hvernig hag bænda er komið, að þeir geta tæplega risið undir þeim byrðum, sem á þeim hvíla. Það ræður því að líkum, hvort þeim muni ekki verða erfitt að rísa undir þeim gjöldum, sem hér er gert ráð fyrir að leggja þeim á herðar, sem í mörgum tilfellum verða hærri en útsvörin, sem menn yfirleitt eru þó í vandræðum með að greiða.

Þá benti ég og á það, að ákvæðið um, hversu lengi menn mættu liggja í sjúkrahúsi, væri ekki með öllu hættulaust. Það er fullkomin hætta á að það verði misbrúkað. Menn eru nú einu sinni þannig gerðir, að þegar þeir eiga rétt á einhverju og eru búnir að greiða sín lögmætu gjöld til þess, þá vilja þeir gjarnan nota þann rétt til fulls. Og reynslan af berklavarnalögunum hefir sýnt þetta. Ég benti á það í ræðu minni í gær, að sjúkrahúsvist hefir verið misnotuð stórlega í blóra við berklavarnalögin. Nú hafa komið fram raddir um það, m. a, frá landlækni, að einstaklingar yrðu að inna af hendi visst gjald fyrir að leggjast í sjúkrahús, til hindrunar því, að það sé gert af of lítilli eða engri þörf. Ríkisstj. hefir nú skipað sérstakan lækni, sem hefir eftirlit með því, að berklavarnalögin verði ekki misbrúkuð, og hefir það hlutverk að láta þá fara af sjúkrahúsunum, sem eru svo frískir, að þeir þurfa ekki að dvelja þar. Því eins og flestum mun ljóst vera, þá hefir enginn verri aðstöðu til þess að ýta sjúklingum burt af sjúkrahúsum en sjúkrahúslæknarnir sjálfir. Það hefði verið fullkomin ástæða til þess fyrir hv. allshn. að taka þetta til athugunar.

Ég geri ekki ráð fyrir, að það hafi verið svo rammlega gengið frá samningunum á milli stjórnarfl. um þetta mál, að ekki megi hagga staf eða kommu í frv. Ég er alveg viss um, að ef menn t. d. áttu að greiða hluta af sjúkrakostnaði fyrir sig í sjúkrahúsum, þá yrðu framlög sjúkrasamlaganna snöggt minni en búizt er við.

Þá skal ég minnast með nokkrum orðum á atvinnuleysistryggingarnar; það hefir skilst mér verið dregið í efa, að þær mundu verka þannig, að auka fólksstrauminn úr sveitunum til kaupstaðanna. En ég býst við, að þeir, sem kunnugir eru í sveitunum, séu ekki í neinum efa um það. Hvernig á það líka öðruvísi að vera, þegar þeir menn, sem í kaupstöðunum búa, eiga kost á miklu hærri borgun fyrir vinnu sínu þar en í sveitunum? Og þegar hin venjulega atvinna brestur, þá fá þeir atvinnubótavinnu, en þegar henni sleppir, fá þeir atvinnuleysisstyrki samkv. þessum lögum um atvinnuleysistryggingar. Því er nú miður, að þetta hlýtur að örva sem mest má verða strauminn úr sveitunum. En þessi örvun getur aldrei leitt til annars en tjóns, bæði fyrir verkalýðinn í kaupstöðunum og þá, sem í sveitunum búa. Á það má líka líta, að kaupgjaldið er sniðið svo hátt, að verkafólkið geti lifað sæmilegu lífi, þó að vinna falli alveg niður langa tíma á árinu. Það hefir jafnan verið höfuðástæða jafnaðarmanna fyrir hinu háa kaupgjaldi til verkalýðsins, að fólkið fengi ekki vinnu nema nokkurn hluta úr árinu. Nú mun það ekki vera tilgangur þeirra, að kaupið verði lækkað þrátt fyrir þessa löggjöf; og ef ég þekki sósíalistana rétt, þá hygg ég, að þeir muni heldur vilja hækka kaupið. Og svo á ennfremur að kúga sveitirnar til þess að leggja fram kaupuppbót handa þessum mönnum í atvinnuleysistryggingasjóðinn. Mér sýnist, að það komi fram í þessu mjög lítil umhyggja fyrir framleiðslunni og ennþá minni umhyggju fyrir atvinnurekendum þessa lands.

Þá var það hv. þm. N.-Þ., sem sagði eitthvað á þá leið, að það kæmi ekki til mála að samþ. slíkt umbótamál og þetta, nema ríkissjóði væri séð fyrir nægilegu fé til þess að standast útgjöldin, sem af því leiddi. Og það er nú gott og blessað, mun mega segja, þegar fé er fyrir hendi. En hvernig er því nú í raun og veru háttað? Ég sé, að hér liggja fyrir þinginu ýmsar tekjuaukatillögur, sem eiga aðeins að gilda til eins árs; það er hækkun á tekjuskattinum og hækkun á innflutningstollum af ýmsum nauðsynjavörum.

En það vill nú svo til, að þessum útgjöldum vegna tryggingamálanna þarf að mæta með meiru en eins árs tekjum af þessum bráðabirgðalögum. Útgjöldin til trygginganna fara vaxandi ár frá ári, svo að bráðabirgðatekjuaukalög til eins árs eru gagnslítil. Mér hefir skilizt á þessum sömu mönnum, er að málinu standa, að þær gerðu ekki ráð fyrir varanlegum tekjuauka fyrir ríkissjóð af þessum tekjustofnum; tekjuskatturinn muni hljóta að minnka, og efamál, að fært yrði að halda þessum tollahækkunum á nauðsynjum almennings til lengdar. En þá vil ég spyrja þessa góðu menn: Hvar ætla þeir að taka þessar tekjur til handa ríkissjóði eftirleiðis, eða að einu ári liðnu? Og ekki aðeins það, heldur um áraraðir og áratugi, því að gjöldin til tryggingamálanna eru varanleg og fara vaxandi. Þegar sett er slík löggjöf sem þessi, þá er sannarlega ástæða til fyrir stjórnarflokkana að líta lengra en niður fyrir tærnar á sér, eða aðeins eitt ár fram í tímann. Það verður að finna einhver ráð til þess að standa straum af þessari löggjöf í framtíðinni; en mér virðist fullt útlit fyrir, að því sé stefnt í fullkomna tvísýnu.

Ég vil leyfa mér að beina þeirri spurningu til hv. þm. Framsfl., hvort þeir kjósi heldur að stofna til atvinnuleysistrygginga og leggja fram fé til þeirra úr ríkissjóði, heldur en t. d. til verkfærakaupasjóðs, búpeningsræktar, Búnaðarfél. Ísl. eða til viðhalds jarðræktarstyrknum o. s. frv. Því að ef svo fer sem allt bendir til, að tekjur ríkissjóðs muni rýrna til muna, þá verður vitanlega að skera niður framlög úr ríkissjóði frá því, sem þau eru nú; og verði það gert, þá gengur það vitanlega ekki að óverulegu leyti út yfir landbúnaðinn og þær stofnanir, sem starfa fyrir hann. — Ég spyr enn: Ætla þessir hv. þm. að skera þau framlög niður, til þess að bjarga þeirri löggjöf, sem hér er verið að troða í gegnum þingið? vitanlega verður að skera eitthvað niður á fjárl. fyrir því. Og það hefir ekki verið sneitt framhjá þeim póstum, sem ég nefndi, að þessu sinni, er varða landbúnaðinn. Og ég get búizt við, að það verði gengið lengra á þá sveif eftirleiðis.