11.12.1935
Neðri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

131. mál, alþýðutryggingar

Gísli Guðmundsson:

Hv. sjálfstæðismenn, sem hér hafa talað í kvöld, hafa nú við þessa umr. endurtekið sitt af hverju, sem þeir sögðu við 2. umr. þessa máls um afstöðu Framsfl. til þessa máls. Í því sambandi hafa fram komið hjá þeim nokkur orð, sem ég vildi lauslega drepa á.

Ég get ekki stillt mig um (í sambandi við það, sem hv. þm. V.-Sk. sagði nú í sinni síðari ræðu) að minnast lítilsháttar á það aftur, sem ég minntist á við 2. umr. málsins. Hér hefir verið talað um, að þessu frv. hafi verið dembt inn í þingið og að ætlazt sé til, að það verði afgr. sem l. frá þinginu án þess að hafa fengið nægilegan undirbúning og án þess að það hafi verið nægilega athugað af þjóðinni. Það má mjög oft deila um það yfirleitt, hvort mál hafi verið nægilega athuguð. Það má um þetta mál segja eins og um fleiri mál, að við athugun mætti sjálfsagt sjá eitthvað, sem betur mætti fara. Og hversu lengi sem mál eins og þetta eru athuguð, áður en lagasetning er um þau sett, þá mundu þau alltaf þurfa einhverra endurbóta við, þegar þau koma til framkvæmda.

Andmælendur frv. segja, að málið hefði átt að bera undir þjóðina, þjóðaratkvæði skilst mér. Um þetta mál má segja það sama og fleiri mál, að það var borið undir þjóðina eins og önnur mál, sem voru ofarlega á baugi sem stefnumál flokka þeirra, er með völd fara nú, þegar við síðustu kosningar. En að heimta, að stórmál, sem koma fyrir þingið í frumvarpsformi, séu borin upp fyrir þjóðinni í heild til umsagnar, það er nokkuð sérstakur hlutur. Sjálfstæðismenn fluttu t. d. frv. um það á þingi í fyrra, að stofnaður yrði skuldaskilasjóður til hjálpar útgerðinni, sem þeir gerðu till. um, að varið yrði til 5 millj. kr. Hvers vegna gerðu hv. sjálfstæðismenn þá ekki till. um, að það mál yrði borið undir álit þjóðarinnar. áður en það yrði gert að l., eins og þeir vilja nú láta gilda um þetta mál? Um almennar tryggingar hefir verið mikið hugsað meðal þjóðarinnar um undanfarna áratugi, sem eðlilegt er, því að þesskonar löggjöf hefir verið sett hjá flestum nágrannaþjóðum okkar. Það kveður mjög við þann tón í ræðum hv. sjálfstæðismanna, að kjósendur okkar Framsfl.-manna muni ekki verða meir en svo ánægðir með, að við fulltrúar þeirra flytjum þetta frv. með jafnaðarmönnum. Og það er verið að tala um það af þessum hv. þm., að með þessari löggjöf sé verið að leggja sérstakar byrðar á herðar sveitarfélögum, og ég veit, að þessir hv. þm. munu hugsa sér, þegar þeir koma á fundi í sveitakjördæmunum, að bera okkur þeim sökum, að við höfum verið með í að leggja á fólkið í sveitum landsins einhverjar sérstaklega þungar byrðar. Það hefir verið vikið að þeirri yfirlýsingu, sem hv. þm. Snæf. gaf fyrir sína hönd og síns flokks, þar sem hann lýsti því sérstaklega, að flokkurinn væri með einum lið þessara trygginga, sem er ellitryggingin. Nú er það svo, að þessi trygging er sú eina af þessum tryggingum, sem frv. þetta nær yfir, sem er skyldutrygging á herðar sveitarfélögum utan kaupstaða. Gjöld vegna ellitrygginganna eru þau einu lögboðnu gjöld af öllum gjöldum í sambandi við þessar tryggingar, sem sveitarfélög verða að bera. Annars er það svo með þessar tryggingar, aðrar en ellitrygginguna, eins og allir hv. þm. vita, að um það er alls ekki að ræða, að þær séu skyldutryggingar. Atvinnuleysistryggingin, sem af hv. sjálfstæðismönnum hefir verið gerð hér helzt að umræðuefni og þeir hafa mest deilt á stjórnarflokkana fyrir, á ekki að vera skyldutrygging. Það er á valdi verkamanna sjálfra, hvort fólkið vill leggja á sig þau gjöld, sem þeim eru samfara. Sjúkratryggingin er ekki heldur skyldutrygging, nema að nokkru leyti. Í grg. frv. er frá því skýrt, að um 70 þús. manna séu tryggingarskyldir í landinu, miðað við mannfjölda 1930, þ. e. a. s. um ellitryggingu. Af þessu fólki eru 30 þús. búsettir í kaupstöðum, en 40 þús. utan þeirra. Þá eru það þessar 40 þús., sem ekki eru skyldaðar til að taka þátt í sjúkratryggingu. Mér þykir rétt að vekja athygli á þessu, af því að mér þykir allmikið kenna þess í málflutningi hv. andstæðinga þessa máls, að þeir tali um málið eins og hér væri um að ræða að lögbjóða allar þessar tryggingar sem skyldutryggingar fyrir allan landslýð. En almenningi er í sjálfsvald sett, hvort hann vill hafa þessar tryggingar, aðrar en þær, sem ég hefi tekið fram, að eru skyldutryggingar, að svo miklu leyti sem þær eru það, og hvort hann vill leggja á sig þau gjöld, sem þær hafa í för með sér.

Annars er það dálítið einkennileg röksemdafærsla, sem kemur fram hjá hv. sjálfstæðismönnum í þessu máli á ýmsum stigum við þessa umr. Þegar umr. byrjaði, lögðu þeir á það megináherzlu, að þetta væri eitthvert höfuðmál sósíalista, tryggingarnar. Svo hafa þeir verið smám saman að draga úr þessu og halda því fram að lokum, að þetta mál sé flutt tiltölulega lítið fyrir sósíalista. Þessi breyting á röksemdafærslu þessara hv. þm. gengur svo langt, að hv. 8. landsk. færir fyrir því sterk rök (að því er honum finnst), að sósíalistar kæri sig ekki um sjúkratryggingar, slysatryggingar og ellitryggingar, heldur sé það þá bara atvinnuleysistryggingarnar, sem sé áhugamál þeirra. En hv. 6. landsk. sagði, að sósíalistar teldu atvinnuleysistryggingarnar þýðingarminnstar af þeim einstöku tryggingaflokkum, sem frv. er um, þannig að það fer nú að koma nokkurnveginn hringferð í þessari röksemdafærslu sjálfstæðismanna, þar sem byrjað er á að halda því fram, að við framsóknarmenn séum í þjónustu sósíalista til þess að samþ. með þeim þetta frv., sem sé höfuðstefnumál þeirra, en svo hinsvegar síðar sagt, að það sé ekki gert fyrir sósíalista að samþ. þetta mál.

Það er og fleira einkennilegt við röksemdafærslu þessara hv. þm., eins og t. d. þegar hv. þm. Snæf. og raunar fleiri eru að ræða um það og blása það mjög upp á allan hátt, að atvinnuleysistryggingarnar muni verða til þess, að fólk flytji úr sveitum til kaupstaða, meira en ella mundi verða, til þess að fá að njóta þeirra hlunninda, sem þessar atvinnuleysistryggingar veita, nefnilega 2/3 til 3/5 af verkamannalaunum eftir að vera búinn að vera atvinnulaus nokkurn tíma. Ég hefi ekki trú á, að fólki muni finnast þetta svo ákaflega ginnandi að komast að þessum hlunnindum. Enn halda sjálfstæðismenn því fram, að það hafi í för með sér óbærileg gjöld fyrir verkamenn að vera í þessari atvinnuleysistryggingu. Í þessu virðist mér ósamræmi. Annarsvegar halda þessir hv. þm. því fram, að þetta sé ginnandi fyrir fólk, svo að það þess vegna mundi flytja til bæjanna, en hinsvegar segja þeir, að óbærileg gjöld fylgi þessum hlunnindum. M. ö. o., það á að vera ginnandi fyrir menn að komast til bæjanna úr sveitunum, til þess að fá að bera þessar byrðar, sem þeir gætu komizt hjá að þurfa að bera með því að vera kyrrir í sveitinni. Þeir ættu a. m. k. að halda ekki fleiri en einskonar röksemdum fram við hverja umr., en ekki við sömu umr. að koma með rök, sem verka hvor gegn öðrum. (GSv: Þetta er nú bara til að ginna allt saman).

Það gladdi mig að heyra, að hv. þm. Snæf. hefir á milli umr. farið að kynna sér eitthvað tryggingamál í öðrum löndum. Og eitt af því, sem hann hafði upp úr þessari leit sinni, var það, að hann komst að því, að íhaldsmenn í Danmörku hefðu flutt tryggingafrv., sem hefði gengið lengra að ýmsu leyti í því að vera róttækt heldur en þetta frv., og sérstaklega í því að greiða fyrir almenningi. Þetta er einmitt það, sem ég sagði þessum hv. þm. við umr. hér. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er mjög hliðstætt því, sem tíðkazt í öðrum löndum og hefir verið lögfest þar fyrir alllöngu. Sú löggjöf hefir ekki verið sett af sósíalistum einum, heldur einnig af öðrum flokkum ásamt þeim. Þegar tekið er tillit til þess, hvað gert er í þessum efnum í öðrum löndum, þá er mjög svo eðlilegt, að við fylgjum þessum tryggingamálum fram eins og við gerum, samkv. okkar stefnuskrá.