21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (2651)

40. mál, iðnaðarnám

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg) [óyfirl.]:

Hv. frsm. meiri hl. skýrir frá því, að till. hafi ekki verið samþ. einróma á iðnaðarþinginu. Það er nú sjaldgæft, að mál séu þannig, að allir séu sammála um þau, og það stendur þó eftir sem áður óhaggað, að meiri hl. iðnaðarþingsins fellst á, að rétt væri að gera þessar breyt.

Ég vil líka benda á, hversu óeðlilegt það er, þar sem menn, sem eru ekki yngri en 16 ára, eru að vinna með sveinum og meisturum, sem vinna í 10 tíma á dag, rann tíma, sem nemandinn gegnir ekki námi, að nemendurnir fari úr vinnu tveimur tímum á undan hinum. Það er óvíst, að þeim sé nokkuð betra að flækjast í þessa tvo tíma á götunni heldur en að vinna að sínu námi. Þetta mundi líka valda óánægju og glundroða hjá þeim, sem með þeim ynnu, ef þessir menn væru látnir hætta vinnu á undan þeim, og einnig alveg óvíst, að nemendum væri á nokkurn hátt greiði gerður með þessu. Annað mál er með námssveina; ef vinnutíminn er ekki nema 8 stundir á dag, þá er sjálfsagt að þeir vinni ekki lengur en hinir, en til þess þarf ekkert sérstakt ákvæði, því í brtt. er svo ráð fyrir gert, að vinnuvikan sé allt að 60 stundir, en ekki fastákveðið, að hún verði að vera svo löng.