07.12.1935
Sameinað þing: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

1. mál, fjárlög 1936

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að flytja brtt: XV. á þskj. 727, er fer fram á hækkaðan styrk til sundlaugar á Akureyri. Hv. fjvn. leggur til, að veittar verði 5000 kr., en ég legg til, að sá styrkur verði hækkaður upp í 10000 kr. Þannig stendur á, að á Akureyri hefir verið byggð sundlaug, sem kostað hefir frá 80–90 þús. kr., nákvæmlega talið um 86 þús. kr., án þess að nokkuð hafi verið lagt fram úr ríkissjóði til byggingarinnar móti því, sem fram hefir verið lagt heima fyrir. Nú hefir það verið föst venja, að ríkið legði fram ákveðinn hluta af byggingarkostnaði sundlauga. Hefir hv. fjvn. lagt til, að þessi sundlaug yrði styrkt að þessu sinni með 5000 kr., en það mundi taka 8 ár með svo lágum árlegum styrk, að ríkissjóður greiddi þann hluta kostnaðarins, sem venja hefir verið. Mér finnst því þessar 5000 kr. óforsvaranlega lág upphæð eins og sakir standa. Nú stendur auk þess svo á, að nauðsynlegt er að verja allmiklu fé til viðbótar í laugina, þar sem hún er ekki fullbúin enn, og verður ekki komizt af með minna en 10000 kr. á þessu ári. Nú eru þegar komin í bygginguna öll þau framlög, sem vænta má í héraðinu; hefir bærinn lagt allmikið fram, en þó einstaklingar og félög meira. Hefir þessa fjár verið aflað með samskotum, skemmtunum o. fl. þ. h. Hafa nú þessi félög ekki úr meiru að spila, og virðist þá sanngjarnt, að ríkið taki við og inni af höndum sinn hluta byggingarinnar og geri það í ríflegra mæli en hv. fjvn. leggur til.

Þá á ég brtt. ll. á sama þskj. Hún er um það, að felldur verði niður styrkur til Halldórs Kiljan Laxness, eða til vara, að hann verði lækkaður í 1200 kr. úr 3000. Um höfund þennan eru nú mjög skiptar skoðanir. Ég minnist þess, að hið fyrsta, sem ég las eftir hann, var grein eða smásaga í dönsku blaði. Gerði ég mér þá von um, að eitthvað kynni að rætast úr þessum unga manni. Nokkru síðar las ég fyrstu bókina, sem kom út eftir hann, sem hét Undir Helgahnúk. Þótt hún væri nokkuð losaraleg og mikið skrifuð milli þankastrika, þá virtist mér enn nokkurs mega af honum vænta. En svo virtist, sem straumhvörf yrðu í stefnu hans og lífsskoðun; hann heldur áfram að skrifa, en mér finnst ritmennska hans sveigjast inn á verri brautir. Þó því verði ekki neitað, að gullkorn fundust í ritum hans, þá varð þar allt of mikið af sora. sem á tímabili virtist mjög fara vaxandi, og er langt frá, að tekið sé fyrir slíkt enn. Ég ætla ekki að fara að lesa upp kafla úr ritum hans, enda mundi slíkt ekki eiga við á Alþingi, blátt áfram af því, að það gæti ekki talizt þinghæft. En svo vil ég benda á hið síðasta afrek hans. Hann fær leyfi til þess l. des. að tala hér af svolum alþingishússins og gerir það á þann veg, að með endemum má teljast. Allt þetta virðist benda til þess, að höfundur þessi hafi ekki haft gott af öllu því lofi, sem á hann hefir verið hlaðið. Er um tvennt að ræða; annaðhvort valda hans meðfæddir skapbrestir, eða þá að honum hefir beinlínis verið spillt með því, hvernig honum hefir verið hóflaust hossað í ræðu og riti. Ég held því, að það væri vel viðeigandi, þó ekki væri nema sem svar við ræðu hans 1. des. og öðrum skrifum hans, að fella alveg niður ritstyrkinn og freista með því að vita, hvort hann getur ekki tekið sig saman og hætt að velta sér í saurnum, eins og hann hefir gert hingað til. Oflof getur sumum mönnum verið óhollt, og get ég því búizt við, ef honum er sýnt maklegt svar í því að fella niður styrkinn, þó ekki sé nema í bili, að það geti orðið goð bending fyrir hann, sem jafnvel þjóðinni líka gæti orðið til bóta. Ég hefi nú samt gert ráð fyrir því, að stöku mönnum kynni að þykja of langt gengið með því að fella styrkinn alveg niður, og hefi því til vara flutt þá brtt., að hann verði færður niður í 1200 kr. Má það verða þeim huggun, sem mest vilja hossa þessum höfundi.

Ég á svo ekki fleiri brtt. að þessu sinni, en ég tók eftir því, að í fjárlfrv. er eitt atriði, sem þarf að leiðrétta, og vildi ég leyfa mér að benda hv. frsm. þess kafla fjárl. á þessa villu. Hún er í 16. gr. 13. tölul., undir c-lið, þar sem talað er um styrk til Guðmundar Andréssonar til þess að leggja stund á dýralækningar fyrir Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu. Ég get upplýst það, að Guðmundur Andrésson fór fram á það við sýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu að fá hjá sýslunni styrk til þessarar starfsemi, en það var fellt í sýslunefndinni. Það kemur því alls ekki til greina að samþ. þetta þannig orðað. (PO: Það liggur fyrir brtt. um þetta frá fjvn.). Fyrst svo er, þá hefi ég ekkert um þetta að segja.