29.11.1935
Efri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki verða langorður, enda er hv. 1. þm. Reykv. farinn að koma alllítið inn á málið. (MJ: Ég elti hæstv. ráðh.). Það er ég, sem elti hv. 1. þm. Reykv. og svara því, sem hann er að deila á mig fyrir. Hann er nú farinn að linast allmikið með að halda því fram, að ég hafi sagt, að greiðslujöfnuður yrði kominn á í árslok 1935. Hann sagði nú, að orð mín hefðu verið þau, að ég byggist við, að greiðslujöfnuður yrði kominn á, — og þetta kalla ég mikla endurbót, því það er töluvert annað, hverju er lofað eða hverju er búizt við.

Þá var hv. þm. að tala um, að sig minnti, að ég hefði sagt í fyrra, að innflutningurinn þyrfti að komast niður í 32 millj. Það getur verið, að ég hafi sagt, að þetta kynni að koma fyrir einhverntíma í framtíðinni. En að það hafi legið fyrir að koma því á á þessu ári, er alveg misskilningur, sem betur fer. Enda yrði, ef svo mikið ætti að takmarka innflutninginn, að fylgja því gerbreyting á lifnaðarháttum þjóðarinnar, eftir því hve mikið er nú notað af erlendum vörum. En það hefir ekki legið fyrir, að þess þyrfti.

Það var í raun og veru aðeins eitt atriði, sem ég þurfti að svara, og það var um hina væntanlegu hlutdrægni, sem ég mundi beita í úthlutun innflutningsleyfa. Hann byggði þetta á því, sem ég sagði í ræðu minni hér í dag, að Framsfl. vildi hlynna að samvinnu í verzlun. Af þessu dregur hann svo þá ályktun, að ég muni vilja nota aðstöðu mína á óheiðarlegan hátt til framdráttar fyrir samvinnufélögin. Ég veit ekki, á hverju hann getur byggt þetta, nema ef það væri á því, að hann myndi sjálfur, ef hann fengi slíka aðstöðu, nota hana á óheiðarlegan hátt til framdráttar fyrir kaupmennina á kostnað samvinnufélaganna.

Þá skildist mér á hv. þm., að hann teldi ekki trútt um, að komið hefði fram hlutdrægni, sem átti að vera fólgin í því, að samvinnufélögunum hefði verið veitt ríflegri innflutningsleyfi en öðrum að tiltölu við innflutning fyrri ára. Þessu hefir einnig verið haldið fram í blöðum Sjálfstfl. Ég man ekki eftir neinu í málflutningi sjálfstæðismanna, sem hneykslaði menn eins gífurlega úti í byggðum landsins eins og þetta. Þegar menn koma í búðirnar og sjá þær hálftómar og ekkert í þeim annað en brýnustu nauðsynjar, þykir þeim nokkuð einkennilegt að sjá því haldið fram, að stj.flokkarnir beiti hlutdrægni við innflutninginn, kaupfélögunum og sveitunum í vil. Sjálfstæðismenn ættu að láta af slíkum málflutningi, því fjöldi þeirra eigin flokksmanna blygðast sín fyrir þá, enda margir félagar í kaupfélögum, og vita manna bezt, hve rúmt er um innflutninginn.

Þetta er líka greinilega hægt að sjá, ef borinn er saman innflutningur til kaupfélaga og kaupmannaverzlana. Þá sest, að kaupmennirnir flytja inn miklu meiru af þeim vörum, sem höftin ættu fyrst og fremst að ná til. Ég vil því algerlega vísa þessu til föðurhúsanna, og ætti hv. þm. að spyrja flokksmenn sína, sem eru í kaupfélögum, hvort þau muni hafa hlutfallslega hærri innflutning en aðrir. (MJ: Hlutfallslega við hvað?). Hlutfallslega við verzlunarmagn og þau viðskipti, sem félögin hafa haft á undanförnum árum.