13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (2832)

192. mál, bráðabirgðatekjuöflun til ríkissjóðs

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Fjhn. hefir ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu þessa frv., eins og nál. ber með sér. Hv. frsm. meiri hl., 1. landsk., hefir gert grein fyrir afstöðu meiri hl. n., en ég mun nú með nokkrum orðum lýsa afstöðu minni og hv. 8. landsk., sem erum minni hl. fjhn. Eins og upplýst hefir verið, felur þetta frv. í sér nýjan skatt, sem á að leggja á þjóðina og áætlað er, að nemi samtals 1200000 kr. Þar af er nýr tekju- og eignarskattur, sem nemur væntanlega um 400000 kr., svokallaður hátekjuskattur, og á helmingur hans að renna til sveitar- og bæjarfélaga, en helmingur í ríkissjóð. Auk þess felur frv. í sér 800000 kr. skatt, sem á að taka með verðtolli. Frv. þetta fékk enga athugun í n., og þess vegna er ekki hægt að fullyrða, að hve miklu leyti tekjuáætlun sú, sem hæstv. fjmrh. lætur fylgja frv., er rétt eða ekki rétt, en minni hl. fjhn. hefir látið það í ljós í sínu nál; að hann telji vafasamt, að áætlunin sé rétt, ég játa, að mig brestur að vísu heimildir til að slá nokkru föstu um þetta, en ég vil leyfa mér að viðhafa þau ummæli, að áætlun hæstv. fjmrh. sé vafasöm. Í skýrslu, sem annar hæstv. ráðh., atvmrh., hefir birt í blaði sínu, Alþýðublaðinu, segir fyrir stuttu, að útflutning megi áætla á næsta ári fyrir 38 millj. kr. Muni 17 millj. af þeirri upphæð verða undanskildar tolli þessum, en tollurinn muni lenda á vörur, sem keyptar verði fyrir 21 millj. kr. Af þessari 21 millj. kr. muni 14 millj. kr. lenda undir 1. flokk tollsins, eða 2% gjaldið. Tekjur af þessum 14 millj. kr. yrðu því 280000 kr. Af þeim 7 millj. kr., sem þá eru eftir, segir hæstv. atvmrh., að 3,6 millj. komi undir 5% gjaldið, og gefur sá flokkur þá af sér 180000 kr. þessir tveir flokkar með 2% og 5% gefa þá af sér 280 + 180 þús. kr. = 460000 kr. Eru þá eftir af þessum 21 millj. kr., sem hæstv. ráðh. talar um, 3,4 millj. kr., og ef gert er ráð fyrir, að sú upphæð öll komi undir 10% flokkinn, gefur sú upphæð af sér 340000 kr. til viðbótar við það, sem áður er talið, og yrði þá tollurinn samtals 800000 kr. En það liggur í hlutarins eðli, að ekki getur öll hin síðasttalda upphæð, 3,4 millj. kr.. fallið undir 10% gjaldið, því með því væri gert ráð fyrir, að af vörum í 4. flokki, sem á að stimplast með 25% tolli, yrði ekkert flutt inn, og í þessum flokki eru ýmsar mjög nauðsynlegar vörutegundir, svo sem ávextir og grænmeti allskonar, leður o. m. fl., sem þjóðin þarf á að halda. Af þessu er augljóst, ef treysta má skýrslu hæstv. atvmrh., að þá er skýrsla hæstv. fjmrh. röng, þ. e. a. s. áætlun hans er of lág.

Það verður út af fyrir sig að vita það, að fjhn., hvorki Ed.Nd., skuli ekki fá aðstöðu til þess að skoða þau gögn, sem stj. hefir byggt tekjuáætlunina á samkv. þessu frv. Þótt hæstv. fjmrh. telji, að þessi skattur eigi ekki að nema meiru en 1,2 millj. kr., þá finnst mér vel geti komið til mála, að það sé miklu hærri skattur, sem hér eigi að leggja á þjóðina. — Það hefir að vonum allmikið verið rætt um þetta skattfrv. í báðum d. og á eldhúsdegi, því sannast sagna, þá er ekki nema eðlilegt, að mál eins og þetta valdi allmiklum deilum. Á síðasta þingi voru lagðir nýir skattar á þjóðina, sem námu nokkuð á 3. millj. kr., og ef nú á að bæta við sköttum á 2. millj. kr., þá verða þessir nýju skattar svo þungbærir, að það er ekki nema eðlilegt, að það risi eindregin mótmæli gegn slíkri álagningu. Þessir nýju skattar frá í fyrra og í ár nema a. m. k. 160 kr. á hvert 5 manna heimili í landinu, ofan á þá skatta, sem fyrir eru, og með hliðsjón af allri afkomu almennings, þá verða það að teljast ákaflega þungbærar klyfjar. — Það er látið í veðri vaka, að nokkur hluti þessa skatts eigi að takast eingöngu af þeim, sem hafa há laun. Og þetta styrkst að því leyti við nokkur rök, að tekju- og eignarskatturinn lendir allþunglega á mönnum, sem hafa frá 6 upp í 10 þús. kr. skattskyldar tekjur. Það má náttúrlega mikið um það deila, hvort það séu há laun, miðað við það, hvað það kostar að lifa, t. d. hér í Reykjavík. En hvað sem um það verður sagt, þá er hitt víst, að þessi skattur lendir fyrr en síðar á öllum almenningi í landinu, af ástæðum, sem öllum eru kunnar, þ. e. a. s. af þeim ástæðum, að því lengra, sem gengið er í því að beita beinu sköttunum ríkissjóði til framdráttar, því erfiðari aðgöngu eiga bæjar- og sveitarfélög að skattþegnum til útsvarsálagningar. Að þetta sé svo, má m. a. rökstyðja með þeirri staðreynd, að sósíalistar hafa í þessari d. á mjög áberandi hátt viðurkennt þetta með því að bera fram frv. um nýja tekjuöflunarleið fyrir bæjar- og sveitarfélög með þeim rökum, að búið sé þegar að ganga svo langt í beitingu tekjuskatta, að útsvörin séu þegar hrunin sem gjaldstofn fyrir bæjar- og sveitarfélög, og að ekki verði hjá því komizt að afla nýrra tekna með nýjum leiðum. Það er vitanlega ekki annað en hrein blekking við almenning í landinu að halda því fram, að þessi skattur komi ekki öðrum við en hátekjumönnum, þar sem skatturinn færist strax yfir á almenning eftir að hátekjumennirnir eru brostnir sem tekjustofn, vegna þess, að ríkissjóður hefir beitt beinu sköttunum svo óþyrmilega þegn þeim. En annars er það eftirtektarvert, eins og það er líka mikið áhyggjuefni, að við Íslendingar erum þegar farnir að beita, og höfum raunar gert um nokkurt skeið, hinum beinu sköttum hærra heldur en nokkur önnur þjóð í heimi. Og þetta er vitanlega þeim mun varhugaverðara sem við Íslendingar erum fátækari heldur en flestar aðrar þjóðir. En hitt er viðurkennd staðreynd, að óeðlileg beiting hárra skatta hlýtur beinlínis og óbeinlínis að draga úr framtakinu í landinu og allri viðleitni til fjáröflunar. Og af þessu leiðir svo vitanlega líka aukið atvinnuleysi og örbirgð meðal þjóðarinnar. Sannast sagna hefir þetta gengið svo langt, að hver hugsandi maður veit þetta. Þess vegna er þessi nýja skattaöflun gerð gegn betri vitund hvað þetta snertir. Hæstv. fjmrh. skilur það vel, að það er hægt að beita svona skattaaðferð í eitt ár, en þegar búið er að beita henni í eitt ár, þá stórrýrnar tekjuskatturinn sem tekjustofn fyrir ríkissjóð, þó ekki væri fyrir annað en skattafrádráttarheimild skattlaganna. Það er náttúrlega líka ákaflega varhugavert að gera leik að því ár eftir ár, eins og gert var í fyrra og gera á nú, að koma til skattþegnanna eftir að þeir eru búnir að ráðstafa árstekjum sínum og gera til þeirra allt aðrar og miklu hærri kröfur um skattgjald til ríkisins af þessum tekjum heldur en þeir gerðu ráð fyrir meðan þeir voru að eyða tekjunum. Slík innheimtuaðferð — hvað sem öðru líður — er vítaverð. Og ég hefði gaman að því, að hv. frsm. n. eða hæstv. fjmrh. vildi upplýsa okkur um það, hvar þeir ætli að taka tekjurnar til þess að standast kostnaðinn af þeim framkvæmdum, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., þegar það eftir eins árs gildi slíkra fyrirmæla kemur í ljós, að tekju- og eignarskatturinn skilar ekki lengur því, sem ætlazt er til, að hann skili á fyrsta ári. Ég vænti, að hæstv. fjmrh. muni játa það með mér, eins og hver annar þm. mundi neyðast til að gera, að það er ekki minnsta von til þess, að tekju- og eignaskatturinn skili svipað því eins hárri upphæð á öðru ári eins og á fyrsta ári. En hvaðan ætlar þá stjórnarliðið að taka tekjurnar á eftir? — Hv. frsm. meiri hl. lýsti þeirri skoðun sinni, að hann og hans flokkur vildi helzt taka allar tekjur ríkissjóði til handa með því fyrst og fremst að beita beinu sköttunum og svo í öðru lagi með lúxussköttum á vörur, en þeir hafi ekki séð sér fært að ganga lengra heldur en gert er í frv. með beitingu beinna skatta, og þess vegna hafi þeir neyðzt til þess að brjóta sína stefnuskrá og leggja nýjan verðtoll á nauðsynjar almennings. Það er eftirtektarvert, að þessi hv. þm. skuli gefa alveg beina játningu fyrir því, að nú sé búið að beita beinu sköttunum svo hátt, að lengra megi ekki fara. En þó dregur það nokkuð úr gildi þessarar yfirlýsingar, að slíkar yfirlýsingar hafa fallið frá báðum stjórnarflokkunum að undanförnu, að nú sé það í síðasta skipti, sem eigi að hækka skattana, því það verði að játast, að ekki sé hægt að beita þeim meir, en svo er bara alltaf komið aftur og heimtaðir nýir skattar. En annars er það í sjálfu sér mjög undarlegt, að jafnaðarmannaflokkurinn skuli sjá sér fært að lýsa því yfir, að hann telji, að hér á Íslandi, eins og háttað er okkar atvinnulífi, eigi allar ríkistekjur að takast með beinum sköttum eða með sköttum á lúxusvarningi. Það er nefnilega alveg víst, að í landi, þar sem atvinnuárferði er eins og hér á Íslandi — þ. e. a. s. að það er eins víst eins og nótt fylgir degi, að hallæri fylgir góðæri —, er það varhugavert að ætla sér að byggja tekjur ríkissjóðs fyrst og fremst á tekju- og eignarskattinum og lúxusskatti, vegna þess að um leið og misæri skellur á, hrynja báðar þessar stoðir að mestu leyti undan tekjum ríkissjóðs. Tekju- og eignarskatturinn hlýtur alltaf að vera mjög rýr árið eftir lélegt árferði, og sama er að segja um lúxusskattinn, því þegar almenningur hefir lítið fé handa milli, neitar hann sér um allar lúxusvörur. Af þessu leiðir svo það, að hér á landi verður ekki komizt hjá því að hafa allþunga skatta á nauðsynjum almennings. Ég viðurkenni, að svo er. Og einmitt af því að sósíalistar vita þetta, þá er undarlegt, að þeir skuli vera að flagga með hinu, sem eru bara staðlausir stafir. En það er hinu vitanlega óskylt, að það má ganga svo langt í að leggja á nauðsynjar almennings, að ekki sé fært að ganga lengra.

Hv. frsm. sagði svona til afsökunar á því, að sósíalistar hefðu svikið stefnu sína, að þetta hefðu sósíalistar gert í Danmörku og Noregi. Og mér skildist á hv. þm., að af þessu leiddi eiginlega það, að sósíalistaflokkurinn hér teldi sér ekki fært að vera eftirbátar frændanna í nágrannalöndunum, og þess vegna yrði hann líka að svíkja. En sósíalistar hér hefðu nú náttúrlega getað lifað á gömlum svikum, þótt þeir færu ekki að svíkja sína 4 ára áætlun.

Það var eftirtektarvert, að mestur hlutinn af því, sem hv. frsm. fræddi okkur um skattastefnu nágrannaþjóðanna, var á mjög misjöfnum rökum byggt. Og ég hefði gaman af því, ef hv. þm. vildi fræða okkur á því, þegar hann talar næst, hvað langt sósíalistar í Svíþjóð, Noregi og Danmörku hafi gengið í því að afla tekna með tekju- og eignarskatti. Úr því að hann vill taka þessar þjóðir sér til fyrimyndar, þá er fróðlegt að fá upplýsingar um það, hvaða ákvæði gildi í þessum löndum um tekju- og eignarskatt. En ég vænti, að menn hafi það hugfast, að það er óhætt að beita tekju- og eignarskattinum djarflegar þar, vegna þess hvað þær þjóðir eru betur stæðar efnalega heldur en við. Mig minnir, þó að ég þori ekki að fara með það fyrir víst, að samkv. opinberum skýrslum, þá sé meðaleign á hvert mannsbarn í Danmörku 4—5 sinnum meiri heldur en hér, en af því leiðir, að minni áhætta er að beita beinu sköttunum þar heldur en hér. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að eins og nú horfir með atvinnumöguleika fyrir allan almenning í landinu, þá sé það mikið harðræði að leggja nú 1,5 millj. kr. nýja skatta á þjóðina. Þessi nýja skattálagning er í sjálfu sér ekkert annað en gengislækkun, þ. e. a. s. rýrnun á verðgildi peninganna fyrir almenning. Og þegar það er gert ríkissjóði til framdráttar og eingöngu í því skyni, þá hygg ég, að skakkt sé stefnt. Sú eina krónulækkun, sem hægt er að mæla bót, er sú, sem kæmi atvinnulífinu beint til framdráttar, m. a. af þeim ástæðum, að sú krónulækkun mundi þá samtímis skila almenningi í öðru formi fullkominni uppbót fyrir þá rýrnun á kaupgjaldi almennings, sem af þessu leiddi, þ. e. a. s. með aukinni atvinnu.

Því var haldið fram af hv. frsm. meiri hl., og hefir áður verið haldið fram af hæstv. fjmrh. hvað eftir annað, að þessi skattur lenti ekkert á framleiðslunni. Það er náttúrlega ekkert annað en barnaskapur að halda, að hægt sé að leggja skatt á þjóðina án þess að það komi nærri framleiðslunni. Allir skattar hljóta að takast af framleiðslunni. Þessi milljón eða hvað það nú er, sem á að ná með hinum nýja verðtolli og mest hefir verið rætt um af hv. frsm. og hæstv. fjmrh., er lögð á margvíslegar notaþarfir framleiðslunnar. Þeir láta eins og þeir viti það ekki að framleiðendur hafa oft ákaflega marga menn á framfæri sínu í þágu sinnar framleiðslu, baði til sjávar og sveita. Öll stærri útgerð a. m. k. geldur verkalýðnum nokkurn hluta vinnulaunanna í fæði, og þessi verðhækkun lendir að nokkru leyti á því fæði og er þess vegna beina skattur á framleiðslunni.

Það er ákaflega eftirtektarvert og ber í rauninni vott um vonda samvizku hjá stjórnarflokkunum, hvernig þeir tala um þessi mál. Þeir reyna að færa fram einhver rök til afsökunar þessum þungu sköttum, og sterkasta haldreipið á að vera það, að með þessum sköttum eigi að leysa brýnustu nauðsynjar almennings, og er þá mest hampað nýbýlunum og tryggingarmálunum. En ég er alveg sannfærður um það, að allur almenningur í landinu, sem á að borga þessa skatta, vildi heldur fresta framkvæmd þeirra mála heldur en að taka á móti þessum nýju sköttum. Ég er ekki í neinum vafa um það, að bændur landsins munu heldur kjósa, að nýbýlunum sé slegið á frest heldur en að þurfa að taka á móti hækkun á sínum lífsnauðsynjum, enda er það sannast sagna a. m. k. hæpinn vinningur fyrir allan þorra bænda, þó hér sé komið á fót nokkrum nýbýlum með framlagi úr ríkissjóði. Og ég er alveg jafnviss um hitt, að verkalýðurinn í landinu vill ekki kaupa atvinnutryggingarnar með nýjum sköttum. Sósíalistaforingjarnir munu vita það af þeirri reynslu, sem þeir nú eru búnir að fá, að fólkið er ekkert sérstaklega ginnkeypt fyrir þeim tryggingum, sem það ýmist borgar beinlínis sjálft úr sínum vasa, eða að svo miklu leyti sem ríkissjóður greiðir þær, þá er það gert á þann hatt, að ríkissjóður tekur samtímis þá peninga,aftur með tollum á nauðsynjum almennings. ég er alveg sannfærður um það, að þessar tryggingar kærir fólkið sig nauðalítið um, og ég veit það fyrir vist, að forystumenn sósíalistanna hér í bæ hafa rekið sig á, að það er lítil hrifning meðal verkalýðsins út af tryggingunum eins og þær nú liggja fyrir.

En annars kemur fram í þessu máli mjög áberandi stefnumunur milli Sjálfstfl. og stjórnarflokkanna. Stjórnarflokkarnir telja sig neydda til þess að gera margvíslegar ráðstafanir til að mæta því atvinnuleysi, sem þeir nú eru að verða varir við að fer í vöxt í þjóðfélaginu, og til þess að koma þeim í framkvæmd telja þeir sig neydda til að leggja nýja skatta á þjóðina. við sjálfstæðismenn litum hinsvegar svo á, að vaxandi atvinnuleysi sé a. m. k. að einhverju leyti ávöxtur af því, hvernig hið opinbera hefir búið að einkaframtakinu í landinu á undanförnum árum, og þá fyrst og fremst af skattþunganum. Og við ályktum því þar af leiðandi, að auknir skattar muni ekki draga úr atvinnuleysinu og ekki vera rétta ráðið til þess að mæta þessu vaxandi böli, heldur þvert á móti muni það verða til þess að auka bölið, en rétta ráðið sé að reyna að gefa einkaframtakinu nauðsynlega örvum til aukinnar starfrækslu með því að létta sköttunum, en ekki með því að leggja nýja skatta á þjóðina. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að þessi stefna okkar sjálfstæðismanna á rætur í sjálfum staðreyndunum og lífsins lögmáli, og því fyrr sem sú skoðun nær fram að ganga, því fyrr mun af létt atvinnuleysinu, en því lengur sem það dregst, að hún fái að njóta sín, því meir mun aukast atvinnuleysið hér á landi.

Ég vona, að hæstv. fjmrh. geri okkur grein fyrir því, þegar hann svarar mér, sem ég sé, að hann ætlar að gera, hvar hann hyggst að taka tekjur til þess að koma í staðinn fyrir tekju- og eignarskattinn, þegar hann á öðru ári hrynur, ef það þá ekki er meiningin, að nýbýlastarfsemin og tryggingarstarfsemin eigi að vera til bráðabirgða eins og skattaöflunin, samkv. fyrirsögn frv., sem reyndar er ákaflega undarleg. Og út af því, sem hv. frsm. n. sagði, að hann vænti þess, að hægt væri að aflétta tollinum eftir að næsta ár væri liðið, þá vil ég leiða athygli að því, að eftir því, sem horfur eru nú um sölu á íslenzkum afurðum, þá benda engar líkur til þess, að þessi skattur, ef hann einusinni er kominn á, verði afnuminn, nema því aðeins, að niður verði felld sú starfsemi, sem honum er ætlað að standa undir. Og það er vítavert ofan á þessa skattálögu að vera sí og æ að reyna blekkja þjóðina um það, hvað valdhafarnir hafa í hyggju í þessu efni gagnvart almenningi í framtíðinni. Það er skakkt að telja almenningi trú um það, að eftir eitt ár skuli hann njóta þeirra framfara, sem tekjustofninum er ætlað að standa undir, en hins vegar ekki þurfa að greiða skattinn nema þetta eina ár. Þetta er skakkt, segi ég, af því að hver einasti hugsandi maður, sem eitthvað veit um það, hvernig horfurnar eru fyrir okkar þjóðlífi, veit líka, að þetta er ómögulegt.

Ég skal svo ekki að þessu sinni nota fleiri orð til að andmæla þessu frv. Ég segi eins og ég meina það, að ég er sannfærður um, að þeir, sem hafa borið þetta fram, vita vel, að það er ekkert vit í því, sem þeir eru að gera. Þetta er lausnargjald, sem stjórnarflokkarnir hafa greitt gegn betri vitund, til þess að fá að hafa áfram við völd. Þetta vita allir og að þeim er ljóst, að þjóðin rís ekki undir því nema nokkra mánuði. Stjórnarflokkarnir segja: Það, sem við lofuðum í fjögra ára áætlun sósíalista og í samstarfssamkomulagi flokkanna, var gott frá okkar sjónarmiði og við höfum kosið að efna þau loforð, en aðstaðan leyfir það ekki. Því miður veit stj. þetta, og fjmrh. er það glöggur maður, án þess að ég ætli að fara að bera á hann lof, að hann skilur, að tekju- og eignarskatturinn getur ekki komið að notum fyrir ríkissjóð lengur en eitt ár, og hann veit, að almenningur rís ekki undir þessum tollum; hann veit það, að þetta leiðir af sér atvinnuleysi og örbirgð fyrir almenning í landinu. Það er þess vegna ekki ofmælt, að þessi ungi ráðh. sé sá dýrasti ráðh., sem setið hefir í þeim stól, og hlutfallslega sá dýrasti fjmrh., sem nokkur þjóð hefir átt því óláni að mæta að eignast. — Það, sem mér þykir verst, er það, að stjórnarflokkarnir, og sízt fjmrh., vita, hvað þeir eru að gera. Ég myndi heldur sætta mig við þetta frv. og álögur, ef ég héldi, að stj. vissi ekkert, hvað hún væri að gera. Í því tilfelli er þó alltaf von til, að hægt sé að koma viti fyrir menn. En ef menn skilja, hvað þeir eru að gera, og vilja ekki taka neinum afleiðingum af því, sem þeir eru að fara út í, þá er alveg vonlaust að glíma við þá, og þá verður þjóðin að taka þeirri óhamingju, sem leiðir af því, að þeim hefir verið tyllt upp í valdastólinn. (Fjmrh.: Ég hugsa, að hv. þm. hafi ekki stuðlað að því). Nei, ég hefi ekki stuðlað að því, og mun ekki gera það. En út í þetta hefir þjóðin nú samt gengið og verður öll í heild að taka afleiðingunum, líka þeir, sem ekki hafa stuðlað að því. Og ég verð að segja eins og er, að ég myndi gleðjast, ef ég gæti losað almenning, jafnt andstæðinga stj. sem stuðningsmenn, og jafnvel hann sjálfan, við þær afleiðingar, sem leiðir af stj. þessa hv. ráðherra.