20.12.1935
Efri deild: 100. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (2955)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hv. 4. þm. Reykv. verður að afsaka, þótt ég vilji ekki fara eftir vottorði frá honum um það, hvenær ég held sömu ræðuna, sem ég hefi flutt einhverntíma áður en ekki. Fyrst ég tók þátt í umr. um þetta mál ber í fyrra skiptið, og það hefir tekið dálitlum breytingum síðan, þá finnst mér eðlilegt að gera grein fyrir því, að þær breytingar eru í mínum augum ekki það stórvægilegar, að það hafi getað breytt afstöðu minni til þessa máls. Þar sem ég hefi ekki getað látið sannfærazt af rökum þessa frv., þá held ég varla, að hægt sé að ætlazt til þess, að ég láti sannfærast, þótt einhverjir hafi samþ. þetta í hv. Nd. Það hljóta menn að afsaka hjá mér. Annars get ég vel trúað, að ýmsum hv. þm., bæði í hv. Nd. og ef til vill hér líka, sé sama þótt þeir samþ. þetta frv., vegna þess að þeim er kunnugt um það, að hagur þessara fyrirtækja, sem hér um ræðir, er svo bágborinn, að búast má við, að frv. það, sem hér liggur fyrir, komi aldrei til framkvæmda, vegna þess að eigendur skipanna reyni að losna við þau, áður en þessi tilvonandi lög komast í framkvæmd.

Það er satt, sem hv. þm. sagði, að það er mönnum vitanlega mikið áhyggjuefni, hversu mikinn skatt sjórinn tekur af þjóðinni í ári hverju, en sjórinn var byrjaður að heimta þennan skatt áður en þessir voðalegu manndrápsbollar komu til sögunnar. Það hafa líka getað komið slys fyrir skip, sem hafa loftskeyti, enda þótt þau séu óneitanlega mjög þýðingarmikið slysavarnartæki. Hv. þm. var að brigzla mér um hræsni í sambandi við grein, sem ég skrifaði um slys, og hafði ég minnzt á það, að það þyrfti nauðsynlega að gera það, sem hægt væri, til þess að koma í veg fyrir slysin. Ég veit ekki, hvers vegna hv. þm. heldur, að ég sé öðruvísi innrættur en allir aðrir og geti ekki komizt við, þegar fregnir berast um það, að heilar skipshafnir hafi farizt. En ef þessi hv. þm. er að briglza mér um hræsni, þá held ég, að það megi snúa því upp á hann sjálfan, því að það má segja, að það sé gott að ganga hér um og halda ræður um það, hversu nauðsynlegt sé að verjast atvinnuleysinu, og gera svo við hvert tækifæri það sem unnt er, til þess að lama atvinnufyrirtækin. Í þessu tilfelli kemur það glöggt í ljós, þar sem það er kunnugt, að það munar aðeins nokkrum þúsundum króna, hvort þau atvinnufyrirtæki, sem hér um ræðir, geti starfað áfram eða ekki; og það yrðu a. m. k. nokkrir tugir fjölskyldna atvinnulausir, ef skipin væru seld til útlanda. Það stappar vissulega nærri hræsni að vera að tala um böl atvinnuleysisins, en vilja svo alls ekki gera neitt til þess að létta undir með mergsognum atvinnufyrirtækjum, til þess að þau geti haldið áfram að veita mönnum atvinnu.