19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (3126)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Við hv. þm. Hafnf. eigum eina brtt. við 4. lið frv., sem mælir svo fyrir, að á árinu 1936 skuli aðeins greiða prestum 35000 kr. þess embættiskostnaðar, sem ræðir um í þeim l., sem fjalla um uppbót á launum presta. Þessi upphæð nemur 65000 kr., og er því hér um 30000 kr. lækkun að ræða á launum presta. Það má segja sama um þetta eins og hv. þm. Borgf. sagði í öðru sambandi, að mönnum er óljúft að gera slíkar till., en þa6 er að sjálfsögðu hin knýjandi sparnaðarþörf, sem veldur því, að þessi till. er fram komin. Byrjunarlaun presta eru lægstu laun embættismanna, en þau hækka um 1000 kr. á nokkrum árum, svo að það er mikill munur á kjörum á byrjunar og beztu launum presta. Till. okkar hv. þm. Hafnf. fer fram á, að þessum 35000 kr. skuli, ef till. um niðurfærslu verður samþ., þannig hagað, að svo miklu leyti sem upphæðin hrekkur til, að þeir, sem eru á byrjunarlaunum, missi einskis í, en niðurfærslan komi aðeins niður á þeim, sem komnir eru í hæsta launaflokk. Ég held, að þetta sé hyggilegra heldur en að skipta þessum 35000 kr. jafnt niður á milli allra presta. Eins og kunnugt er, má telja, að í rauninni sé ekki lífvænlegt á byrjunarlaunum presta, nema á tiltölulega fáum stöðum í landinu, þar sem prestar geta skapað sér aðra launaða atvinnu auk embættisins, eða þar, sem embættisreksturinn er svo umfangsmikill, að hann gefur af sér aukatekjur, en það er tiltölulega óvíða.

En svo kemur eitt veigamikið atriði til greina, sem mælir með því, að hv. d. fallist á þessa till. Mér er kunnugt um það frá námsárum mínum í háskólanum, og ég veit, að það er svo enn þann dag í dag, að mikill meiri hluti manna, sem námi lýkur í háskólanum, er meira og minna skuldugur, og með tilliti til þessa hefir okkur þótt sanngjarnt, að fé það, sem hér um ræðir, væri fyrst og fremst látið renna til þeirra presta, sem eru nýkomnir frá prófborðinu og við lægst laun búa, en þurfa samt flestir að borga námsskuldir meira og minna.

Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um þessa till. okkar, en ég vona svo að lokum, að hv. þdm. sjái sér fært að samþ. till. Skal ég svo taka það fram, sem liggur í hlutarins eðli, að till. verður tekin aftur, ef 4. tölul. 1. gr. nær ekki samþykki.