05.12.1935
Efri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2212 í B-deild Alþingistíðinda. (3198)

172. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Magnús Guðmundsson:

Eins og sést hér á nál. á þkj. 675, þá hefi ég ekki getað orðið sammála meiri hl. í þessu máli frekar en hv. 10. landsk. Ég er alveg mótfallinn því að taka einokun á ferðamannakomu hér og setja á stofn skrifstofu í því sambandi. Það er alveg rétt, sem hv. 10. landsk. tók fram, að fyrir n. hefðu legið upplýsingar um, að þetta er hvergi gert nema í Rússlandi og meira að segja er gengið þeim mun lengra í þessu frv., að hér er bannað að hafa skrifstofu við hlið ríkisskrifstofunnar, en það er heimilt í Rússlandi. Ég geri ráð fyrir, að þó að það yrði bannað að hafa skrifstofu hér við hliðina á þessari ríkisskrifstofu, þá sé mönnum þó heimilt að hafa mök við útlendinga, þannig að leiðbeina þeim án þess að til skrifstofunnar kasta þurfi að koma. Ef það er meiningin að útiloka tað alveg, að menn hafi nokkur viðskipti við þá eða leiðbeini þeim eða eitthvað þessháttar gegn gjaldi, þá nær þetta frv. ekki tilgangi sínum. Ég er viss um það, að ferðamannaskrifstofurnar geta vel haft svipaða starfsemi og þær hafa nú, þrátt fyrir það, þótt þetta frv. yrði að lögum.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði hér áðan langt mál. Hann sagði, að útlendingar myndu hafðir hér fyrir féþúfu. Ég veit ekki, til hvers þeir eru að koma, ef ekki á að hafa út af þeim dálítið af peningum. Hitt er rétt, að ef tekið væri óhæfilega mikið af útlendingunum, þá er það ófært. Það voru dálítið villandi ummæli hjá hv. þm., þegar hann sagði, að farþegarnir á hinum stóru ferðamannaskipum, sem hér koma, kvörtuðu yfir því, að það væri okrað á þeim, því að það er skemmtiferðarskipið, sem selur fólkinu bíferðir og annað slíkt, og fær umboðsmaður ferðaskrifstofunnar hluta af því gjaldi, og þessu næst eiga bílstöðvarnar hlut að máli líka. En frá þeim liggur ekkert fyrir um þetta nema yfirlýsing frá einum bílstjóra um það, að ökugjöldin séu af há. Ég veit ekki til, að skipin, sem hingað hafa komið, hafi neitt kvartað yfir of dýrum ferðalögum. Slíkt er hreinasta fjarstæða. Ef einhver er, sem fer fram á að borga landferðalögin sjálfur, t. d. af því að hann hefir komizt að því, að þau séu seld með uppskrúfuðu verði af skipunum, þá getur hann það, en það er fremur illa þokkað og því sjaldgæft. Ég skil það ekki, að þau skip, sem hafa komið hingað ár eftir ár, myndu ekki kvarta, ef það væru saman tekin ráð að skrúfa upp gjöldin, en ef engin samtök eru á milli þessara stöðva, þá geta félögin gengið á milli þeirra og látið þær keppa um aksturinn. Ég sé því ekki, að það geti verið, að ferðamenn á skipum þessum hafi verið hafðir að féþúfu meira en á að vera, því að vitaskuld er ekkert land, sem ekki reynir að teygja til sín ferðamenn í þeim einum tilgangi að hafa af þeim fé. Ég verð að segja, að mér finnst sá taxti, sem farið er eftir, þegar um innlenda menn er að ræða, t. d. til Þingvalla, sé of lágur fyrir útlendinga. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að við hv. 10. landsk. vildum gera sem minnst í þessu máli. Það má auðvitað leggja það þannig út, þó að ekki sé það vingjarnleg skýring. Við viljum ekki fara það langt í þessu, að það geti komið okkur í koll síðar og að ferðafólkið verði óánægt, þegar það kemur hingað. En til þess að það verði ekki, þá verður að byggja hótel hér, en á því eru engin tök nú. - Hv. frsm. meiri hl. sagði, að ekkert hefði verið gert í þessu máli. (SÁÓ: Ég sagði lítið). Hv. þm. getur vel kallað það lítið, en ég etast um, að það verði til að fjölga ferðamönnum hingað að koma þessari einokun á, og ég er hræddur um, að á þessu sviði sem öðrum, þar sem einokun er komin á, verði ekki send nægileg lipurð til þess að hæna ferðamenn að. Ég verð að segja það, að þótt ekkert hafi verið gert af hálfu hins opinbera eða lagt í kostnað til þess að ná hingað ferðamönnum, þá er það þar framtak einstaklingsins, sem verið hefir að verki eins og svo oft áður, enda hefir ferðamannastraumurinn aukizt mjög á síðari árum. Í þessum tilgangi hefir líka talsvert af auglýsingum verið sent út úr landinu. Eftir upplýsingum, sem ég hefi fengið um þetta, er það áreiðanlegt, að það er ekki minni upphæð en 20 þús. kr., sem hefir verið lögð í það að prenta og dreifa út bæklingum í útlöndum. Hv. þm. getur kallað þetta lítið eftir því, hvað hann er kröfufrekur. Ég er ekki farinn að sjá, að lagt verði í meiri kostnað í útlöndum heldur en nú er gert. Mér sýnist vera óeðlilegt að setja hér upp skrifstofu með forstjóra og skrifstofufólki, því að það er engin trygging fyrir því, að það beri nokkurn árangur. Hv. frsm. vildi gera mjög lítið úr þeim skatti, sem hér er lagður á umferð í landinu. Ég verð að segja, að ég veit ekki til, að það eigi sér stað nokkursstaðar í heiminum, að lagður sé skattur á farseðla með bílum. Hv. þm. segir, að þessi skattur skipti ekki miklu máli. Það sé ekki nema 5 aurar af hverri krónu. En við skulum segja, að maður fari t. d. til Húsavíkur og borgi fargjald fram og til baka 60 kr., þá farir skatturinn fargjaldið fram um 3 kr. Auðvitað má segja, að ekki muni mikið um þetta, en margt smátt gerir eitt stórt, og þegar líka á að hækka benzínskattinn, er augljóst, að fargjöldin hljóta að hækka til muna.

Svo vildi ég gjarnan beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm. meiri hl., hvernig beri að skilja 9. gr. frv., því að ég álít, að hún komi ekki heim við 8. gr. Þar stendur þar: „Skylt skal vera að afhenda jafnan farþega, er fluttur er í bifreið gegn greiðslu, farseðil með áletraðri upphæð þeirri, er greiða hér, enda sé farseðillinn stimplaður svo sem mælt er fyrir í 8. gr.“ Nú eru alls ekki allir farseðlar stimpilskyldir, og á það var bent í n. Þetta er mjög óljóst og full ástæða til að taka þetta til frekari athugunar. Það þarf ekki alltaf að afhenda farseðil, og þá er stimpilskylda ekki fyrir hendi. Ég kem hingað á skipi, fæ bifreið niður að höfn og lét aka mér heim. Þetta er engin áætlunarferð og á ekki að þurfa að borga stimpilgjald, en hér er þó sagt, að alltaf skuli vera skylt að afhenda stimplaða farseðla.

Eitt af þeim atriðum, sem talað er um í grg. frv., er, að nauðsynlegt sé að ná í þá útlendu peninga, sem útlendingar koma með hingað til landsins. Til þessa er því að svara, að eftir gildandi reglum er skylda að afhenda alla slíka peninga, og er það hart, ef setja þarf á stofn sérstaka skrifstofu til þess að fá fylgt gildandi lögum. Það var líka upplýst í n., að aðalferðamannaskrifstofan, Hekla, hefir skilað öllum þeim útlendu peningum, sem hún hefir fengið. Þessi upplýsing er fengin hjá forstöðumanni skrifstofunnar, Birni Ólafssyni. Þá er og í þessu sambandi annað atriði, sem vert er að minna á. Það er mjög algengt, að útlendir ferðamenn komi hingað til landsins með íslenzka peninga. Íslenzkir ferðamenn selja sjálfir þessa peninga erlendis og svo fá útlendu ferðamannaskrifstofurnar þá, og útlendu ferðamennirnir fá þá svo þar og koma með þá hingað heim og borga hér með þeim það, sem þeir þurfa hér að fá.

Þá þykir mér mjög losaralega búið um þann kostnað, sem leiða kann af frv. Um það er ekkert sagt annað en að laun forstjóra skrifstofunnar skuli ákveðin í launalögum, en þangað til þau lög séu sett eigi ráðherra að ákveða þóknun fyrir starfið. Mér þykir víst, eftir þeim launareglum, sem fylgt hefir verið hér um einokunarskrifstofurnar, að þessi laun verði eitthvað frá 10 til 12 þús. kr. á ári, og svo verður þessi forstjóri að hafa sér við hlið allskonar fólk, og það er alveg ótiltekið, hve margt það verði. (JJ: Það verður sett á mannahaldslistann hjá ykkur). Okkur? (JJ: Já, hjá fjvn.). Já, en fólkið fækkar ekki fyrir það. Svona frágangur er alveg fjarri öllu lagi og þvert á móti því, sem fjvn. er nú að reyna að gera að reglu; og í tilefni af því, sem hv. þm. S.-Þ. skaut hér inn í ræðu mína, skal ég geta þess, að hann var sjálfur með í því að ákveða starfsmannafjölda ríkisins og laun þeirra, þótt hann nú flytji hér sjálfur frv. um nýja ríkisstofnun, þar sem ekkert ákvæði er til um þessi atriði, en allt gefið á vald ríkisstj.

Nú hefir n. fundið til þess, að til nokkuð mikils var mælzt, þar sem í frv-. stendur, að ferðaskrifstofunni sé heimilt að ákveða, að útlendir ferlamenn skuli sitja fyrir innlendum gistihúsum, ef húsrúm nægi ekki öllum. Nú till n. breyta þessu þannig, að það þurfi þó að vera gefinn nægilegur fyrirvari, ef reka eigi Íslending í burtu úr rúmi fyrir útlendan drjóla, sem hér að dyrum. Ég veit ekki, hvað n. ætlast til, að þessi fyrirvari sé langur, en hann á þó að fá heimild til að taka á sig einhverjar spjarir, en að hann verði rekinn upp úr rúminu, er ekki fyrirbyggt með brtt. n., þó hann eigi að fá tíma til að fara í fötin. (JBald: Ef hann vantar þá ekki tölurnar). Já, ef svo skyldi fara, að búið yrði að tolla tölur svo hátt, að þær væri ekki hægt að kaupa, þá yrði Íslendingurinn sennilega að fara nakinn burt úr gistihúsinu, því þar má hann ekki vera, ef útlendan drjóla hér þar að.

Ýms fleiri ákvæði ganga svo langt, að fjarri er öllum sanni. T. d. það, ef ferðaskrifstofunni líkar ekki við eitthvert hótel, að þá megi láta stjórnina loka því.

Ég hirði ekki um að hafa þessi orð fleiri að sinni, en má vera, að ég svari eitthvað hv. frsm. meiri hl., þegar hann hefir svarað ræðu minni.