18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (3291)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal ekki verða eins langorður og þeir tveir hv. þm., sem andmæltu þessu frv. Ég verð að taka undir það með hv. þm. Borgf., að það er illt til þess að vita, ef leiðir okkar ætla að skilja í þessu efni, því að við höfum saman stritað marga langa og erfiða daga í þessu máli undanfarin þing, og ég hefði viljað, að við gætum fylgzt að allt til enda í því að koma þessu góða áhugamáli, kartöflugeymslu og markaðsskála, í framkvæmd; en því miður virðist þetta samkomulag ætla að fara út um þúfur að nokkru leyti. Þó vil ég ekki trúa því, að hv. þm. ætli að leggjast á móti þessu máli, enda þótt það sé ekki í alveg sama formi og hann hefir hugsað sér.

Hv. þm. talar um, að hann vildi halda áfram með þetta mál á sama grundvelli og við höfum barizt fyrir því. Það má vera, að það sé betra, en hv. þm. veit, að þótt við fylgdum málinu fast eftir, þá hafa því verið grafnar grafir, bæði af okkar eigin flokksmönnum og andstæðingum bæði í þessari hv. d. og eins í hv. Ed., grafir, sem málið hefir ekki getað risið upp úr aftur. Hugsum okkur nú, að við vildum breyta þessu máli í það form, sem hv. þm. vill hafa það á. Er hv. þm. viss um, að málið næði fram að ganga í þeim grundvelli? Enda þótt margt í þessu frv. sé öðruvísi en ég fyrir mitt leyti hefði óskað, þá verð ég samt að segja, að ef þau stóru atriði, sem í því eru, nást á þann hátt, sem þetta er fram borið, þá mun ég sætta mig við það, eins og nú standa sakir í þessu efni. við skulum hugsa okkur, að við hefðum borið fram brtt., t. d. um það, að ekki yrði um neina einkasöluverzlun að ræða á erlendum kartöflum. Er hv. þm. viss um, að það hefð ekki einmitt orðið til þess, að þetta mál hefði strandað á því? Eða segjum t. d., að við hefðum verið sammála um, að enginn skyldi ráða verðlagi á kartöflum nema framleiðendur sjálfir. Er hv. þm. viss um, að það hefði náð fram að ganga? — Ég verð að segja, að það sem hv. þm. var að gefa í skyn, að það væi sama að segja í þessu tilfelli og venjulega, að það væru jafnaðarmenn, sem öllu réðu hjá framsóknarmönnum, að þetta er heldur hæpin fullyrðing. Vil ég minna hv. þm. á till., sem formaður Alþýðuflokksins bar fram í hv. Ed., og till., sem flokksbróðir hans, hv. þm. Hafnf., ber fram hér í þessari hv. deild, um það, að ríkið skuli eitt mega verzla með allar kartöflur, bæði erlendar og innlendar. Ég skal segja hv. þm. það, að till. hv. 4. landsk. var felld í hv. Ed. af mínum flokksbræðrum, og ég hefi lagt á móti þessari till. hv. þm. Hafnf. og mun greiða atkv. á móti henni, m. a. vegna þess, að ég álít svo mikla áhættu fylgjandi verzlun með kartöflur, að það nái engri átt að leyfa ríkinu einu og engum öðrum að verzla með þessar vörur. Ég álít nauðsynlegt, að sem flestum gefist kostur á því að verzla með þessar vörur, m. a. til þess að forðast, eins og unnt er, þá miklu áhættu, sem stafar af geymslunni, sem einstaklingar með litlar birgðir eiga mikið auðveldara með að hafa, heldur en einn allsherjar kaupandi. Hér er farið bil beggja í þessu frv. milli hv. þm. Borgf. og sumra samflokksmanna hans annarsvegar og hv. þm. Hafnf. og samflokksmanna hans hinsvegar. Hitt tel ég að sumu leyti kost að láta ríkið verzla með kartöflur, m. a. er þá mögulegt gegnum innflutning á kartöflum að nota þann hagnað, sem verða kynni af sölu þeirra, til þess að koma upp þessu fyrirtæki, sem við höfum barizt fyrir, en aldrei fengið fé til.

Hv. þm. var að fetta fingur út í ýms ákvæði frv., einkum verðlagsákvæðin, og þá einkum skipun verðlagsnefndar. En um leið og löggjafarvaldið gefur innlendum framleiðendum aðstöðu til þess að vera einir um söluna, virðist ekki ósanngjarnt, að settur sé nokkur varnagli við því, að þeirri aðstöðu verði ekki misbeitt gagnvart neytendum. Samkv. frv. á landbrh. að skipa formann nefndarinnar, Búnaðarfélag Íslands að tilnefna einn mann, S. Í. S. einn Alþýðusamband Íslands einn og Verzlunarráð Íslands einn. Með þessarri skipun verður að telja hag framleiðenda fyllilega borgið, þar sem þrír menn af þessum fimm eiga að gæta hagsmuna þeirra, en þeir tveir, sem Alþýðusambandið og Verzlunarráðið skipa munu fremur mega teljast fulltrúar neytendanna. Nefndin virðist því vera fullkomlega eðlilega skipuð á þennan hátt.

Þá vék hann að 10. gr., sem fjallar um það, hvaða grundvöll eigi að leggja að verðlagi á íslenzkum kartöflum. Það má vel vera, að orðalag greinarinnnar hefði getað verið betra og rétt hefði verið að breyta því, ef nú væri ekki orðið svo áliðið þings sem er, en þó held ég, að ekkert í henni geti orkað tvímælis, ef hún er lesin með skilningi. Hann fetti fingur út í það ákvæði, að verðskráningu garðávaxta skuli miða við markaðsverð í nálægum löndum auk flutningskostnaðar. Þetta er einmitt það, sem mestu hefir ráðið um verðlag á íslenzkum kartöflum hingað til. En jafnframt er tekið fram í lok gr., að framleiðendum skuli jafnan tryggt hæfilegt framleiðsluverð. Þetta er tekið svo skýrt fram, að ummæli hv. þm. um þetta eru ekkert nema útúrsnúningar. Hér er á alveg ótvíræðan hátt verið að tryggja hagsmuni innlendra framleiðenda.

Þá minntist hann á framleiðsluverðlaunin og flutningsstyrkinn, sem við höfum áður borið fram. Ég get játað, að ég legg að vísu ekki sérstaklega mikið upp úr verðlaununum, en þó má vel vera, að þau geti orðið til að glæða framleiðsluna eitthvað. Fyrir mitt leyti get ég ekki gert upp á milli þess, hvort muni hafa meiri áhrif, verðlaunin eða flutningsstyrkurinn.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að það myndi víst vera einsdæmi, að lög, sem samþ. hefðu verið á fyrri hluta þings, séu afnumin á seinnihluta þess. En þótt hér sé að nafninu til um sama þingið að ræða, verða þinghlutarnir að sumu leyti sem tvö þing, og eins og hv. þm. veit, er ekkert eins dæmi, að lög séu afnumin á næsta þingi eftir að þau voru sett. Hér er í raun og veru um breytingu á eldri lögum að ræða, þótt þetta sé borið fram sem sérstakt frv.

Ég skal ekki deila við hv. þm. A.-Húnv. um verðlaunin. Fyrir mér eru þau ekkert aðalatriði, þótt ég álíti, að þau geti orðið til þess að ýta nokkuð undir framleiðsluna.

Þá vil ég drepa nokkuð á þá tillögu, þótt hún verði tekin aftur til 3. umr., sem fjallar um það, að engum skuli heimilt að verzla með kartöflur, nema ríkinu. Ég álít, að það gæti valdið hinum mestu vafningum, að enginn megi selja tunnu og tunnu, nema hann hafi leyfi til þess. Auk þess gæti þetta fyrirkomulag ekki þrifizt, nema ríkið hefði umboðsmenn í hverju héraði, en slíkt myndi hafa talsverðan kostnað í för með sér. Fáar vörur eru hættulegri til geymslu en kartöflur, og ef ríkið væri skyldað til þess að taka á sig allan kostnað og áhættu af slíkri verzlun, gæti leitt af því stórtjón fyrir ríkið. Með því fyrirkomulagi, sem lagt er til í frv., er farið bil beggja milli þess ástands, sem nú er, og algerðrar einkasölu. Ríkið er hér aðeins milliliður milli framleiðenda og neytenda, sem hjálpar til að selja vöruna, ef þeir óska, til hagsmuna fyrir báða, án þess að leggja hömlur á bein viðskipti þessara aðilja. Þess vegna legg ég til, að málið verði samþykkt óbreytt, og mun fylgja því við atkvgr.