30.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (3304)

154. mál, verslun með kartöflur og aðra garðávexti

Pétur Ottesen:

Það er aðallega tvennt, sem hv. frsm. meiri hl. hefir að athuga við mína till. um stjórn á þessu. Hann virtist bera kvíðboga fyrir, að ótti gæti komið upp um það, að ekki yrði fullrar sanngirni gætt í ákvörðun verðs, ef n. yrði skipuð með þessum hætti. Ég vil benda hv. þm. Mýr. á þá reynslu, sem við höfum í þessu efni. Við höfum ekki reynslu af öðru en því, að framleiðendur hafa verðlagt þessa vöru á hverjum tíma, og að það hefir aldrei orðið árekstur, svo að ég viti til. Og ég ætla, að ég hafi nokkuð góða aðstöðu til að vita um þetta, þar sem ég er í nánu sambandi við þá staði á þessu landi, þar sem mest er ræktað af kartöflum. Ég vil ennfremur benda á það, að á síðasta hausti og oftar hefir hér eingöngu verið að ræða um íslenzkar kartöflur á markaðinum, en samt sem áður hefir ekkert örlað á neinni óánægju milli kaupenda og seljenda né nokkurri óeðlilegri tilhneigingu til að verðleggja þessa vöru hærra en sanngjarnt var. Ég held þess vegna, að það sé algerlega ástæðulaus ótti hjá hv. þm. Mýr. í þessu efni. — Þá virtist mér hann ekki ánægður með það ákvæði, sem ég setti inn í 10. gr. sem aðalgrundvöll undir því, að framleiðendum sé tryggt hæfilegt framleiðsluverð. Ég vil benda hv. frsm. meiri hl. á það, að frumskilyrði. þess, að nokkuð verði ágengt í því að hrinda áfram kartöflurækt í landinu, er það, að framleiðendum sé tryggt hæfilegt framleiðsluverð. Á þessum grundvelli verður því að byggja allar framfarir á þessu sviði. Allar aðrar ráðstafanir, sem ganga framhjá þessari staðreynd, hvort sem er í verðlaunaformi eða öðru formi, verða að engu og koma ekki að nokkru minnsta liði. Ég vona þess vegna, að við nánari athugun sannfærist hv. þm. Mýr. og aðrir, sem að þessu frv. standa, um það, að ef þetta er ekki tryggt, verður unnið fyrir gýg með öllum tilraunum og fyrirmælum um þessa hluti.