19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2331 í B-deild Alþingistíðinda. (3357)

173. mál, fólksflutningar með bifreiðum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég kysi helzt, að brtt. kæmu til atkv. þegar við þessa umr., en mundi þó að sjálfsögðu taka þær til athugunar fyrir 3. umr, ef hv. n. vill fallast á að geyma þær. Ég hygg, að ummæli hv. þm. N.-Ísf. um smábílana séu byggð á misskilningi. Eins og nú er, er þeim heimilt að fara áætlunarferðir jafnvel á hinum stærri leiðum, en af þeim sökum hefir orðið tiltölulega lítið gagn að skipulaginu. Smærri bílarnir hafa dregið frá áætlunarbílunum, svo áætlunarbílarnir bera sig þess vegna varla. Tilkostnaðurinn í heild verður óþarflega mikill. Þess vegna virðast allir sammála um það, að á sérleyfisleiðunum megi ekki vera stærri aukabílar en 6 manna. Það virðist eina leiðin til að nota þann bílakost, sem fyrir er. Þessi ráðstöfun gengur út yfir smærri bílana, en ætlunin er að bæta þeim það upp með því að leyfa óhindraða keyrslu á vissum leiðum. Á þessum leiðum má búast við misjafnlega öðrum mannflutningum, og því er óheppilegt að veita einkaleyfi á fólksflutningum á þeim leiðum. Hv. þm. N.-Ísf. vildi ekki fallast á það að hafa leiðina til Þingvalla frá Reykjavík á sunnudögum þarna með. Ég get ekki verið honum sammála um þetta. það er vitanlegt, að engin ein stöð hefir bílakost til þess að fullnægja þeim mannflutningi, sem oft er á þessari leið á sunnudögum. — Að því, er snertir 2. till. meiri hl., um skipun n., þá er það atriði, sem sjálfsagt má um deila. Ég fæ ekki betur séð en að hún sé í alla staði sanngjörn. Það eiga allir að hafa fulltrúa í n., sem hagsmuna eiga að gæta. Sérleyfishafar hafa tvo, bílstjórafélagið Hreyfill einn. Bílstjórarnir eru líka aðiljar, og þetta mun vera eina bílstjórafélagið á landinu. Ég veit að vísu ekki um á Akureyri, en ég hygg þó, að þar sé aðeins félag bílaeigenda. Bifreiðastjórarnir þurfa að hafa tillögurétt um ferðirnar og aksturinn, hvernig dagleiðum er skipt, hvort t. d. sami bílstjóri keyrir alla leið frá Borgarnesi til Akureyrar, sem er 12—14 klst. keyrsla, eða þá að tveir bílstjórar taki þar við hvor af öðrum. Þá tel ég einnig vel við eigandi og eðlilegt, að fjölmennasta félag verkamanna í landinu hafi þarna tillögurétt, og þá að síðustu að ríkisstjórnin hafi þar sinn fulltrúa sem oddamann.

Mótmæli hv. þm. N.-Ísf. gegn 3. brtt. held ég séu tryggð á misskilningi. (JAJ: Ég hefi ekki mótmælt henni). Þá bið ég afsökunar. Ég vil geta þess til skýringar, að reglugerð sú, er um getur í 3. gr. frv., verður upphaflega að sjálfsögðu samin af póstmálastjórninni, og þá auðvitað einnig af hinni ráðgefandi n.

Ég vildi mælast til þess, að brtt. hv. samgmn. verði afgr. á þessum fundi. Hinsvegar skal ég athuga fyrir 2. umr., hvort eitthvert samkomulag gæti komið til mála með fleiri breytingar.