25.03.1935
Neðri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (3451)

77. mál, bæjargjöld á Akureyri

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég get verið fáorður um þetta frv., því að það er gamall kunningi í þessari hv. d., og hafa komið hér til umr. tvö mál áður, sem eru í eðli sínu samskonar.

Ég hefi ekki séð mér fært í fjhn. að leggja til, að þetta frv. verði samþ. og gerði ég á síðasta þingi grein fyrir því í sambandi við frv. til l. um bæjargjöld í Vestmannaeyjum, að ég teldi ekki þessa tekjuöflunarleit heppilega eða réttláta, og að ég áliti það ranglátt að taka einstaka kaupstaði út úr í þessu efni. Ég hefi því lagzt á móti málinu, og læt ég nægja að skírskota til þeirra ummæla, sem ég hefi áður haft um það, og þeirra orða, sem ég lét fylgja frv. um bæjargjöld í Vestmannaeyjum.

Ennfremur skal ég geta þess, að í Ed. er á leitinni frv. til hafnarlaga fyrir Siglufjarðarkaupstað, sem fer fram á, að gjald sé lagt á vörur, sem eru fluttar að og frá höfninni þar. Mér finnst eðlilegt, að eitt sé látið ganga yfir öll þessi mál um nýjar tekjuöflunarleiðir, því meginatriðið er eitt og hið sama í öllum þessum frv. Ég skal fúslega játa, að hafnargjöld á Akureyri eru flestum hafnargjöldum lægri. Mér hefir jafnvel skilizt á hv. þm. Ak., að önnur leit væri möguleg til tekjuöflunar, og vænti ég, að hún geti komið til mála, þó að þetta frv. nái ekki fram að ganga.

Ég legg því til sem minni hl. fjhn., að þetta frv. verði fellt.