02.12.1935
Neðri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (3601)

148. mál, útflutningsgjald

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég ætla aðeins að þakka hv. þm. Borgf. fyrir, að hann gaf mér og öðrum kost á að heyra umsögn forseta Fiskifél. Íslands. Þó ég hafi að vísu grætt ákaflega lítið á því, virðist mér það vera meining forseta, að útflutningsgjaldið hljóti að lenda á framleiðendunum; hann gerir að öðru leyti enga grein fyrir því, en sannar hinsvegar það gagnstæða með því, sem hann segir um málið. Hann segir m. a.: „Lækki verðið á beinunum frá því, sem verið hefir, hvort heldur er af of háu útflutningsgjaldi - sem raunverulega lendir á framleiðanda -eða af því að samkeppnin um kaup á beinunum minnkar, t. d. fyrir samtök innlendra verksmiðja, gæti svo farið, að útgerðarmönnum þætti ekki borga sig að hirða beinin lengur, og töpuðust þá þau vinnulaun, sem verkun beinanna gefur í landinu, og auk þess sá hagnaður, sem útgerðin hefir haft af því að hirða beinin og hún á engan hátt má við að missa eins og hag hennar nú er komið“.

Þetta má skilja á tvo vegu, en ef tollurinn lendir á framleiðendum, þá muni verðið lækka. Hann gengur sem sé út frá, að verðið geti lækkað vegna samtaka innlendu verksmiðjanna, en gengur einnig út frá, að Norðmenn fylgi verðlagi innlenda markaðsins, og ber þannig til baka, að tollurinn lendi á framleiðendunum. Hvað skeður svo, ef tollurinn er afnuminn? Ekki annað en það, að Norðmenn verða að kaupa beinin með gangverði á innlendum markaði.

Umsögn forseta Fiskifél. verður því að öllu athuguðu lítill stuðningur við málið, engu fremur en málflutningur hv. 8. landsk.

Norðmenn munu vitanlega haga sér eins og hygginn kaupmaður og ekki gefa hærra verð en þeir þurfa, en bjóða á móti sínum keppinautum meðan þeir sjá sér fært.

Svo var hv. þm. með bollaleggingar um það, að verið gæti, að Norðmenn litu í náð til okkar í þessu efni. Ég get nú ekki séð, hvaða ástæða er til að ætla, að þeir geri það. (GÞ: Til þess að tryggja sér vöruna). Þegar Norðmenn voru einir um hituna, höfðu þeir ekki við neinn að keppa. En þegar þeir urðu það ekki lengur, þá hækkuðu þeir sig í það verð, sem hér var boðið fyrir vöruna, en meira hafa þeir ekki gefið fyrir vöruna.

Norðmenn standa betur að vígi en innanlandsverksmiðjur um flutninga á þessari vöru að verksmiðjunum. Aðstaða Norðmanna um flutninga á vörunni til Noregs er þannig, að þeir fá vöruna flutta með skipum, sem annars mundu fara tóm eða hálftóm til Noregs og fá fyrir aðra flutninga, sem þau hafa verið í, greitt fullt gjald, fullan kostnað við þær ferðir, sem þau hafa verið í. Hv. 8. landsk. getur, ef hann vill, fengið staðfestingu á þessu.

Það, sem hv. flm. frv. og aðrir þeir, sem hans málstað styðja, áttu að sanna, var það, að þessi tollur væri tekinn af íslenzkum framleiðendum. En þeir hafa ekki fært rök né minnstu líkur fyrir, að svo sé. Jafnvel vitnisburður þess manns, sem þeir hafa leitt fram sem sterkasta stuðningsmann þessarar kenningar þeirra, forseta Fiskifél., sannar hið gagnstæða, þar sem hann gerir ráð fyrir því, að verðlagið fari algerlega eftir því, hvað innlendu verksmiðjurnar borga fyrir vöruna.