12.11.1935
Efri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (3678)

14. mál, jarðræktarlög

Bernharð Stefánsson:

Þegar þetta mál var hér til umr. fyrir nokkru síðan, sagði ég nokkur orð um það, til þess að gera grein fyrir afstöðu minni og flokks míns til þess. Það var ekki tilgangur minn að svara ræðum annara þm., því það var hlutverk frsm. n. Nú hefir það undarlega skeð, að tveir hv. þm. hafa tekið sér nærri þau fáu orð, sem ég þá sagði. Þessir þm. eru hv. 2. þm. Rang. og hv. 10. landsk. (MG: var það ekki von?). Mér finnst engin ástæða til þess, og þegar þeir eru að svara mér, þá eru þeir að svara ræðu, sem ég aldrei hefi haldið; sérstaklega á þetta við hv. 10. landsk. Tilgangur minn með ræðu minni var sá, sem ég áðan nefndi, og ég hygg, að það hafi ekki verið nema eitt atriði í ræðu hv. 2. þm. Rang., sem ég minntist á, og tvö atriði í ræðu hv. 10. landsk., svo mér kemur dálítið einkennilega fyrir sjónir, hvernig í þetta hefir verið tekið. Það er nú orðið nokkuð langt síðan hv. 2. þm. Rang. flutti ræðu sína, svo þótt ég skrifaði sumt niður eftir honum, þá er ég farinn að gleyma samhenginu í því og þarf ekki að hafa langt mál til að svara honum. Það var sérstaklega eitt atriði, sem ég vildi minnast á.

Hann var ákaflega hneykslaður á því, sem ég hafði sagt viðvíkjandi orðum hans um kjötsöluna. Hann tók það auðsjáanlega svo, að ég hefði verið að gera grín að sér. Hann talaði um, að ég hefði verið með kímni. En ég skal geta þess, að mér var bláköld alvara. Það var alls ekki af nokkurri viðkvæmni fyrir S. Í. S., að ég lét þess getið, að ef hægt væri að margfalda markaðinn fyrir kjötið, þá teldi ég það hið mesta nauðsynjamál, og að sá, sem gæti gert það, yrði velgerðamaður allrar þjóðarinnar. Og ég álít enn, og stend við það, að ég tel það mesta nauðsynjamálið, sem landbúnaðinn varðar eins og stendur, að hægt sé að koma afurðasölu bænda í betra horf. Mér var fullkomin alvara, er ég sagði þetta í fyrri ræðu minni, og er það enn.

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að stjórnarflokkarnir hefðu valdið kauphækkun í sveitum með hækkun vegavinnukaupsins, og mér skildist, að framlög þau til bænda, sem þetta frv. fer fram á, ættu að vera einhversskonar endurgjald til bænda fyrir það. Ég er nú ekki svo kunnugur um land allt, að ég geti sagt um það, hve mikið kveður að þessari kauphækkun, eða hvort hún hefir orðið svo teljandi sé. En sjálfur hefi ég ekki orðið mikið var við kauphækkun í sveitum síðan núv. stj. tók við; a. m. k. hefir kaup kaupafólks alls ekki hækkað í mínu héraði. Annars mun kaupgjald í sveitum vera mjög misjafnt og m. a. fara eftir því„ hve hátt kaup er greitt í næstu kaupstöðum. Ég veit þannig, að í nágrannakaupstöðum við mig er greitt miklu hærra kaup en stj. greiðir í vegavinnu, og það kaupgjald hefir fyrst og fremst áhrif á kaupgjaldið í sveitunum. Hinsvegar má vel vera, að hækkun vegavinnukaupsins hafi sumstaðar valdið einhverri kauphækkun, en þó ekki nærri eins mikilli og blöð stjórnarandstæðinga láta.

Hv. 10. landsk. sagði, að mér hefðu vaxið þessi 50 þús. kr. framlög til landbúnaðarins í augum. Ég tók hið gagnstæða einmitt skýrt fram, að ég teldi þessa upphæð sízt eftir landbúnaðinum, og þótt hærri væri. En hitt lét ég í ljós, að vel mætti verja þessari upphæð á hagkvæmari hátt fyrir landbúnaðinn en frv. ætlast til, og því vildi ég láta skjóta málinu til stj., svo að rannsakaðir væru allir möguleikar á því að láta slík framlög koma að sem mestu haldi. Annars fer ég ekki frekar út í þá sálma, þar sem bæði ég og frsm. meiri hl. gerðum skýra grein fyrir þessu á dögunum.

Ég ætla alveg að leiða það hjá mér að fara að rökræða um það við hv. 10. landsk., hvort Bændafl. geri sanngjarnar kröfur eða ekki. En hitt dylst mér ekki, að margar af kröfum og till. hv. 10. landsk. og flokksbræðra hans eru aðeins tálbeita ábyrgðarlauss flokks til þess að veiða sér fylgi, og að ómögulegt er að fullnægja þeim sumum, enda mundu nýjar koma jafnharðan, því yfirboð þurfa þeir alltaf að gera. Hvað það kemur þessu máli við, hvaða kröfur Alþfl. hafi gert á sínum tíma - það skil ég ekki. En að vísu reyndi hann að vinna sér fylgi með yfirboðum, á meðan hann var í stjórnarandstöðu, og hefir Bændafl. auðsjáanlega tekið það til fyrirmyndar.

Mér er sagt, að hv. 10. landsk. hafi sagt, að ég hefði ekki talið neina nauðsyn á ræktun og aukinni framleiðslu. (ÞBr: Ég hefi skrifað hjá mér -). Mér er alveg sama, hvað þm. hefir skrifað, ég hefi aldrei sagt þetta. Enda er ekki verið að tala um það að stöðva aukna framleiðslu og ræktun, þótt þessu frv. sé vísað til stj. Hitt sagði ég, að eins og tímarnir væru nú, væri það ekki aukin framleiðsla og ræktun, sem mest riði á. (ÞBr: Til hvers er að auka ræktun og fjölga kúm, sagði hv. þm.). Já, ef mjólkin selst ekki, sagði ég. Ég sagði þetta til að undirbyggja þá skoðun mína, að aukin ræktun sé ekki það allra nauðsynlegasta fyrir bændur eins og stendur, heldur að koma afurðunum í það verð, að unnt sé að halda búskapnum áfram.

Ég minntist líka á skuldamál bænda og sagði, að þau þyrftu að komast í fast horf, og hjálp til þess yrði að ganga fyrir auknum framlögum til ræktunar. Ég átti þá við frv. okkar hv. 2. þm. Eyf. um þá breyt. á lögum um kreppulánasjóð, að þrefaldað yrði það fé, sem veitt er til að létta byrðar ábyrgðarmannanna. Hv. 10. landsk. kvaðst hafa fengið tilmæli um að flytja ekki slíkt frv. Hvaðan hefir hann fengið þau? Ekki frá mér. (ÞBr: Gegnum annan mann). Hv. þm. segir þetta ekki satt. (ÞBr: Maðurinn getur borið vitni um það). Þá segir hann ekki satt.

Hv. 10. landsk. sagði í fyrri ræðu sinni, að fellir hefði orðið í fyrra á Norðurlandi, ef vorið hefði ekki orðið eins gott og raun varð á. Hann tók svo stórt upp í sig, að hann sagði, að kolfellir myndi hafa orðið í tveim landsfjórðungum. Mér þótti þetta nú nokkuð stór orð, því að kolfellir myndi nánast þýða það, að hver skepna hefði fallið úr hor, en slík fádæmi hafa aldrei skeð frá upphafi Íslandsbyggðar, sem betur fer. Þótt heyin væru slæm eftir sumarið, mun þetta talsvert ofmælt hjá hv. þm. Þó veit ég vel, að illa hefði farið, ef vorið hefði orðið slæmt. En ég er ekki viss um, að það hefði breytt svo miklu, þótt búið hefði verið að samþ. þetta frv. hv. 10. landsk. fyrir t. d. 2 árum. Orsökin til þess, hve súrheysgryfjur eru fáar á Norðurlandi, er ekki sú fyrst og fremst, að ekki hafi verið veittur styrkur til þeirra. Ástæðurnar eru aðrar, og sú, sem ekki er veigaminnst, er, að slík sumur sem í fyrra eru sjaldgæf á Norðurlandi.

Hv. 10. landsk. sagði, að ég hefði sagt, að ekki væri verkefni fyrir fleira fólk í sveitunum, en þetta er rangt með farið, eins og flest, sem hv. þm. hefir eftir mér. Verkefnin eru vitanlega til fyrir miklu fleiri en nú búa í sveitunum. En skilyrðin til þess að vinna að þeim verkefnum eru þau, að markaður fáist fyrir framleiðsluna. Hv. 10. landsk. minntist á frv. mitt um verðlaun fyrir aukna kartöfluframleiðslu, og skildist mér á honum, að hann teldi vafasamt, að það kæmi að gagni. Hann var að tala um í þessu sambandi, að skýrslur kartöflueigenda væru eigi ávallt sem ábyggilegastar. En mönnum er þó gert að lagaskyldu að telja fram, og hreppstjórar eiga að gefa skýrslu um framtölin. Ég geri ráð fyrir, að hreppstjórar útfylli þessar skýrslur ekki af handahófi, þótt menn mæti ekki á hreppskilaþingi, heldur leiti sér upplýsinga hjá þeim, sem hlut eiga að máli. Annars býst ég við, að oftast sé fremur vantalið en oftalið, en verðlaunin ættu að vera hvatning til manna um að telja rétt fram.

Hv. 10. landsk. sagði, að ég fengi að sjá það, ef Bændafl. kæmist til valda, að hann myndi standa við öll sín loforð. Það þýðir nú lítið að vera að þrátta um það, hvað framtíðin ber í skauti sínu. En ég hefi litla trú á hvorutveggja, að Bændafl. komist til valda, þó ekki sé fyrir það synjandi, né heldur að hann stæði við öll sín fögru loforð, þótt svo ólíklega vildi til. Það er vitanlegt, hvernig það bæri að, ef Bændafl. kæmist í stjórnaraðstöðu. Það yrði aðeins í samvinnu við Sjálfstæðisfl., enda hefir verið lýst yfir því ótvírætt í Mgbl. Ég ætla ekki að fara að deila hér á Sjálfstfl. Hann kemur þessu máli ekki við, og ég geri mér venjulega far um að sýna ekki óþarfa áreitni. En sá flokkur hefir áður farið með völd í landinu, og ekki til neinna heilla fyrir landbúnaðinn. Býst ég við, að Bændafl. dragi töluverðan dám af honum í stjórnarsambúð. Ég get því ekki tekið það trúanlegt, að Bændafl. myndi standa við öll sín stóru orð um framlög til landbúnaðarins, ef hann færi með stjórn. Það er dálítið annað, að bera ekki ábyrgð á neinu og heita gulli og grænum skógum, heldur að efna þau loforð, sem gefin hafa verið til fylgisveiða. En það er ekki aðeins, að fengin sé reynsla af Sjálfstfl. við völd í landinu, heldur hefir hv. 10. landsk. sjálfur verið ráðh. áður. Ég er ekki að lasta hann og játa, að ég studdi hann í þeim sessi. En mig minnir - og segi honum það ekki til lasts -, að í ráðherratíð sinni gæti hv. 10. landsk. stungið fótum við fjárkröfum, jafnvel þótt verja ætti fénu til gagnlegra hluta í sjálfu sér. Og ég býst við, að eins færi aftur, ef það ætti fyrir honum að liggja að komast í sama sess. Því að hugsanlegur möguleiki er það, að Bændafl. kunni einhverntíma að fara með stjórn landsins að einhverju leyti, þótt það sé ákaflega ólíklegt.