07.11.1935
Neðri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (3688)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hafði nú lesið 1. gr. frv. rækilega yfir, svo það var ekki af því, að ég vissi ekki, hvað í henni fólst, að ég talaði þessi varúðarorð áðan, því jafnvel þó segja megi með nokkrum rökum, að þarna sé settur nokkur varnagli fyrir því, að ekki verði farið út í öfgar í þessu máli, þá er alls engin trygging fyrir því, þegar af stað er farið með svona hluti, að ekki sé smátt og smátt losað sig við slíkar varnaðarráðstafanir, eins og komið hefir fram hér áður á þingi. Þær hafa verið numdar í burt rétt strax. Þarf ekki að leita langt aftur í tímann til þess að finna þess dæmi. Það var á þingi hér í fyrra.

Hv. 7. landsk. talaði um hina miklu þörf sveitarfélaganna til þess að auka tekjustofna sína, og ég skal ekki mótmæla þeirri miklu þörf. En það liggur í augum uppi, að hér gefur ekki verið um nýja tekjustofna að ræða, nema að því leyti sem hægt er að fá þá frá þeim sveitarfélögum, sem skipta við Sauðárkrók. En bæjarbúar sjálfir eru ekki frekar færir um að borga þetta gjald af vörunum heldur en þeir eru færir um að borga það með hækkuðu útsvari.

Um þessi tryggingarákvæði, sem sett eru í 1. gr. frv., er það að segja, að þó hlutaðeigandi sýslunefndir hafi samþ. slíka álagningu, þá þarf ekki með því að vera tryggt, að ekki sé gengið á rétt hlutaðeigandi sveitarfélaga, vegna þess að þau gætu verið í minni hluta, þó þau séu það ekki í þessu tilfelli. Það er ekki alltaf svo, að allt sýslufélagið skipti við einn stað, heldur eru fleiri verzlunarstaðir í sýslunni, sem sum sveitarfélögin skipta að mestu leyti við.

Ég vildi aðeins færa fram þessi varúðarorð, það þessi tryggingarákvæði, sem sett eru í frv., eru mjög veigalítil, og þó þau reynist að halda í einstökum tilfellum, þá er hætt við, að þau muni verða numin úr gildi með lagasetningu hér á þingi, enda er það hrein fjarstæða að vera að setja svona lagaákvæði um hvern hrepp út af fyrir sig. Ef á að ganga inn á þessa braut almennt, þá væri eðlilegast að koma með eina heildarlöggjöf um það, á hvern hátt hlutaðeigandi kauptún geti aflað sér tekna á umsetningu verzlunar sinnar. Ég hefi nú bent á leið í þessu máli til tekjuöflunar fyrir sýslusjóði, sem kæmi fram í lækkandi sýslusjóðsgjöldum og yrði þá um leið tekjuöflun fyrir sveitarfélög. Það frv. var flutt snemma á þessu þingi í vor, og ennþá hefir ekkert bólað á það. Ég skal þiggja þá samvinnu, sem hv. 7. landsk. var að bjóða mér áðan, og vonast ég þá eftir, að hann reki á eftir þessu máli, því einhvern þátt hlýtur hann og hans flokkur að eiga í því, að málið fær ekki afgreiðslu. Þeir eru svo fjölmennir, sjálfstæðismennirnir hér á þingi, að þeir ættu einhverju að geta ráðið um það, að mál fái þinglega afgreiðslu, en séu ekki svæfð í nefnd.

Ég vil þá um leið nota tækifærið og skora á hæstv. forseta að taka til greina þessa kvörtun mína, sem ég hefi einnig áður borið fram um drátt á þessu máli frá n.