18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (3692)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Frsm. meiri hl. (Sigfús Jónsson):

Ég get ekki varizt því að láta í ljós undrun mína yfir því, að hv. 1. landsk. skuli mæla á móti frv. þessu, sem fram er komið vegna sérstaks neyðarástands eins hreppsfélags landsins. Ég hélt, að hann myndi einmitt líta á nauðsyn þá, sem hér er um að ræða, líta á hag verkalýðsins þar nyrðra í þessu efni. Hér stendur alveg sérstaklega á. Fólk hafði búizt við mikilli síldarsöltun og talsverðri atvinnu í sambandi við hana. En síldin brást, eins og menn vita, og þeir, sem byggt höfðu atvinnuvonir sínar á henni, stóðu uppi með tvær hendur tómar. Má nærri geta, hvernig afkoma þessa fólks er nú, þegar farið er að liða á veturinn. Með tilliti til þessa er frv. borið fram, því að eitthvað verður að gera.

Ef dagskrártill. sú, sem hér liggur fyrir, hefði nokkurt bjargráð að geyma, þá myndi ég taka henni fegins hendi, en svo er auðsjáanlega ekki. Hún gerir ekki ráð fyrir björg fyrr en einhverntíma í framtíðinni. Mér finnst því einmitt, að Alþfl. ætti að finna sér skylt að taka höndum saman við okkur til bjargar þessu fólki, sem svo er nauðulega statt.

Hv. þm. telur ekki rétt að samþ. frv., af því að hann vill ekki taka fram fyrir hendurnar á n. þeirri, sem fengið hefir málið til meðferðar og á að ráða bót á því í heild sinni fyrir allt landið. Hann kveðst ekki vilja taka eitt hreppsfélag út úr á þennan hátt. Þetta er nú gott og blessað út af fyrir sig. En hér stendur, eins og ég hefi tekið fram, alveg sérstaklega á. Ég efast um, að nokkurt hreppsfélag hafi orðið jafnhart úti og Sauðárkrókur. Vonandi þarf þetta hreppsfélag ekki á slíkri hjálp að halda í framtíðinni, en eins og nú er ástatt, er þörfin brýn. Og þó að 1. þessi giltu ekki lengur en til ársloka 1936, teldi ég það mikla bót. Vænti ég þess, að hv. þd. líti á allar aðstæður og samþ. okkar frv., en felli dagskrártill.