25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (3718)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Gísli Guðmundsson:

Það eru aðeins fá orð til leiðréttingar því, sem kom fram í umr. áðan, að ég hafi flutt frv. um álagningu á síldarverksmiðjuna á Raufarhöfn. Það er mesti misskilningur, því að ég hefi ekki flutt neitt frv. um álagningu á þá sérstöku verksmiðju, heldur á síldarverksmiðjur ríkisins yfir höfuð. Ég vil vekja athygli á og leggja á það áherzlu, að það mál er nokkurs annars eðlis en það, sem hér liggur fyrir, um að heimila einstökum kauptúnum að leggja tolla á vörur. Í mínu frv. er aðeins heimilað að leggja útsvar á atvinnurekstur, sem ekki hefir verið útsvarsskyldur. Og að í því frv. er gjaldið miðað við söluverð afurðanna, er sett til þess að koma í veg fyrir, að þessi álagning geti orðið óeðlilega há, en ekki að það eigi skylt við þetta mál, sem hér er til umr.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram. af því að á það var minnzt í umr. áðan.