25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (3728)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal aðeins, af því mér finnst það ekki mega standa alveg ómótmælt við þessar umr., sem hefir nú verið endurtekið í annað sinn og fullyrt, að kaupfélögin greiði minni útsvör en aðrar verzlanir. Ég geri ráð fyrir, að þeir hv. þm., sem halda þessu fram, telji hlutafélög ekki óskyldari kaupfélögum en kaupmenn, og jafnvel fallist á, að þau séu hliðstæð. Það vill nú svo til, að fyrir nokkrum árum var gerður samanburður á því, hvort opinberar greiðslur kaupfélaganna væru ekki sambærilegar við hlutafélaganna, og það kom í ljós, að aðeins tvö félög greiddu minna en ef þau hefðu verið hlutafélög. (JakM: Líka þó reiknað sé umsetningargjaldið?). Þetta var reiknað á árunum 1925 eða 1926, ég veit ekki, hvað mikið hefir breytzt síðan, en er sannfærður um, að þó þetta væri reiknað upp, mundi verða sama niðurstaða, þrátt fyrir vitlausar hugmyndir sumra manna. (SK: var þetta reiknað af hagstofunni?). Það geta fleiri reiknað en hagstofan, enda sama af hverjum reiknað er, þegar útkoman er rétt.

Það er dálítið hæpið fyrir hv. 3. þm. Reykv. að ætla sér að fara að nota Blönduósmálið sér til framdráttar. Það er engin skylda að halda áfram sömu vitleysunni, og er ekki nema gott, að sumir hv. þm. skuli vera farnir að sjá að sér; mér þykir vænt um það. Annars ætlaði ég að nota þennan tíma, sem ég fæ til stuttrar aths., til að bera fram og skýra skrifl. brtt., sem ég vil flytja við mína fyrri brtt. í samræmi við þær ábendingar, sem komu frá hv. þm. Snæf. um það, að eftir fyrri till. minni væri ekkert ákvæði, hvernig tekjur af gjaldi þessu skyldu skiptast, ef 2 eða 3 eða jafnvel fleiri sýslufélög ættu verzlun við einn og sama verzlunarstað. Skal ég, með leyfi hæstv forseta, lesa upp hina skrifl. brtt. mína, sem er á þessa leið: „Þegar gjald þetta er lagt á þar, sem sameiginlegur verzlunarstaður er fyrir kaupstað og sýslufélag eða fleiri sýslufélög, skal gjaldinu skipt á milli þessara aðilja eftir mati nefndar. Skal hún skipuð einum manni af hverjum þessara aðilja, en atvinnumálaráðherra skipar oddamann, ef þörf krefur.“

Þessi till. skýrir sig sjálf, þannig að ef 3 eða 5 sýslu- og bæjarfélög eiga hlut að máli, þarf ekki sérstakan oddamann, en ef þessir aðiljar eru 2 eða 4, er nauðsynlegt, að slíkt ákvæði sé um skipun oddamanns sem till. felur í sér. Ég skal svara hv. þm. Borgf. því, sem eitthvað var að tala um, að dreifa mætti skattinum með því að láta hann ná til útfluttra afurða, að ég ætlast alls ekki til, að skattur þessi nái til útfluttrar vöru, sbr. brtt. mína, enda væri það mjög óréttlátt nú að setja slíkt gjald á, þegar atvinnuvegirnir eiga við jafnmikla örðugleika að stríða og nú og einmitt er verið að létta af þeim slíkum gjöldum.

Ég vil svo vænta þess, hvort sem menn líta á þennan skatt sem réttmætan eða ekki réttmætan, að þá vilji þeir láta hann ná til allra. Um það er alls ekki að tala, sem hv. 3. þm. Reykv. var að minnast á, að þetta eina hreppsfélag þyrfti hjálpar við, sem tekið er fram í sjálfu frv. Svo er alls ekki. Eftir breyt. þeim, sem gerðar voru á lögum 1933, var ríkistillagið hækkað úr 1 í 3 þús. kr. til þeirra hreppa, sem mest þyngslin hafa að bera. Það getur því ekki verið um sérstök þyngsli að ræða, nema að vera skyldi þá, að þessi hreppur ætti svo mikið óendurgreitt hjá öðrum hreppum. Því finnst mér ekki samkv. núgildandi lögum geti verið svo sérstök þörf á að styrkja þetta eina hreppsfélag. - Öll sveitarfélögin þurfa hjálpar við, og það er réttlátara, að þau njóti öll þessara réttinda heldur en ef eitt og eitt er tínt út úr.