08.03.1935
Neðri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (3843)

46. mál, útgerðarsamvinnufélög

Gísli Guðmundsson:

Hv. 1. flm. frumv. er ekki viðstaddur, og skal ég því fara um það örfáum orðum, en ég get verið fáorður. Þetta frumv. um útgerðarsamvinnufélög var flutt á síðasta Alþingi af sömu flm. og nú. Tilgangurinn með flutningi frumv. er fyrst og fremst sá, að skapa möguleika til nýrrar útgerðar á heilbrigðum grundvelli á ýmsum stöðum. Það hefir tíðkazt undanfarin ár, að ríkið gengi í ábyrgð fyrir samvinnufélög sjómanna til að koma upp bátum til útgerðar. En það er nú svo komið, að varhugavert þykir að ganga lengra í þá átt. Það er þess vegna nauðsynlegt að skapa eitthvert fyrirkomulag, sem geti komið í þess stað og skapað útgerðinni nokkurn vöxt.

Frumv. þetta er mjög svipað því sem það var á síðasta Alþingi. Það hafa aðeins verið gerðar á því örfáar breyt., sem ganga aðallega í þá átt að hækka tillög sjómannanna í sjóði félaganna. Að öðru leyti ætla ég ekki að fjölyrða um frv., en leyfi mér að fara fram á, að því verði vísað til 2. umr. og sjútvn.