30.03.1935
Neðri deild: 41. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í C-deild Alþingistíðinda. (4025)

98. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Flm. (Sigurður Kristjánsson) [óyfirl.]:

Það kann að virðast óþarft, eftir að hæstv. atvmrh. hefir kveðið upp dauðadóm yfir þessu frv., að vera að mæla fyrir því, en bæði af þeim sökum, að málið hefir verið flutt fyrir löngu síðan inn í þingið, og einnig af því, að það er ekki ætlun okkar flm. að láta málið niður falla, þó að það hafi fengið óvingjarnlegar viðtökur, þá þykir mér hlýða að gera grein fyrir frv., að því leyti sem það er nú breytt frá síðasta þingi. En ég vil taka það fram þegar í upphafi, að okkur flm. þykir rétt að láta málinu fylgja nokkra grg., og sumpart af því að við teljum, að þetta mál sé ekki dauðadæmt, þó að það fái ekki afgreiðslu á þessu þingi, og að það muni hljóta úrskurð þeirra manna, sem virðast vera vitrari og betri í þessu máli heldur en andstæðingar okkar hafa reynzt að vera í þessari d.

Síðan þetta mál var flutt á þinginu í haust hafa ekki í raun og veru orðið aðrar hreyt. á því en að hagur útgerðarinnar og útlit fyrir afkomu hennar hefir versnað að miklum mun. Nú er hv. þm. það kunnugt frá umr. um því nær samnefnt frv. frá stj., að okkur flm. þessa frv. og stuðningsmönnum stj. - og sérstaklega þó stj. sjálfri - ber mikið á milli um eðli þessa máls, þar sem stj. virðist telja, að sá hluti útgerðarinnar, sem minna hefir tapað og er betur staddur, hafi meiri þörf fyrir hjálp heldur en sá, sem meiru hefir tapað og þar af leiðandi líkur til, að verr sé staddur. Frá sjónarmiði okkar, sem lítum fyrst og fremst á þetta mál sem mikilsvert atvinnumál og fjárhagsmál fyrir þjóðfélagið, þá er náttúrlega þörfin fyrir hjálp því meiri, sem atvinnuvegurinn er stórkostlegri og verr staddur.

Ég get í þessu sambandi, þó að hæstv. atvmrh. sé ekki við, tekið það fram, að hæstv. stj. hélt því fram við umr. um skuldaskilasjóð bátaútvegsins, að bátaútvegurinn hefði farið forsjállegar að ráði sínu, sem sjá mætti af því, að hann hefði tapað miklu minna en stórútgerðin, sem þeir svo kalla, og þess vegna bæri ekki að hjálpa stórútgerðinni. Ég sýndi þá fram á það, að stórútgerðin hefði verið landsfólkinu eins þörf, og ríkissjóði líka, og studdi það m. a. með því, að stórútgerðin hefði greitt stórkostlega miklu meira fé, bæði til opinberra þarfa og eins til þess fólks, sem á útgerðinni lifir, en nokkur önnur tegund útgerðar hér á landi. Ég hafði þá ekki reiknað þetta út nákvæmlega á annan hátt, en ég sýndi fram á, að samkv. rannsókn og skýrslum þar um hefði bátaútvegurinn greitt sjómönnum 6-13 kr. í daglaun, eða réttara sagt, að hlutur sjóm. við alla smærri útgerðina, frá stærstu mótorskipum og niður úr, var þetta, 6- 13 kr. á dag þann tíma, sem útgerðin stóð yfir, en togaraútgerðin hefði greitt sínum sjómönnum til jafnaðar í 4 ár á hverjum degi, sem útgerðin gekk, nærri því 22 kr. daglega. Síðar athugaði ég, hvað heildargreiðslur til sjómanna hefðu verið samtals hjá öllum þessum 4 flokkum bátaútgerðarinnar og einnig hjá togaraútgerðinni í þessi 4 ár, sem rannsóknin nær yfir, þ. e. a. s. þeim hluta flotans, sem náðist inn á skýrsluna, en það er mestur hluti hans. Það kom þá í ljós, að á þessum árum hafði togaraflotinn greitt þeim skipverjum, sem á honum unnu, á 7. millj. fram yfir það, sem bátaflotinn hefir greitt. Þetta vil ég álíta, að sé talsvert þungt á metunum sem stuðningur við það mál, að þjóðinni megi ekki liggja það í léttu rúmi, hvort togaraútgerðin liður undir lok. En það er álitið, að þessi atvinnurekstur þurfi stuðning, bæði vegna rekstrar síns og eins til endurnýjunar skipunum, og það er alveg víst, að togaraflotinn þarf þess ekki síður en bátaútvegurinn, því að það er komið í ljós, að til jafnaðar eru útgerðarmenn togaranna svo að segja öreigar, og skipin eru komin svo til aldurs, að það eru aðeins fá ár þangað til flotinn verður að endurnýjast, ef hann á ekki að líða undir lok. Frv. um þetta liggur fyrir alþingi, að efla fiskveiðasjóð, svo að hann geti endurnýjað stóru skipin, en það frv. hefir enga afgreiðslu fengið, hvorki á síðasta þingi né þessu. Og af því er það bert, að hæstv. stjórn og hennar fylgismenn eru því gersamlega andstæðir, að togaraútgerðin verði endurnýjuð, því að það er vitað, að einstaklingarnir hafa ekki fé fyrirliggjandi til þess, og ef þeir geta ekki fengið lán með skynsamlegum kjörum hjá innlendum lánsstofnunum, þá eru þess engar líkur, að flotinn verði endurnýjaður. En því máli, þótt það sé þessu skylt, skal ég ekki blanda inn í þetta, en vil aðeins gera grein fyrir þeim höfuðbreyt., sem eru í þessu frv. frá því, sem var í frv. um skuldaskilasjóð útgerðarmanna, sem flutt var á síðasta þingi af okkur sömu flm.

Í 2. gr. þess frv. var gert ráð fyrir, að stofnfé skuldaskilasjóðs yrði 5 millj. Þetta er óbreytt í 2. gr. þessa frv. Sömuleiðis það, að fiskveiðasjóður skyldi leggja fram 1/4 millj. kr. Líka er það óbreytt, að skuldaskilasjóði skuli aflað fjár á þann. hátt, að útflutningsgjald af sjávarafurðum skuli renna í sjóðinn, þangað til það, sem til vantar, þ. e. a. s. 43/4 millj., er greitt í sjóðinn. Aðeins höfum við gert ráð fyrir, sökum versnandi útlits um útflutning þessara afurða, að þetta mundi taka lengra árabil. Í frv., sem flutt var á síðasta þingi um þetta, var gert ráð fyrir, að ef skuldaskil færu fram á 2 árum, eða að lánveitingum úr sjóðnum væri lokið á tveimur árum, þyrfti sjóðurinn að fá til bráðabirgða lán, sem næmi 3 millj. kr., sem greiddist síðan með þessum löglega ákveðnu tekjum sjóðsins af útflutningsgjaldi. Sökum þess, að vænta má, eftir versnandi útliti, að sjóðnum mundi safnast fé á þennan hátt nokkru tregar en gert var ráð fyrir í fyrra, þá höfum við ekki þorað annað en gera ráð fyrir, að sjóðurinn þyrfti um 4 millj. kr. bráðabirgðalán, og sökum þess að engin vissa er fyrir því, að þetta lán geti fengizt innanlands, en leiðir munu nú lokaðar fyrir því, að slík lán megi taka erlendis, samkv. því, sem gerzt hefir í sambandi við síðustu lántöku stj. í Englandi, þá höfum við nú farið inn á þá braut í þessu frv., að leggja til, að gefin verði út handhafaskuldabréf fyrir þessari upphæð og þau séu tryggð með eignum og tekjum skuldaskilasjóðs, sem eiga að vera nokkuð örugg trygging, ef honum væri með l. tilskilið sitt eigið útflutningsgjald, þar til þessi upphæð er fengin, en auk þess ábyrgist fiskveiðasjóður, og loks sé einnig ríkisábyrgð. Við höfum gert ráð fyrir, að vextir af bréfunum verði 41/4% og þau séu dregin inn á 10 árum, eða m. ö. o., að þau verði innleyst að fullu á 12 árum eftir að þau hafa verið gefin út, því að útdráttur ætti ekki að byrja fyrr en eftir 2 ár. Verður það því að teljast öruggt, að þessi bréf geti ekki fallið í verði, af því að útdráttartíminn er mjög stuttur og tryggingarnar óvenjulega öruggar, þar sem sjóðnum væru ákveðnar tekjur, sem telja verður, að séu alveg vissar, þó að ekki megi segja með öryggi um það, hversu langan tíma þarf til að safna þeim, en þar ætlum við tímann nokkuð rúman.

Þetta er höfuðbreyt., sem við leggjum til, að gerð verði í þessu máli, og af þeirri ástæðu, sem ég minntist á áðan, að útflutningsgjald af sjávarafurðum lítur út fyrir að rýrna, þá höfum við ekki þorað að setja markið neitt ákveðið, hvenær sjóðurinn skuli hætta að fá þessar tekjur, heldur sett ákvæðið þannig, að hann skyldi njóta teknanna þangað til fengið er þetta stofnfé, 5 millj. kr., að því meðtöldu, sem fiskveiðasjóður á að leggja til í upphafi.

Það hefir ekki svo mikið að segja frá okkar sjónarmiði, þó að þetta takmark sé ekki skýrar sett, því að í öðru frv. er lagt til, að fiskveiðasjóður Íslands skuli njóta útflutningsgjaldsins eftir að skuldaskilasjóður hefir fengið þá upphæð, sem honum er ætlað samkv. frv., og þar er það fram tekið, að fiskveiðasjóði sé ætlað þetta fé í þeim tilgangi, að hann geti orðið þess megnugur að endurnýja togaraútgerðina og lána til stórra fiskveiðiskipa, stærri heldur en venjulegra mótorskipa. - Að öðru leyti er frv. að mestu leyti shlj. frv., sem flutt var í haust, aðeins örlitlar breyt. gerðar á því.

Ég hirði ekki að hafa yfir það, sem í grg. frv. stendur; það geta hv. þm. sjálfir lesið, og hafa sjálfsagt gert. En ég vil undirstrika það, að með flutningi þessa frv. hér var upphaflega ætlazt til að leysa á þessu þingi vandræði útgerðarinnar allrar. Nú er okkur flm. kunnugt um það, að meiri hl. þings vill ekki, að þessi vandræði séu leyst. Hann um það, en við erum ráðnir í því að láta málið ekki niður falla. Við trúum því, að sá tími muni koma, að þeir menn verði í meiri hl., ekki aðeins meðal þjóðarinnar. heldur einnig á Alþingi, að svo mikill skilningur ríki um atvinnuvegi þjóðarinnar, að menn verði ásáttir um að lofa þessum höfuðatvinnuvegi, útgerðinni, að reisa sig við.