03.04.1935
Neðri deild: 44. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (4116)

121. mál, eftirlit með atvinnurekstri

Flm. (Jörundur Brynjólfsson) [óyfirl.]:

Ég get að miklu leyti skírskotað til grg. þessa frv. Mér er það vitaskuld fullkomlega ljóst, að það er miklum vandkvæðum bundið að koma við þeirri aðgæzlu, sem að haldi má koma, þegar um slíkt mál er að ræða sem þetta. Hinsvegar fannst mér rétt að ganga ekki algerlega framhjá því atriði, sem lá fyrir um skipun launamálan. Mér virðist sem í þessu efni geti verið um tvær aðferðir að ræða af hálfu ríkisvaldsins, sumpart skattaleiðina og sumpart þá aðferð, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Hvorug leiðin ætla ég, að geti komið að fullu haldi út af fyrir sig. Ég held, að það verði að viðhafa þær báðar í þessu efni. Það stendur svo misjafnt á um hag fyrirtækja og atvinnurekenda, að ég tel ógerlegt að hafa aðrahvora aðferðina einvörðungu. Skattaleiðin er venjulega þannig úr garði gerð, að ef hún ætti fullkomlega að ná tilgangi sínum, þá býst ég við, að mörgum myndi finnast sú aðferð óviðunandi. Hinsvegar get ég fullkomlega játað, að slík ákvæði og þau, sem frv. gerir ráð fyrir, ná ekki tilætluðum tilgangi sínum til fulls að því leyti, að gera má ráð fyrir, að allmisbrestasamt verði um framkvæmdina. En ég ætla, að með skynsamlegri skattalöggjöf og aðgæzlu fáist sá árangur, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Dýpra vil ég ekki taka í árinni um þetta atriði. En það er ekki hægt að neita því, að á undanförnum árum hefir margt gerzt, sem bendir til þess, að betra hefði verið að framkvæma aðgæzlu af hálfu þess opinbera einmitt í þessu efni.

Hvað ákvæði frv. snertir, þá lúta þau m. a. að þeirri lánastarfsemi, sem rekin hefir verið af lánsstofnunum hér á landi, sparisjóðum og bönkum. Ég býst ekki við, að þau fyrirtæki í landinu, sem skulda erlendis, geti að neinu verulegu leyti heyrt undir þetta ákvæði frv. Ég býst ekki við, að það verði mögulegt að koma því við, enda er okkur kannske skyldast að líta á það, sem við kemur okkar starfsháttum hér heima fyrir.

Ég vona, að sú n., sem mál þetta fær til meðferðar, taki það til rækilegrar athugunar, og er ég fyrir mitt leyti fús til þess að taka á móti hverri breyt., sem menn telja þessu máli til bóta, því að af hálfu ríkisvaldsins er að miklu leyti um frumsmíð að ræða í þessu efni. (PHalld og JakM: Þetta mun vera einsdæmi í heiminum). Það held ég, að sé ofmælt, því að þótt ríkisvaldið víða um lönd hafi kannske ekki svo mjög látið til sín taka um ákvæði þau, sem þetta frv. fjallar um, þá vil ég samt upplýsa þessa hv. þm. um það, að það eru bankarnir úti um heim, sem hafa það verkefni með höndum, sem þetta frv. fjallar um, og hefðu okkar bankar gjarnan mátt gera það líka. Ákvæði 5. gr. frv. er óþarft þar sem búið er að nema þau lög úr gildi, og það má vel vera, að menn vilji hafa annað form á 1. gr. frv., enda skiptir það vitaskuld minna máli.

Að svo komnu sé ég ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. Ég ætla, að sakir efnis málsins heyri það fyrst og fremst undir fjhn., því að þótt það sé flutt út af störfum launamálan., þá finnst mér þetta frv. ekki þurfa að fara til þeirrar n., því að þetta mál er allt annars eðlis en önnur svipuð mál. Ég legg því til, að þessu frv. verði vísað til fjhn.umr. lokinni.