11.11.1935
Neðri deild: 70. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í C-deild Alþingistíðinda. (4174)

161. mál, sláturfjárafurðir

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það er rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að ég mæltist til þess, að hæstv. forseti tæki þetta mál ekki á dagskrá fyrr en komnar væru til kjötverðlagsnefndar upplýsingar um það, hverjar kjötbirgðir væru til þann 1. nóv., og í gær komu til mín þær síðustu.

Mér skilst, að ein höfuðástæðan til þess, að hv. 6. þm. Reykv. finnur sig knúðan til að bera nú fram þetta frv., sé sú, að kjötsölulögin hafi ekki náð tilgangi sínum. Þetta telur hann sig hafa fengið að vita í bréfum frá bændum og einnig í munnlegu samtali við þá. Birtir hann svo í grg., eins og þessu til sönnunar, kafla úr 15 bréfum.

Á þessu ári hefi ég ferðazt um 12 sýslur landsins og talað við ca. fjórða hvern bónda, og ég hitti samtals 5 - fimm - bændur, sem voru óánægðir með kjötlögin. Þrír af þeim eru meðal þeirra, sem hafa ritað þessi 15 bréf, sem hv. 6. þm. Reykv. birtir hér í grg.

Nú er það að segja um fjögur fyrstu bréfin, úr Vallahreppi, Helgustaðahreppi, Jökuldalshreppi og Fellahreppi, að þessir fjórir hreppar skipta allir við sama verzlunarsvæði. Og þar hefir reynslan orðið sú, að bæði kaupmaðurinn á Eskifirði og kaupfélag Reyðarfjarðar, sem þeir verzla við, gáfu 6 aurum hærra fyrir hvert kg. af kjöti 1934 en 1933. Að öðru leyti þurfa tvö af þessum bréfum frekari upplýsinga við.

Bóndinn í Helgustaðahreppi segir, að hann hafi verið þvingaður til að leggja sláturfé inn hjá félagi, sem svo hafi hætt störfum, svo að hann hafi ekki getað fengið innieign sína útborgaða. Það kom fyrir tvo, sem höfðu slátrunarleyfi 1934, að þeir hættu verzlun þegar sláturtíð var úti. Annar var kaupmaður, hitt var kaupfélag. Tveir bændur áttu inni fyrir kjöt hjá kaupfélaginu, og það er annar þeirra, sem skrifar hv. 6. þm. Reykv. Það getur verið, að einhverjir af þeim, sem áttu inni hjá kaupmanninum, hafi skrifað líka, en þau bréf eru þó ekki birt. Ef til vill hafa þeir ekki skrifað, en þeir eru fleiri en tveir, sem eiga þar inni fyrir kjötinnlegg 1934. - En hvort þessi bóndi hefir verið neyddur til að verzla við kaupfélagið, eins og hann segir í bréfinu, það sést bezt á því, að fyrst og fremst var þarna auk kaupfélagsins kaupmaður, sem hafði líka slátrunarleyfi, og meira að segja lagði þessi bóndi inn sláturfé hjá honum, eftir því sem hann segir sjálfur, og þar að auki hafa nú um langan tíma aðeins þessir tveir aðilar slátrað á þessum stað, svo að þar hefði verið alveg eins ástatt að þessu leyti, hvort sem kjötlögin hefðu verið til eða ekki.

Bóndinn úr Fellahreppnum talar um, að slátrunin þar hafi byrjað svo seint 1934, að öll sumarslátrun á Seyðisfirði hafi eyðilagzt. Í fyrra var slátrað á Seyðisfirði 40 kindum fram að aðalsláturtíð, og slátrunin byrjaði 1. sept. Í sumar var byrjað að slátra í ágústbyrjun, og var slátrað fram að aðalsláturtíð 76 kindum. Munurinn er 36 kindur. Það er allt tjónið, sem hlotizt hefir af því, hvað slátrun byrjaði seint á Seyðisfirði í fyrra.

Þá koma tvö bréf úr Skagafirði. Annar af þeim bændum, sem þar skrifa, er settur í skakkan hrepp, en það gerir nú ekkert til. Þessir bændur hafa um þrenna möguleika að velja í sinni verzlun. Í einum staðnum var verðið 20 aurum hærra 1934 en 1933, í öðrum staðnum var 1. flokkur 3 aurum hærri 1934 en 1933 og 2. flokkur 8 aurum hærri, og í þriðja staðnum munaði það 10 aurum, sem verðið var hærra 1934. Og svo kvarta þessir menn undan tjóni vegna kjötlaganna. Ég veit ekki, í hverjum af þessum þremur stöðum þessir menn hafa verzlað, og veit það þó. Sá, sem er í Hólahreppnum, hefir verið í 10 aura hækkuninni, og sá, sem er talinn í Hofshreppi, hefir verið í 20 aura hækkuninni að langmestu leyti. Þetta er tapið, sem þeir hafa orðið fyrir!

Þá eru tvö bréf úr Húnavatnssýslu. Þau eiga að vera frá bændum, en annað er nú reyndar frá kaupmanni, en það gerir nú minna til, - en þarna hefir líka orðið hækkun.

Svo eru tvö bréf af verzlunarsvæði Ísafjarðar. Þar er hækkunin úr 73 aurum í 85 aura. En það skal viðurkennt, að annar af þeim, sem þarna kvartar, nafni minn úr Grunnavíkurhreppi, hefir alveg sérstöðu að þessu leyti. Hann hefir nú í meira en 20 ár slátrað heima og verkað kjötið með því allra bezta móti, sem hægt er að verka það, og því fengið fyrir það hærra verð en aðrir hafa fengið. Því getur vel verið, að þessi bóndi hafi ekki orðið aðnjótandi þess hagnaðar, sem lögin annars veita, nema þá að litlu leyti.

Næst skrifar bóndi úr Reykhólahreppi og kvartar yfir lögunum. Þar var kjötverðið 63 aurar 1933, en 79,4 aurar 1934. Svo er bóndi úr Tálknafjarðarhreppi. Þar var verðið 60 aurar 1933, 82 aurar 1934. Þá er bréf úr Breiðavíkurhreppi. Þar var verðið 66 aurar 1933, en 80 aurar 1934, og annað bréf úr Stykkishólmshreppi. Þar hækkaði verðið úr 75 aurum og upp í 86 aura. Síðast er svo bréf úr Stafholtstungum. Það, sem sá bóndi hefir að kvarta yfir, er 13 aura hækkun.

Með þessu vil ég þá hafa sýnt fram á það, að kjötverðið hefir hækkað á hverjum einasta af þeim stöðum, sem þessi bréf eru komin frá, og svo kvarta bréfritararnir undan því, að kjötlögin hafi gert þeim skaða!

Í þessu sambandi er rétt að gera sér það ljóst, hvað það er, sem bændur landsins hafa fengið alls í hækkuðu verði vegna kjötlaganna. Í greinargerð frumv. er sagt berum orðum, að það sé ekki neitt. Þar er sagt, að tilgangur laganna hafi verið að hækka verðið til bænda, en þetta hefði alveg mistekizt. Þetta stendur í grg., bls. 3. Til þess að finna hið rétta í þessu efni, lagði ég vinnu í það í gær, eftir að kjötverðlagsnefndin hafði fengið að vita, hvaða verð kaupfélögin hefðu borgað til bænda á hvern flokk af kjöti árið 1933 til 1934. Ég hefi skýrslur frá 1934 um það, hversu mikið kjötmagn hefði verið hjá hverju einstöku félagi, og gekk út frá því, að kjötmagnið hefði verið það sama 1933 og 1934. Það er ekki víst, að svo hafi verið, en nær verður ekki komizt enn með samanburðinn.

Þegar ég var þannig búinn að sjá, hvað kaupfélögin hefðu borgað til bænda fyrir allt kjötið, þá deildi ég kjötþunganum í þá tölu. Þá kom það út, að meðalverð fyrsta flokks dilkakjöts var hjá kaupfélögunum 84,2 aurar hvert kg. Árið áður var það 74 aurar. Munurinn er því 10,2 aura hækkun. Nú er það við þennan reikning að athuga, að hér er ekki allt kjötið tekið með. Alls féllzt til 4446000 kg. af dilkakjöti. Þar af hafði ég gögn um mestallt það, sem til kaupfélaganna kom, eða tæpa 34 af kjötmagninu. Hitt, eða 1/4, var hjá kaupmönnum og einstaka félögum, sem mig vantaði gögn frá, og leyfði ég mér að ganga út frá, að þeir hefðu yfirleitt greitt sama verð fyrir kjötið og kaupfélögin. Og gangi ég út frá því, þá kemur það út, að fyrir verðhækkunina hafa bændur fengið árið 1934 513281 kr. meira en fyrir sama kjötmagn árið áður, og er þá bætt við verðhækkun á geldfjárkjötið, sem var nokkru meiri pr. kg. en á dilkakjötinu, enda komst það t. d. á Kópaskeri í 1,05 verð pr. kg.

Nú er enn tvennt við þetta að bæta. Frysta kjötið féll á erlendum markaði um 61/2 eyri hvert kg., eða 103165 kr. allt það freðkjöt, sem út var flutt. Það kom ekki fram árið 1934, af því að þá voru kjötlögin komin og bættu það upp. Má því bæta þessari upphæð við hagnaðinn. Saltkjötið féll líka um 4 aura kg., eða samtals 37837 kr., og má auðvitað eins bæta því við. Það eru því samtals 654293 kr., sem bændur hafa hagnazt vegna kjötlaganna. Og svo segir hv. 6. þm. Reykv., að þeir hafi haft skaða af þeim og því beri að breyta lögunum. Hafa hv. þdm. heyrt meiri öfugmæli?

Nú veit ég, að hv. 6. þm. Reykv. segir: „Þarna er ríkisstyrkurinn meðtalinn.“ Það er rétt. Hann var 150000 kr. árið 1934, en 96700 kr. árið 1933. Munurinn er um 53 þús., og má draga hann frá hagnaðinum. Kemur það þá í ljós, að bændur hafa kjötlaganna vegna fengið 600 þús. kr. meira fyrir kjötið árið 1934 heldur en árið 1933, þegar engin kjötlög voru, og þó nokkru meira en fram kemur í tölunum, og það kemur til af því, að árið 1934 var takmarkið milli 1. og 2. flokks fært úr 13 kg. niður í 12 kg., svo að árið 1934 hefir farið í 1. flokk mikið kjötmagn, sem hefði ekki getað lent þar samkv. þeirri flokkun á kjöti, sem var árið 1933. Það skapar bændur mikla hækkun, sem kemur ekki fram í þessum útreikningi. - Með þessu verður hv. 6. þm. Reykv. að viðurkenna það, að sú ásökun í garð kjötlaganna, að þau hafi ekki megnað að færa bændum neina hækkun, er ekki rétt.

Þá segir hv. 6. þm. Reykv. og fleiri, að raunin hafi orðið sú, að við, sem höfum átt að sjá um framkvæmd kjötsölulaganna, höfum hreint og beint ekkert gert til þess að vernda innlenda markaðinn, enda sé svo komið hvað hann snerti, að hreinn voði sé fyrir dyrum hér í Reykjavík, því að hingað sé kjötinu hrúgað „að vestan, austan og norðan“, eins og það var orðað í einu bréfinu sem til okkar var sent til að krefjast þess, að við stöðvuðum flutning á kjöti hingað í bæinn. Þessu er því að svara, að strax í haust voru gerðar ýtarlegar ráðstafanir í þessu efni. Þeim, er fengu sláturleyfi, var aðeins leyft að selja ákveðinn hluta af kjötmagni sláturfjárins innanlands, og miðað við það, að ekki kæmi meira á innanlandsmarkaðinn en seldist á honum í fyrra. Þetta hafði þau áhrif, að nú er um 50 smálestum minna af freðkjöti hér í Reykjavík en var á sama tíma í fyrra, og af birgðunum, sem nú eru hér, eru. um 80 smál. verkaðar þannig, að það má flytja þær út, ef á þarf að halda. Þrátt fyrir þetta segja þessir góðu menn, að markaðurinn sé yfirfylltur. Vita þeir, hvað þeir eru að segja?

Þá talar hv. (6. þm. Reykv. mikið um það, að ekki hafi verið hægt að fá að byrja slátrun sauðfjár í haust eins snemma og í fyrra eða undanfarið, og hafa sjálfstæðismenn og fylgifiskar þeirra gengið svo langt að láta það í veðri vaka, að tjónið af þessu hafi verið svo mikið, að jafnvel þó að eitthvað fengist hærra fyrir kjötið vegna kjötsölulaganna, þá myndi það ekki gera betur en vega á móti því tjóni, sem kjötframleiðendur hefðu beðið vegna þessarar minnkuðu sumarslátrunar.

Til þess nú að sýna hv. þingmönnum, hvílíkum firrum hér er verið að halda fram, þá hefi ég aflað mér upplýsinga um það, hvenær slátrun sauðfjár hafi byrjað hér í Reykjavík nú síðastl. 5 ár. Árið 1931 byrjar hún 1. ágúst, 1932 28. júlí, 1933 15. júlí, 1934 1. ágúst og nú 1935 14. ágúst. Á þessu sést, að nú í ár byrjar slátrunin aðeins 13 dögum seinna en 1934, en þá voru sem kunnugt er engin kjötsölulög á þeim tíma. Þau komu fyrst til framkvæmda 1. sept. Undanfarin 5 ár hefir sumarslátrunin verið 3000-4000 fjár í ágúst hér í Reykjavík og nágrenni. Þá mun láta nærri, að slátrað hafi verið um 1000-1500 kindum minna í sumar en t. d. í fyrra, og er það reiknað hlutfallslega eftir dagafjölda. Það eru öll býsnin, og sjá því allir, hvílíkt tjón slíkt getur verið fyrir allt að 2000 bændur, sem hér eiga hlut að máli. Það er svona liðlega hálft lamb á bónda!

Ég tel mig nú hafa sýnt það með skýrum rökum, að verð það, sem bændur fengu fyrir kjöt sitt 1934, hafi verið allt að 600 þús. kr. hærra en þeir fengu 1933, sem kemur þannig út, að þeir hafa fengið um 1/2 millj. í peningum og losnað við 100 þús. kr. verðfali, sem óneitanlega hefði komið, ef kjötsölulögin hefðu ekki verið sett. Tapið vegna minni sumarsölu er alls ekki teljandi.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég leyfa mér að víkja nokkrum orðum að frumv. hv. 6. þm. Reykv. Það virðist óneitanlega liggja alleinkennileg hugsun bak við þetta frv., ef það er þá nokkur hugsun, annað en fimbulfamb út í loftið og tilraun til að láta bera á sér. Það er t. d. gert ráð fyrir, að í kjötverðlagsnefndinni starfi menn til skiptis, útnefndir af bæjar- eða sveitarstjórn fjölmennasta bæjar- eða sveitarfélags á hverju kjötverðlagssvæði. Sér nú ekki hv. þm., hver fjarstæða þetta er, að láta t. d. mann koma austan af Seyðisfirði eða vestan af Ísafirði til þess að sækja fundi með nefndinni, sem haldnir eru vikulega að sumrinu seinni partinn og svo til daglega í september og október. Þá er og lagt til, að verðjöfnunargjaldið verði borgað „prósentvís“ af nettóverði í stað þess, sem það nú er miðað við kg., og að það falli í gjalddaga um leið og slátrun fer fram, eins og nú er. Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., hvernig t. d. kaupfélag Svalbarðseyrar hefði átt að greiða verðjöfnunargjaldið í fyrra „prósentvís“ af verði, sem það er ekki búið að ákveða ennþá. Ræðumanni ætti að vera kunnugt, að ekki má selja nema ákveðinn hluta af freðkjötinu til Englands fyrir áramót, og eigi kjöt að vera til á innlenda markaðinum, skilur hv. 6. þm. Reykv. væntanlega, að það selst ekki allt í sláturtíð. Enginn getur því sagt, hvert kjötverðið verður til bænda, fyrr en kjötsölunni er lokið. En þó á að reikna verðjöfnunargjaldið af þessu óþekkta kjötverði að haustinu um leið og slátrun fer fram. Gott væri að fá upplýst, hvernig þetta ætti að gerast. Annars er það svo, að ég býst ekki við, að hv. þm. skilji bið minnsta í því, sem hann er að bera fram í frv.

Hv. flm. sagði hér á dögunum um sjálfan sig, að hann væri drenglyndur maður. Hvort svo er. skal ég engan dóm á leggja, en sé hann drenglyndur maður, þá vænti ég, að hann sjái villu síns vegar og taki frumv. aftur, og það helzt nú þegar.