08.11.1935
Neðri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í C-deild Alþingistíðinda. (4210)

166. mál, útgerð ríkis og bæja

Sigurður Kristjánsson:

Það er aðeins stutt aths., sem ég þarf að gera. - Ég held, að þessu málefni hv. flm. verði ekki mikil stoð að því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, því að hann las einmitt upp orð úr því skjali, sem ég held, að sé einna fjandsamlegast útgerðinni af þeim þingplöggum, sem fram hafa komið. Þar segir, eins og hv. þm. las upp, að „skipaeigendur voru ekki þess megnugir eða hirtu ekki um að endurnýja togaroflotann“. Þessi slagorð, að þeir „hirtu ekki um það“, hafa ennþá ekki fengið neina stoð. Þau sýna ekki annað en tilhneigingu manna, sem er illa við útgerðina eða útgerðarmenn. Þeir segja þessi ósannindi, en verða aldrei þess megnugir að færa sönnur fyrir þeim. Og svo er þessi maður, hv. þm. Ísaf., að tyggja upp þessi fjandsamlegu ummæli um þá menn, sem alltaf hafa sýnt, að þeir vildu endurnýja skipin, þótt þeir hafi neyðzt til að kaupa gömul skip, þegar þeir gátu ekki keypt ný, til þess að endurnýja togaraflotann, - Ég þarf ekki að svara þessu með fleiri orðum. Við komum til með að kljást um þetta mál í n., en það er bert af þeim ummælum, sem hv. þm. las upp, þar sem það er tekið fram, að ríkið verði að taka til sinna ráða í þessum efnum, að það er ekki annað en ákveðinn vilji, sem látinn er í ljós um það, að einstaklingarnir reki ekki þessa atvinnu, heldur komist hún í hendur ríkisins. Og það er bert, að það, sem vakir fyrir stuðningsmönnum þessa máls, er með illu eða góðu að útrýma fyrst og fremst þeim mönnum, sem með framtaki sínu standa undir þessum atvinnurekstri, til þess að koma honum öllum í hendur ríkisins.