19.11.1935
Neðri deild: 77. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í C-deild Alþingistíðinda. (4246)

174. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sigurður Kristjánsson:

Ég skal ekki lengja mikið umr. þessar. — Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég tel það fullkomlega þess vert, að unnið sé að því að reyna að ná þessum tilgangi, sem hv. frsm. sagði, að væri með flutningi þessa frv., að smíðin geti orðið fremur innlend en útlend á þeim mótorbátum, sem landsmenn þurfa að nota við fiskveiðar. Ég stóð upp aðeins vegna þess, að ég vil aftur leggja áherzlu á þessi orð, sem í grg. eru og hv. flm. hafa allir þar með gert að sínum orðum, að það sé óeðlilegt, að sjávarútvegurinn sé skattlagður fyrir fyrirtæki og framkvæmdir, sem eðli sínu samkv. eru næsta óskyldar þessum atvinnurekstri. Og með þessum orðum hafa þessir flm. — og það tel ég þeim til sóma — gefið alveg rétta yfirlýsingu. En það er líka annað, sem ég vil leggja áherzlu á, að þessir sömu menn hagi framkomu sinni í afgreiðslu annars máls, sem fyrir Alþ. liggur, samkv. þessari yfirlýsingu, — útflutningsgjaldinu af sjávarafurðum, sem oftast hefir numið einni millj. kr. og sjávarútvegurinn er ekki lengur fær um að bera, vil ég að þeir samþ., að létt verði af, því að það gengur að mestu leyti til hluta, sem eru harla óskyldir sjávarútvegsmálum. Ég vil halda því fram, að þeir, sem líta á þetta mál eins og hv. flm. rita í grg. frv., hljóti að verða okkur hinum sammála og samtaka um að létta útflutningsgjaldinu af sjávarafurðum.