21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í C-deild Alþingistíðinda. (4292)

183. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Ég get verið hv. þm. Ísaf. þakklátur fyrir þær undirtektir, sem frv. hefir fengið hjá honum, þar sem hann komst svo að orði í ræðu sinni, að ekki mundi vera ósanngjarnt, að viðkomandi bæjar- eða sveitarfélög fengju einhverjar tekjur af þeim atvinnurekstri, sem hér er um að ræða. Hinsvegar vildi hann telja það gjald, sem gert er ráð fyrir í frv., of hátt. Má vel vera, að við nánari athugun, rannsókn á árlegu framleiðslumagni verksmiðjanna og samanburði við önnur fyrirtæki, komi í ljós, að svo sé. Enda gat ég þess þegar í framsögu, að ég væri reiðubúinn til samkomulags um slíka hluti, þó vitanlega þannig, að gætt sé alls hófs.

Annars komu fram nokkur atriði í ræðu hv. þm. Ísaf., sem ég hefi talsvert við að athuga, en sumt af því var að vísu áður fram komið hjá hv. 3. landsk. Hv. þm. vildi t. d. halda fram, að hvaða sveitar- eða bæjarfélag sem væri mundi nú reiðubúið til að lofa, að síldarverksmiðja, sem ríkið ætti, skyldi fá að vera þar gjaldfrjáls, ef það ætti kost á, að hún yrði þar reist, því svo mikil atvinnuaukning væri á hverjum stað að stofnun slíks fyrirtækis. Það kann að vera rétt. En ég geri líka ráð fyrir því almennt, að ef um slík atvinnufyrirtæki væri að ræða, hvort sem það væru síldarverksmiðjur eða annað, þá mundi yfirleitt ekki standa á loforðum um að veita þeim sem mest hlunnindi í bili. Á slíku er náttúrlega ekki meira en svo byggjandi. Það er vitanlegt, að bæjarfélögin vilja fá atvinnurekstur til sín og þá m. a. til þess að fá þær tekjur, sem af því leiðir. Það er líka rétt, sem hv. þm. Ísaf. tók fram, að það má alltaf gera ráð fyrir, að bæjarfélögin hafi meiri eða minni útgjöld vegna fólksstraumsins.

En það var eitt í ræðu hv. þm. Ísaf., sem ég skildi ekki vel. Það var þegar hann var að tala um samvinnufélög í sveitum annarsvegar og í kaupstöðum hinsvegar. Mér virtist hann vera að gefa í skyn, að ég vildi hafa tvennskonar rétt fyrir þessi tvennskonar samvinnufélög. En við betri athugun mun hann komast að raun um, að þetta er hugarburður. Ef um samvinnufélög er að ræða, gilda í samvinnulögunum sömu ákvæði um gjöld þeirra, hvort sem þau eru heldur við sjó eða í sveit. En viðvíkjandi því, hvort síldarverksmiðjurnar geti reiknazt sem samvinnufélög eða ekki, þá er það athugandi, að að vísu er í lögum gert ráð fyrir, að þær verði reknar á þeim grundvelli, en hv. þm. Ísaf. upplýsti það sjálfur, að í rekstri síldarverksmiðjanna hefði ekki verið fylgt þeirri grundvallarreglu, sem samvinnufélög hafa, að kaupa ekki vöruna, heldur hafa hana í umboðssölu. Þessari höfuðreglu samvinnufélaganna hafa síldarverksmiðjurnar ekki fylgt, og er þar eitt skýrt atriði, sem greinir á milli.

Fleira held ég ekki, að það hafi verið, sem ég þurfti að svara hv. þm. Ísaf. Hann tók yfirleitt vingjarnlega í frv., enda kom mér það ekki á óvart, eftir það sem ég áður þekkti til skoðana hans í þessu máli.